- Konur sem búa á Íslandi voru 170.160 í lok september síðastliðins. Þær eru 49,2 prósent þjóðarinnar. Atvinnuþátttaka kvenna er 78,3 prósent en atvinnuþátttaka karla er 85,5 prósent.
- Óleiðréttur launamunur kynjanna var 16,1 prósent í fyrra. Launamunurinn var rúmlega 16 prósent bæði á almennum vinnumarkaði og hjá ríkisstarfsmönnum en rúm átta prósent hjá starfsmönnum sveitarfélaga þar sem launadreifing er almennt minni.
- Konur eru 39 prósent forstöðumanna hjá stofnunum ríkisins. Hlutfallið hefur hækkað úr 37 prósentum í fyrra og 29 prósentum árið 2009. Forstöðumenn hjá ríkinu voru 154 í janúar á þessu ári, og hafði fækkað um tvo á einu ári. Konur eru nú samtals 60 talsins meðal 154 forstöðumanna hjá ríkinu. Allar stofnanir ríkisins eru meðtaldar í kynjabókhaldinu, að undanskildum stofnunum utan framkvæmdavaldsins, Alþingi, stofnunum þess og dómstólum.
- Nýlegar tölur frá Hagstofunni sýna að hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja á Íslandi stendur í stað milli ára. Konur eru 25,9 prósent stjórnarmanna í fyrirtækjum á Íslandi. Frá árinu 1999 hefur hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja hækkað úr 21,3 prósentum í 25,9 prósent. Þegar litið er til fyrirtækja með 50 eða fleiri starfsmenn voru konur 32,3 prósent stjórnarmanna í lok síðasta árs.
Auglýsing
- Konum fjölgaði lítillega í stöðum framkvæmdastjóra í fyrra, en hlutfall þeirra fór úr 21,9 prósenti í 22,1 prósent. Samkvæmt því voru 2.932 konur í stöðu framkvæmdastjóra hér á landi í lok ársins 2016. Hagstofan greinir tölurnar einnig eftir greinum, og í aðeins einni þeirra eru konur í meirihluta framkvæmdastjóra. Það er í félagasamtökunum og annarri þjónustustarfsemi, þar sem konur eru 64 prósent framkvæmdastjóra. Í fræðslustarfsemi eru konur 45,6 prósent framkvæmdastjóra og 39,6 prósent í heilbrigðis- og félagsþjónustu.
- Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja tóku að fullu gildi hér á landi í september 2013 og samkvæmt þeim ber fyrirtækjum með 50 eða fleiri starfsmenn að tryggja að hlutfall hvors kyns í stjórn sé ekki undir 40 prósentum. Árið eftir það náði hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja af þessari stærð hámarki, fór upp í 33,2 prósent, en hefur síðan farið lækkandi aftur.
- Í lok síðasta árs voru konur 23,9 prósent stjórnarformanna landsins. Það gera 3.691 konu sem gegndi slíku starfi. Aftur eru konur eingöngu í meirihluta stjórnarformennskustarfa í félagasamtökum og annarri þjónustustarfsemi, þar sem þær eru 58 prósent stjórnarformanna. Sömu sögu er svo að segja af stjórnarmennsku kvenna, þær eru í meirihluta stjórna félagasamtaka og annarrar þjónustustarfsemi, en hvergi annars staðar.
- Kjarninn hefur síðastliðin fjögur ár gert úttekt á stöðu kvenna á meðal æðstu stjórnenda viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, félaga á leið á markað, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og –miðlana, framtakssjóða, orkufyrirtækja, greiðslustofnana, Kauphallar og lánasjóða. Úttektin nær til æðsta stjórnanda hvers fyrirtækis eða sjóðs. Niðurstaðan í ár, samkvæmt úttekt sem framkvæmd var í febrúar 2017, er sú að æðstu stjórnendur í ofangreindum fyrirtækjum séu 88 talsins. Af þeim eru 80 karlar en átta konur. Það þýðir að 91 prósent þeirra sem stýra peningum á Íslandi eru karlar en níu prósent konur.
- Nýr forsætisráðherra þjóðarinnar er kona. Hún er önnur konan í lýðveldissögunni til að gegna því embætti. Ein kona hefur setið sem forseti en enginn hefur sest í stól seðlabankastjóra. Í síðustu kosningum fór hlutfall kvenna á þingi úr 47,6 prósent í 38 prósent. Af 17 stjórnendur lífeyrissjóða er 15 karlar. Öllum skráðum félögum á Íslandi er nú stýrt af körlum. Auk þess er forstjóri Kauphallarinnar karl.
- Síðustu vikur hafa þúsundir kvenna sem starfa í ýmsum geirum opinberað að hér á landi hefur ríkt kerfislæg þöggun og umburðarlyndi gagnvart kynferðisofbeldi og -áreiti. Stjórnmálakonur riðu á vaðið. Þær mynduðu Facebook-hóp sem hét „Í skugga valdsins“, ræddu saman og deildu reynslusögum um kynjað starfsumhverfi stjórnmála. Rúmlega 800 konur voru virkar í hópnum og 306 þeirra sendu síðar frá sér tilkynningu með 136 sögum sem drógu upp sláandi mynd af þeim karllæga heimi sem stjórnmálin eru – sögur um kynbundið ofbeldi, áreitni, valdbeitingu og þöggun. Fleiri hópar fylgdu í kjölfarið. Tæplega 600 konur úr sviðslistum og kvikmyndagerð skrifuðu undir áskorun þar sem þær kröfðust aðgerða gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni. með fylgdu 62 sögur af kynferðisofbeldi, áreitni og mismunun. Nokkrum dögum síðar skrifuðu 330 konur innan vísindasamfélagsins undir sambærilega áskorun og sendu 106 sögur með. Konur innan íþróttahreyfingarinnar, fjölmiðla, heilbrigðis- og fluggeirans hafa fylgt í kjölfarið.
Tíu staðreyndir um stöðu kvenna á Íslandi
Jafnrétti kynjanna er meira á Íslandi en í flestum öllum löndum. En þýðir það að staða kynjanna hérlendis sé ásættanleg? Hér koma tíu staðreyndir sem byggja á hagtölum og öðrum gögnum um stöðu kvenna á Íslandi.
Auglýsing
Við þurfum á þínu framlagi að halda
Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.
Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.
Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.
Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.
Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.
Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.
Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.
MorgunpósturinnEkki missa af neinuNánar