Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, vill fá upplýsingar um hvert eigið fé ríkustu fimm prósent, eitt prósent og 0,1 prósent landsmanna í árslok ársins 2016. Hann hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi þess efnis.
Fyrirspurnin er efnislega samhljóma fyrirspurn sem Árni Páll Árnason, þáverandi formaður Samfylkingarinnar, lagði fram í desember 2014. Bjarni Benediktsson, þáverandi og núverandi fjármála- og efnahagsmálaráðherra, svaraði fyrirspurninni í febrúar 2015.
Í svari ráðherra kom fram að þau fimm prósent landsmanna sem mest áttu í lok árs 2013 hafi átt 1.052 milljarðar króna. Þessi hópur, sem taldi þá um tíu þúsund fjölskyldur, átti tæplega helming alls eigin fjár á Íslandi í lok þess árs.
Ríkasta eitt prósent landsmanna átti um 483 milljarða króna í eigið fé (22 prósent af eigið fé landsmanna) og ríkasta 0,1 prósentið, um 200 fjölskyldur, áttu 169 milljarða króna (7,7 prósent alls eigin fjár). 20 árum áður átti sama hlutfall íslensku þjóðarinnar 2,6 prósent af heildareignum hennar, en þá voru fjölskyldurnar 144. Hlutabréfaeign er metin á nafnvirði í tölunum, ekki markaðsvirði, og því er afar líklegt að eignir þeirra ríkustu séu talsvert meiri en kemur fram hér að ofan. Hinir ríkustu eru enda líklegri en aðrir til að vera umsvifamiklir eigendur hlutabréfa.
Misskipting auðs eykst áfram á Íslandi
Kjarninn greindi frá því í fréttaskýringu 12. október síðastliðinn að þær rúmlega 20 þúsund fjölskyldur sem tilheyra þeim tíu prósentum þjóðarinnar sem eiga mest eigið fé – eignir þegar skuldir hafa verið dregnar frá – hafi átt 2.062 milljarða króna í hreinni eign um síðustu áramót. Alls á þessi hópur 62 prósent af öllu eigin fé í landinu. Eigið fé hans jókst um 185 milljarða króna á síðasta ári.
Ekki er boðið upp á frekari skiptingu í tölum Hagstofunnar um eiginfjárstöðu en á milli tíunda. Því eru ekki, sem stendur, aðgengilegar um hversu mikið eigið fé ríkasta eitt prósent landsmanna átti um síðustu áramót. Þær upplýsingar munu hins vegar liggja fyrir þegar fyrirspurn Loga verður svarað á komandi vorþingi.
Ríkasta prósentið þénaði helming fjármagnstekna
Kjarninn greindi frá því í nóvember að alls hafi Íslendingar þénað 117 milljarða króna í fjármagnstekjur á árinu 2016. Það er umtalsvert meira en árið áður, þegar heildarfjármagnstekjur Íslendinga voru 95,3 milljarðar króna.
Tekjurnar dreifðust ekki jafnt á milli hópa. Þvert á móti. Tekjuhæsta eitt prósent landsmanna tók til sín 55 milljarða króna af þeim tekjum sem urðu til vegna fjármagns í fyrra, eða 47 prósent þeirra. Það er bæði hærri krónutala og hærra hlutfall en þessi hópur, sem samanstendur af 1.966 framteljendum (1.331 einhleypum og 635 samsköttuðum), hafði í fjármagnstekjur á árinu 2015.
Þessi staða þýðir að hin 99 prósent íslenskra skattgreiðenda skipti á milli sín 53 prósent fjármagnstekna sem urðu til á árinu 2016.