Í júní árið 2012 kom Hu Jintao, þáverandi forseti Kína, í opinbera heimsókn til Kaupmannahafnar. Undirbúningur heimsóknarinnar, sem stóð yfir í þrjá daga, hafði staðið yfir um meira en tveggja ára skeið. Þótt opinberar heimsóknir krefjist ætíð mikils undirbúnings var undirbúningur þessarar heimsóknar þó mun flóknari og tímafrekari en áður hafði þekkst.
Litla hafmeyjan jók áhuga Kínverja á Danmörku
Við undirbúning Heimssýningarinnar í Sjanghæ, sem haldin var árið 2010, höfðu Kínverjar falast eftir að fá styttuna af Litlu hafmeyjunni lánaða. Litla hafmeyjan, sem margir segja þekktustu myndastyttu á Norðurlöndum, hafði setið á steini sínum við Löngulínu frá árinu 1913 og aldrei hreyft sig þaðan (að vísu tvisvar verið gerð höfðinu styttri) og aldrei hafði komið til tals að hún færi eitt eða neitt. En það er til marks um áhrif Kínverja að styttan fór til Sjanghæ og vakti mikla athygli þar sem hún sat á steini í danska skálanum á meðan Heimssýningin stóð yfir.
Hvort sem það tengist Kínaferð Litlu hafmeyjunnar eða ekki hefur áhugi Kínverja á Danmörku, og öllu því sem danskt er, stóraukist á síðustu árum. Fjöldi kínverskra ferðamanna sem leggur leið sína til Danmerkur hefur margfaldast og það er fastur liður í slíkri heimsókn að skoða Litlu hafmeyjuna. Áhugi Kínverja á höfundi sögunnar um hafmeyjuna hefur líka aukist mikið og aðsókn Kínverja að H.C. Andersen safninu í Óðinsvéum, fæðingarbæ skáldsins, hefur aukist með hverju ári. Það var þetta járn sem Danir voru staðráðnir í að hamra meðan það væri heitt.
Margar kröfur kínverskra embættismanna
Undirbúningur heimsóknarinnar fór fram í náinni samvinnu danskra og kínverskra embættismanna. Dönsku embættismennirnir vissu að kínverskir starfsbræður þeirra væru bæði kröfuharðir og nákvæmir, í þeim efnum kom fátt á óvart. Kínverjarnir lögðu á það mikla áherslu að í þessari heimsókn gerðist ekkert sem yrði til þess að forsetinn myndi „tabe ansigt“, móðgast og hann gæti túlkað sem auðmýkingu. Þótt orðið Tíbet væri hvergi nefnt vissu Danirnir hvað klukkan sló.
Embættismennirnir í danska Utanríkisráðuneytinu fullvissuðu Kínverjana um að allt yrði gert sem hægt væri til að gera heimsókn kínverska forsetans sem ánægjulegasta. Vel að merkja innan ramma laganna. Bentu á að í Danmörku ríkti tjáningarfrelsi og almenningur þyrfti ekki að biðja um leyfi til að láta skoðanir sínar í ljós.
Ekki einn á ferð
Með kínverska forsetanum kom fjölmennt lið embættismanna og forystumanna í kínversku atvinnulífi. Heimsóknir af þessu tagi eru eitt mikilvægasta tækifæri sem gefst til að skapa viðskiptatengsl. Það er eftir miklu að slægjast í þessum efnum þegar Kína er annars vegar, „stór kúnni“ sagði forstjóri í stóru dönsku fyrirtæki.
Dagskrá kínversku gestanna var stíf, danska lögreglan, sem hafði umsjón með öryggisgæslunni hafði fyrst og fremst áhyggjur af forsetanum, einkum og sér í lagi ökuferð hans um Kaupmannahöfn. Vitað var að samtök sem nefna sig „Vini Tíbets“ myndu mótmæla við Kristjánsborgarhöll. Lögreglan var búin að gera margháttaðar ráðstafanir til að halda öllum mótmælendum fjarri þeim slóðum sem forsetinn færi um.
Tóku fánana af mótmælendum
Þegar bílalest kínverska forsetans nálgaðist Kristjánsborgarhöll, eftir ökuferð um borgina, meðal annars að Litlu hafmeyjunni og Rósenborgarhöll, reyndu „Vinir Tíbets“ og fleiri að láta á sér bera og bregða á loft fána Tíbets. Lögreglan sem var með mikinn viðbúnað brást hart við og lögregluþjónar á staðnum fengu fyrirskipanir í gegnum talstöð að „rífa af þeim flöggin“.
Þessar fyrirskipanir komu frá Claus Hjelm Olsen, einum hæst setta yfirmanni dönsku lögreglunnar, sem ásamt Henrik Oryé, öðrum háttsettum innan lögreglunnar, stjórnaði aðgerðum á vettvangi. Stórir lögreglubílar voru líka notaðir til að koma í veg fyrir að kínverski forsetinn sæi mótmælendur. Ekki er vitað hvort forsetinn sá einhversstaðar glitta í fána Tíbets en hann lýsti mikilli ánægju með heimsóknina, bauð Margréti Þórhildi til Kína (sú heimsókn fór fram 2014) og fyrr á þessu ári fór Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra í slíka heimsókn. Viðskipti landanna hafa aukist mikið og kínverskum ferðamönnum í Danmörku hefur fjölgað mikið eins og áður var á minnst.
Hver sagði hvað ?
Þótt heimsókn kínverska forsetans hafi heppnast vel og danskir ráðherrar og lögregluyfirvöld líklega andað léttar þegar flugvél hans var horfin úr augsýn var ekki öll sagan sögð. „Vinir Tíbets“ og fleiri kærðu framferði lögreglunnar. Málið kom einnig til kasta þingsins og meðal þess sem sérstök þingnefnd sem fjallaði um málið vildi fá að vita var hvort gefin hefði verið skipun um að halda mótmælendum frá bílalest forsetans og kom þá slík skipun frá æðstu yfirstjórn lögreglunnar eða kannski dómsmálaráðuneytinu? Ekki fékkst afdráttarlaust svar við þeirri spurningu. Fyrir Bæjarrétti Kaupmannahafnar neituðu áðurnefndir yfirmenn lögreglunnar, þeir Claus Hjelm Olsen og Henrik Oryé, því báðir að slík skipun hefði verið gefin þótt þeir vissu betur. Og þar við sat. Í bili. Tvímenningarnir tveir voru síðar fluttir til í starfi, lækkaðir í tign.
Tíbetnefndin
Í september árið 2015 komst lögreglustjórinn í Kaupmannahöfn, Thorkild Fogde, sem tók við starfinu árið 2013, á snoðir um hljóðupptökur frá heimsókn Kínaforseta og heyrði þar skipunina um að „rífa af þeim flöggin“. Nokkrum dögum síðar skipaði Sören Pind dómsmálaráðherra sérstaka þriggja manna rannsóknarnefnd, Tíbetnefndina svokölluðu. Nefndinni var ætlað að komast til botns í hvað snéri upp og niður í þessu máli. Nefndarmenn hafa ekki setið auðum höndum því þeir hafa rætt við á fimmta hundrað manns, lögreglumenn og almenna borgara og auk þess lesið mörg þúsund blaðsíður sem varða málið. Claus Hjelm Olsen hefur margoft komið fyrir nefndina og dagblaðið Politiken segist hafa heimildir fyrir því að hann hafi látið að því liggja að fyrirskipanir um að „skerma“ mótmælendur af hafi komið frá PET, dönsku leyniþjónustunni.
Skýrslan
Tíbetnefndin var skipuð í september 2015 og mun væntanlega skila skýrslu sinni á næstu dögum, sennilega mánudaginn 18. desember. Samkvæmt upplýsingum sem Politiken hefur komist yfir komu engar fyrirskipanir frá yfirstjórn lögreglunnar, leyniþjónustunni né dómsmálaráðuneytinu. Allt bendir því til að Claus Hjelm Olsen, ásamt Henrik Orye, samstarfsmanni sínum, sitji uppi með apann.