Fjöldi þeirra sem skráðir eru í Kaþólsku kirkjuna á Íslandi hefur næstum fjórfaldast frá aldarmótum. Þá voru 3.857 manns skráðir í kirkjuna en um síðustu áramót voru þeir orðnir 12.901. Frá byrjun árs 2010 hefur kaþólikkum á Íslandi fjölgað um yfir þrjú þúsund. Þetta má sjá úr tölum Hagstofu Íslands og Þjóðskrár um breytingar á trú- og lífskoðunarfélagsaðild.
Þeim sem skráðir eru í trúfélög múslima á Íslandi hefur einnig fjölgað mjög á undanförnum árum. Árið 1998 voru 78 manns skráðir í Félag múslima á Íslandi. Árið 2017 voru þeir orðnir 542 talsins en frá 2010 hafa verið tvö trúfélög múslima hérlendis. Hitt, Menningarsetur múslima, var með 406 meðlimi skráða í byrjun árs í fyrra. Fjöldi múslima sem skráðir eru í trúfélög hérlendis hefur því rúmlega tólffaldast á 19 árum.
Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað gífurlega á Íslandi á undanförnum árum. Sú aukning hefur verið sérstaklega mikil í ár. Á fyrstu níu mánuðum ársins jókst fjöldi þeirra um 6.310. Það er aukning á fjölda erlendra ríkisborgara á Íslandi um 21 prósent frá því sem var um síðustu áramót. Frá 2010 til septemberloka 2017 hafði erlendum ríkisborgurum fjölgað um 9.318 í 36.585, eða um 74 prósent. Bein fylgni er á milli fjölgunar erlendra ríkisborgara sem flytja hingað til lands og fjölgunar í ofangreindum trúfélögum.
Meðlimum í Siðmennt og Zúistum fjölgaði mikið
Skráð trú- og lífsskoðunarfélög fá greidd sóknargjöld með hverjum skráða sóknarfélaga. Vegna ársins 2016 voru sóknargjöld sem greidd voru til trú- og lífskoðunarfélaga um 2,4 milljarðar króna. Þar af fóru rúmir tveir milljarðar króna til íslensku þjóðkirkjunnar.
Áratugum saman var skipulag mála hér lendis þannig að nýfædd börn voru ætið skráð í trúfélag móður. Það þurfti því sérstaklega að skrá sig úr trúfélagi í stað þess að skrá sig inn í það. Þessu var breytt árið 2013 og nú þurfa báðir foreldrar að tilheyra sama trú- og lífsskoðunarfélagi til að barnið sé skráð í félag, annars skráist barnið utan trúfélaga. Á sama tíma var ramminn utan um hvers kyns félög mættu skrá sig sem trú- og lífskoðunarfélög og þiggja sóknargjöld rýmkaður.
Zúistum hefur líka fjölgað mikið á örfáum árum. Þeir voru tveir árið 2014 en fjöldi þeirra rauk upp í rúmlega þrjú þúsund í byrjun árs 2016, eftir að hópur manna taldi sig hafa tekið yfir félagið og ætlaði að endurgreiða fólki þau sóknargjöld sem innheimt yrði vegna þeirra. Síðan stóð yfir áralöng barátta milli þess hóps og þeirra aðila sem áður höfðu farið með yfirráð í félagsskapnum. Sú barátta endaði með sigri hinna síðarnefndu. Zúistar fengu 32 milljónir króna greiddar úr ríkissjóð vega sóknargjalda á árinu 2016.
Fjöldi utan trúfélaga hefur tvöfaldast frá 2010
Fjöldi þeirra íbúa á Íslandi sem skráðir eru utan trú- og lífsskoðunarfélaga hefur rúmlega tvöfaldast frá því í byrjun árs 2010. Þá voru þeir sem voru skráðir utan slíkra félaga 10.336 talsins. Um síðustu áramót var sú tala komin upp í 20.500 og á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 bættust 1.021 manns við sem stóðu utan trú- og lífskoðunarfélaga. Heildarfjöldi þeirra í dag er því orðinn 21.521. Alls eru 111.042 íbúar utan þjóðkirkjunnar, eða 32 prósent allra landsmanna.
111 þúsund standa utan þjóðkirkjunnar
Frá árinu 2009 hefur fjöldi þeirra sem skráðir eru í þjóðkirkjunni dregist saman á hverju einasta ári. Um síðustu áramót voru þeir 236.481 talsins, sem þýddi að undir 70 prósent þjóðarinnar væri í kirkjunni.
Það sem af er árinu 2017 hafa 1.261 gengið úr þjóðkirkjunni en 488 verið skráðir í hana. Þeim sem í kirkjunni eru hefur því fækkað um 773 á fyrstu níu mánuðum ársins í ár, og eru skráðir meðlimir því 235.708 talsins. Í lok september bjuggu 346.750 manns á Íslandi. Það þýðir því að 111.042 landsmenn standi utan þjóðkirkjunnar, eða 32 prósent þeirra. Um síðustu aldarmót var fjöldi þeirra sem stóðu utan þjóðkirkjunnar 30.700. Þeim hefur því fjölgað um 80.342 síðan þá.