Stefnulaust rekald
Samvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu er stefnt að því að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita. Eitthvað er það endasleppt því fólk virðist upp til hópa álíta að það þurfi að bæta og styrkja heilbrigðiskerfið svo um muni.
VARÚÐ – FÓLKI VIÐKVÆMU FYRIR ENSKU- OG LATÍNUSLETTUM ER RÁÐIÐ FRÁ AÐ INNBYRÐA ÞETTA VIÐTAL
Fyrir ári síðan sagði Jakob Falur – vinur minn og framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka lyfjaframleiðenda – mér frá ráðstefnu sem hann hafði staðið fyrir með yfirskriftinni: Hver er réttur minn til heilbrigðisþjónustu?
Ég hafði hvorki leitt hugann að slíkum rétti né hvað fælist í frasanum um betra heilbrigðiskerfi. Hversu mikinn rétt finnst Kára Stefánssyni að við eigum þegar hann talar um betra heilbrigðiskerfi? hrökk upp úr mér og Jakob svaraði: Eigum við ekki bara að spyrja hann?
Hugmyndin var rauðvínslegin og kviknaði í matarboði en þó svo lífseig að meira en ári síðar spurðum við Kára hvort við mættum koma í heimsókn. En áður en við fórum sagði Jakob: Ertu viss um að þú viljir hafa lyfjalobbíista eins og mig með þér?
Ég vildi það því hann veit ýmislegt um þessi mál sem ég veit ekki en greinina ber þó að lesa með þeim gleraugum að þar eru harðsnúinn lyfjalobbíisti og rómantísk skáldasál að gera einlæga tilraun til að yfirheyra Kára.
Kári talar Megasar-íslensku, óvenju blæbrigðaríka og kjarnyrta íslensku, en kryddar hana með lærðum latínuslettum í bland við ameríska frasa í ætt við þá sem gætu einkennt sumar söguhetjur Einars Kárasonar. Mig langaði að fanga þetta sérstaka orðfæri og því er greinin óvenju löng. Svona tungutak tímir maður ekki að kötta.
Að þessu sögðu færi ég mig, Auði, yfir í þriðju persónu og inn í samtal okkar þriggja.
Milljón dollara meðferðir
En snúum okkur að alvöru málsins. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er nú tekin við eftir tiltölulega stutta en snarpa kosningabaráttu. Miklum fjármunum er bætt við heilbrigðiskerfið í nýsamþykktum fjárlögum. Til að mynda er ríflega fjórum milljörðum bætt í lyfjalið fjárlaganna. Í aðdraganda kosninga var í raun samhljómur með öllum frambjóðendum um að auka framlög til heilbrigðisþjónustunnar. Engum vafa er undirorpið að rödd Kára Stefánssonar hefur þar haft áhrif. Gefum honum orðið!
Kári: Hver er lyfjalobbíistinn?
Jakob Falur: Það er ég.
Kári: Auðvitað ert það þú!
Jakob: Málið er að við hittumst einu sinni yfir rauðvínsglasi, við Auður. Var það ekki bara heima hjá mér?
Auður: Jú, í matarboði hjá ykkur hjónum.
Jakob: Þá vorum við í vinnunni nýbúin að halda þessa ráðstefnu undir yfirskriftinni Hver er réttur minn til heilbrigðisþjónustu? Og við förum að ræða það...
Kári: Við skulum aðeins fara í gegnum þetta, áður en við byrjum að tala um heilbrigðiskerfið almennt. Þá ætla ég að benda á alveg himinhrópandi vandamál sem á rætur sínar í þeim iðnaði sem þú ert í forsvari fyrir...
Jakob, nokkuð dræmur: Já...
Kári: ...og það er sú staðreynd að það er verið að búa til alveg fullt af mjög flottum svokölluðum líftæknilyfjum þessa dagana, lyf sem byggja á svolítið öðrum prinsippum heldur en tíðkuðust hér áður, sem eru lyf sem eru raunverulega mótefni – sem eru búin til þess að fikta í allskonar viðtækjum í skrokknum á okkur. Þessi nýju lyf eru mörg hver alveg ótrúlega effektív, en verið að selja þau á slíku verði að flest samfélög í þessum heimi koma aldrei til með að hafa efni á þeim. Tökum sem dæmi lyf við mergæxlum sem að Johnson & Johnson setti á markað í fyrra, ein meðferð fyrir einn sjúkling kostar milljón dollara.
Regeneron setti lyf á markað snemma á þessu ári við atópískum dermatítis, bara exemi, það kostar þrjátíu og fimm þúsund dollara á ári fyrir einstaklinginn. Í þessu felst að vissu leyti brot á alþjóðlegum sósíal-kontrakt. Sem er sá: Við skulum búa til lyf, við seljum þau á ákveðnu verði sem er dálítið hátt til þess að við höfum efni á að búa til fleiri lyf. En þessi verðlagning sem er byggð á svokölluð value based pricing er alltof há til þess að það sé substainable, samfélagið kemur til með að snúast gegn þessum iðnaði af mjög miklum krafti ef svo heldur fram mikið lengur. Þetta er vandamál í þessum iðnaði.
Takið eftir því að það er til sjúkdómur sem heitir Cystic Fibrosis, hann er algengasti víkjandi erfðasjúkdómur í heiminum. Þetta er sjúkdómur í börnum sem gerir það að verkum að lungun í þeim hætta að starfa. Það er fyrirtæki sem heitir Vertex sem hefur búið til nokkur lyf sem vinna gegn stökkbreytingunum sem valda þessum sjúkdómi, fyrirtækið selur þessi lyf á þrjú hundruð þúsund dollara á ári per barn. Þetta er alveg gjörsamlega ósiðlegt, óásættanlegt og þetta á ekki að geta gerst.
Meðan ekkert kemur fyrir þig eða þína, þá er ímynd þín eða sýn þín á þessi risastóru alþjóðlegu lyfjafyrirtæki að þau séu í raun og veru, með verðlagningu sinni, að arðræna samfélagið.
Hlutfall lyfjaútgjalda lágt
Kári þagnar án þess að bregða svip og Auður spyr hver sé raunkostnaðurinn við að framleiða lyf á borð við þetta.
Kári: Það er mjög erfitt að fígúra það út, enda mjög mismunandi. En þarna er ekki verið að tala um verðlagningu á kostnaðinum við að búa þetta til, það er verið að byggja verðlagninguna á því hversu miklu betur þessi lyf virka en þau sem til staðar eru. Þetta er svokölluð value based pricing, metið út frá því hvað lyfin leggja af mörkum til samfélagsins.
Jakob: Ef ég má grípa fram í fyrir þér, Kári. Nú hefur þú verið að tala um að auka verði framlög til íslenska heilbrigðiskerfisins. Kannski er ekki rétt að einblína svona mikið á lyfin. Mér finnst miklvægt að við á Íslandi höfum, sem samfélag, haft efni á að fjárfesta í nýjum lyfjameðferðum, þó svo að hlutfall lyfjaútgjalda á Íslandi sé mjög lágt miðað við löndin í kringum okkur.
Kári: Að vísu eru öll löndin í kringum okkur farin að hætta að kaupa þessi dýrustu lyf. Ég reikna ekki með því að þessi verðlagning haldi áfram. Ég held að iðnaðurinn komi til með að láta undan þeim þrýstingi sem er að byggjast upp. Það er alveg ótrúlegt að sá iðnaður sem býr til 99,99 prósent af öllum þeim lyfjum sem eru notuð til að minnka sársauka og svo framvegis, að það skuli verið litið á þann iðnað sem the bad guy. Hann ætti að vera borinn á höndum okkar.
Jakob: Það er málið í hnotskurn og mér finnst það alveg óskiljanlegt.
Kári: Það er bara út af þessum klaufaskap!
Auður: Er verið að tala um tvö apparöt hérna?
Jakob: Nei, það sem hann er að segja er: Meðan ekkert kemur fyrir þig eða þína, þá er ímynd þín eða sýn þín á þessi risastóru alþjóðlegu lyfjafyrirtæki að þau séu í raun og veru, með verðlagningu sinni, að arðræna samfélagið. Arðræna heilbrigðiskerfið og gamla fólkið í þjóðfélaginu. En um leið og eitthvað kemur fyrir þig eða þína, þá vilt þú fá það frá þessum fyrirtækjum –sem þú trúir og treystir – að sé það besta og state of the art...
Auður: Að hvað sé best?
Jakob: Nú, lyfin sem þau framleiða!
Kári: Þú vilt að nýjasta tækni sé notuð til þess að búa til nýjar aðferðir til að takast á við sjúkdóma. Tæknin í heiminum í dag er nú á þeim stað að hægt er að búa til alveg ævintýralega effektív lyf við allskonar hlutum en það vill svo til að þessi nýju lyf eru að auka við það misrétti sem er í heiminum þegar kemur að aðgengi að heilbrigðisþjónustu.
Ný ríkisstjórn og hvað gerist þá?
Kári: En nú skulum við að gamni stoppa og horfa á það sem er að gerast núna.
Það er tekin táknræn kúnstpása áður en samtalið heldur áfram.
Kári: Við erum með nýja ríkisstjórn og hún er með allskonar athugasemdir í sínum stjórnarsáttmála um heilbrigðiskerfið. Og það sem segir í stjórnarsáttmálanum, finnst mér, benda til góðs vilja. En ekki endilega mikils skilnings á þeim vandamálum sem blasa við.
Jakob: Ekki ígrundaður vilji?
Kári: Nei. Eitt af því sem þau segja er að þau vilji auka við styrk heilsugæslunnar og láta heilsugæsluna vera fyrsta snertiflöt einstaklingsins eða sjúklingsins við heilbrigðiskerfið. Semsagt, þau vilja að það sé Ironclad-tilvísanakerfi og vandamálið við tilvísanakerfi er ósköp einfaldlega að í læknisfræði, eins og á flestum öðrum tækni- og fræðisviðum, er vandamálið yfirleitt ekki þegar þú veist að þú veist ekki. Vandamálið er að þú veist ekki að þú veist ekki. Og þegar sjúklingur kemur til heimilislæknis sem er generalisti – sem veit svolítið um allt en ekki mikið um nokkurn skapaðan hlut – þá lendir sjúklingurinn í því að hann fær ekki rétta greiningu.
Aðferðin til þess að gera þetta er að hafa aðgang að sérfræðingum eins opinn og hægt er. En eftir að búið er að greina sjúklinginn á að vísa honum til heimilislæknis og hann sér um meðferðina – vegna þess að það er oft samkvæmt kokkabókum. Það þarf að sjá til þess að sjúklingurinn hafi greiðan aðgang að þeim sem getur greint sjúkdóminn, því ef sjúkdómurinn er ekki greindur hratt, þá verður prísinn á sjúkdómnum miklu hærri.
Sjúklingurinn á ekki að fara nema einu sinni eða tvisvar í röð til hjartalæknisins en ekki tuttugu og fimm sinnum eins og menn gera í dag.
Til dæmis ef sjúklingur kemur til sérfræðings og er greindur með háþrýsting, þá á hann ekki að fara á þriggja mánaða fresti í tíu ár til sérfræðingsins heldur bara til síns heimilislæknis. Sérfræðingurinn greinir og býr til meðferðaráætlun, heimilislæknirinn sér um meðferðina.
Sjúklingurinn á ekki að fara nema einu sinni eða tvisvar í röð til hjartalæknisins en ekki tuttugu og fimm sinnum eins og menn gera í dag. Við það er ég handviss um að kostnaðurinn af sérfræðingunum minnkar mjög mikið.
Engin heilbrigðisstefna
Jakob glósar eitthvað hjá sér áður en hann orðar næstu vangaveltu: Þegar þú varst með undirskriftasöfnunina talaðir þú um að útgjöld til heilbrigðismála væru of lág og nefndir töluna 11 prósent sem viðmið sem ætti að stefna að af vergri landframleiðslu.
Kári: Já, en nú tala Samtök atvinnulífsins um að í dag sé þetta ennþá minna en talað hefur verið um eða 7,2 prósent.
Jakob: Í það minnsta vitum við að það er vel fyrir neðan átta. Og þú hefur talað um að það þurfi að auka framlögin, þau þurfi að vera 11 prósent.
Kári: Ég talaði um að við yrðum að auka þau myndarlega. Og ég setti þetta niður sem einhvers konar stake in the ground – mælistiku.
Jakob: En nú vitum við öll að það er ekkert sem heitir heilbrigðisstefna í þessu landi.
Kári: Það sem þarf að gera er að setja saman heildarstefnu áður en farið er í að auka fjárframlög. Til dæmis þarf að greina: Hvaða hluti af heilbrigðisþjónustunni á að vera á höndum Landspítalans – sem er þjóðarspítalinn? Hvað á að vera á höndum legudeilda spítalans? Hvað á göngudeildum spítalans? Hvað á að vera á höndum sérfræðinga á stofum úti í bæ? Hvað í heilsugæslunum og hvað í öðrum stofnunum heilbrigðiskerfisins?
Staðreyndin er sú að læknisfræði er alltaf að verða tæknivæddari. Og það er alltaf að verða stærri og stærri hundraðshluti heilbrigðisþjónustunnar sem verður að vera á höndum mikilla sérfræðinga. Þannig að Landspítalinn verður að vissu leyti að vera miðtaugakerfi heilbrigðiskerfisins. Landspítalinn á til dæmis að sjá um gæðaeftirlit í heilsugæslunni. Hann á að sjá um gæðaeftirlit hjá sérfræðingum á stofum úti í bæ. Í dag er ekkert gæðaeftirlit neins staðar. Takið eftir því að við erum að rífa hlutfallslega mörgum sinnum fleiri hálskirtla úr börnum heldur en gerist í löndunum í kringum okkar. Og hvað þýðir það? Það þýðir að menn eru að afla sér fjár með líkamsárásum á börn.
Jakob: Það eru fleiri svona dæmi…
Kári: Hlustaðu nú á mig! Það er bara þannig að svo margt í læknisfræði er svona judgement-call. Og ef það er enginn sem hjálpar þér við að halda þig réttu megin við línuna, þá ferðu yfir hana. Og það er ekkert gæðaeftirlit, það er ekkert eftirlit. Og ég er ekki í nokkrum vafa að allir þessir háls-nef- og eyrnalæknar hafa verið hundrað prósent vissir um að það væri rétt í hvert einasta skipti sem þeir tóku hálskirtla.
Jakob: Tannlæknirinn minn kallaði mig aftur til sín í síðustu viku, nokkuð sem hann er ekki vanur að gera, og hann sagði: Jakob minn, ég varð nú að fá þig hingað fyrir jólin til að auka aðeins tekjurnar. Hann sagði þetta að sjálfsögðu í gríni en auðvitað segir þetta manni að það sé ákveðinn möguleiki til staðar.
Kári: Já, já. Já, já.
Jakob: Ég veit ekkert hvort hann fann í alvörunni skemmd eða ekki!
Kári: Já, já, jú, jú. Þetta er flókið.
Why do you want to kill us all?
Þessi flókna veröld er hugleidd í hljóði, síðan segir Jakob: Ef við megum, mig langar svo að fá þitt take á þetta heilbrigðiskerfi.
Kári: En aðeins um hvað lífið getur verið flókið! Fyrir nokkrum vikum síðan komst erlendur blaðamaður að því að það fæðast ekki lengur börn á Íslandi sem eru með Down-syndrom.
Jakob: Já, jú.
Kári: Það komu til mín óteljandi erlendar sjónvarpsstöðvar út af þessu. Og allir byrja þeir á sama útgangspunktinum, þessir blaðamenn, að ég hafi jafnvel staðið á bak við þetta. Meðal annars kom kona frá BBC sem sjálf á barn með Down-syndrom og sat með mér heilan eftirmiðdag að ræða við mig. En það er tiltölulega einfalt að taka á þessu vegna þess að það sem hefur gerst hér er að við höfum einfaldlega ákveðið að konur megi ákveða hvort þær fari í fóstureyðingu eða ekki. Þær mega ákveða hvort þær bera sitt barn og eiga sitt barn eða fara í fóstureyðingu. Við sem samfélag höfum veitt konum heimild til að fara í fóstureyðingu upp að ákveðnum tímapunkti.
Það komu til mín óteljandi erlendar sjónvarpsstöðvar út af þessu. Og allir byrja þeir á sama útgangspunktinum, þessir blaðamenn, að ég hafi jafnvel staðið á bak við þetta.
Jakob: Þeirra er ákvörðunin – áttu við?
Kári: Já, og þegar kona ákveður þetta höfum við sem samfélag ekki heimild til að skipta okkur af ástæðum hennar til að fara í fóstureyðingu. Og það getur á engan máta talist ljótara að eyða fóstri með Down-syndrom heldur en heilbrigðu fóstri. Hvort tveggja er óæskilegt, það er ekki góð getnaðarvörn að nota fóstureyðingar en það þýðir ósköp einfaldlega að réttur fósturs með Down-syndrom í íslensku samfélagi er hinn sami og fósturs sem er heilbrigt. Olræt?! Vandamálið með þessa hugmynd um að við séum að útrýma öllum börnum með Down-syndrom er bara bullshit!
Við veitum konum heimild til að fara í fóstureyðingu og það má deila um þá ákvörðun samfélagsins – en samfélagið hefur ákveðið þetta.
Þetta gekk allt mjög vel og þessir blaðamenn tóku við þessu öllu saman. En á föstudaginn í síðustu viku, þá var þetta allt saman toppað af ítalskri sjónvarpsstöð sem hafði beðið um viðtal og ég fallist á að tala við þá. Það var sett upp hérna inni á þessari skrifstofu og þegar ég kem hingað inn situr á móti mér ung kona með Down-syndrom og hennar fyrsta spurning er: Why do you want to kill us all?
Auður: Ha! Þetta er nú með því... Var sjónvarpsvél með?!
Kári: Já, já. Þetta var dálítið heví. En þetta endaði með að hún kyssti mig á báðar kinnar og varð vinur minn, skilurðu! Hún hafði gefið út þessa bók hérna, hún gaf mér eintak af henni. Kári réttir fram bók á ítölsku með mynd af konunni.
Auður: En áhugavert.
Læknar bara venjulegt fólk
Bókin er handfjötluð og höfundurinn skoðaður. Síðan spyr Jakob: En er ekki ástæðan fyrir þessu hjá okkur sú, að það er boðið upp á hnakkaþykktarmælingu í heilbrigðiskerfi okkar?
Kári: Ástæðan fyrir þessu er sú að við erum með ofboðslega gott prenatal care. Besti hluti heilbrigðiskerfisins hjá okkur er prenatal care (mæðraeftirlit). Konur koma oftar í skoðun fyrir fæðingu heldur en annars staðar. Ungbarnadauði á Íslandi er rétt um tveir af þúsund. Þannig að við erum með alveg feikna gott kerfi. Þannig að konur fá þessa ástæðu upp í hendurnar oftar en annars staðar.
Læknar eru því miður alltof óöguð stétt. Þeir gera skrýtna hluti. Og læknar ættu að vera agaðri en aðrar stéttir þegar þeir ráðleggja fólki hluti sem lúta að lífi og dauða. En þeir eru bara venjulegt fólk.
Auður: Ég lenti nú í því þegar ég var ung og á lyfjum við flogaveiki að verða ólétt fyrir slysni og fara til kvensjúkdómalæknis. Þá var haldið að áhrifin af lyfjunum væru meiri en þau eru í raun og veru og mér var ráðlagt undir rós að fara í fóstureyðingu – sem ég gerði – en nú í dag myndi enginn ráðleggja mér það. Lyfin hafa áhrif, en samt ekki eins mikil áhrif og þá var haldið.
Kári: Sko, ástæðan fyrir því að þetta gerist er að fóstureyðingar voru gefnar frjálsar svo stuttu áður en þú lendir í þessu. Ekki nema svona áratugur eða einn og hálfur. Og menn voru að læra að nota þessa leið.
Læknar eru því miður alltof óöguð stétt. Þeir gera skrýtna hluti. Og læknar ættu að vera agaðri en aðrar stéttir þegar þeir ráðleggja fólki hluti sem lúta að lífi og dauða. En þeir eru bara venjulegt fólk.
Flugvöllurinn er ekkert issjú
Jakob: Nú erum við með nýja ríkisstjórn og verið að setja aukna fjármuni í heilbrigðiskerfið. En eins og þú segir – sem ég er alveg sammála – að það er ekkert vit í því að dæla peningum í heilbrigðiskerfið án þess að vera með einhverja stefnu.
Kári: Ég er alveg gjörsamlega sammála því.
Jakob: Þetta er níundi heilbrigðisráðherrann á ellefu árum – sem við erum að fá núna. Það gefur auga leið að heilbrigðisráðherrann, hver svo sem hann nú er og úr hvaða flokki, hefur ekki haft nein tækifæri til að implimentera neina stefnu.
Kári: Það sem truflar mig nú meira en það er að maður sér þess engin merki að það hafi raunverulega verið sett saman heildarstefna í heilbrigðismálum síðan Magnús Kjartansson var heilbrigðismálaráðherra.
Jakob: Og enginn að tala um það.
Kári: Enginn að tala um það. Við verðum að passa okkur svolítið á því hvernig við tökum á þessum heilbrigðismálum. Ein af hættunum sem ég sé er sú að menn fari út í svipað og nýorðinn menntamálaráðherra gerir með menntamálin. Við vitum að menntamál á Íslandi eru í töluverðu rusli. Hvað er það fyrsta sem nýi menntamálaráðherrann gerir? Hún gefur út yfirlýsingu um að hún ætli að nota menntamálin í nokkuð sem hefur ekkert með þau að gera: Sem tæki til að auka jafnvægi í byggð landsins. Auður: Hvernig yfirfærirðu þetta yfir á heilbrigðiskerfið?
Kári: Vandamálið þar er að menn fara til dæmis að hlúa að, af miklum krafti, sjúkrahúsi á Ísafirði, Akureyri og Norðfirði vegna þess að það er mikilvægt upp á starfsemi í lókal byggð. Þegar staðreyndin er sú að það er í raun ekki forsenda að reka nútímaspítala nema á einum stað á Íslandi.
Jakob: Eru menn ekki að verða sammála um það?
Kári: Menn eru að hluta til sammála um það en það er dálítil tilhneiging til að ætla Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri of mikið. En staðreyndin er sú að fólkið á Akureyri og fólkið úti á landi á rétt á því að fá jafn góða heilbrigðisþjónustu og við hin og hana veitum við með því að sjá til þess að sjúkraflutningar séu mjög góðir.
Auður: Hvað finnst þér þá um flugvöllinn?
Kári: Flugvöllurinn á ekki að skipta neinu fokkings máli.
Jakob: En hvað með aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu?
Kári: Ég vil ekki blanda saman deilum um þetta tvennt.
Auður: En það er svo oft talað um það í samhengi.
Jakob: Það er ekkert issjú með þennan flugvöll.
Stóra málið er að ganga úr skugga um að það séu mjög góðir sjúkraflutningar. Ef það er ekki hægt að stunda almennilega sjúkraflutninga með þyrlum, þá verðum við að hafa þennan flugvöll.
Kári: Við skulum orða það þannig að það er ekki stóra málið. Stóra málið er að ganga úr skugga um að það séu mjög góðir sjúkraflutningar. Ef það er ekki hægt að stunda almennilega sjúkraflutninga með þyrlum, þá verðum við að hafa þennan flugvöll.
Jakob: Ég held að meira en níutíu prósent sjúkraflutninga í lofti séu ekki akút.
Kári: Ef að það þarf flugvöll, þá á hann að vera þarna. Vegna þess að mínútur geta ákvarðað hvort menn lifa eða deyja. Og ein algengasta ástæða dauða í íslensku samfélagi eru kransæðasjúkdómar. Þar sem að það getur skipt öllu máli að koma manneskju í þræðingu mínútu fyrr heldur en seinna.
Auður: Er hægt að notast alfarið við þyrlur?
Kári: Nú veit ég ekki hvort það er hægt að nota þyrlur til að flytja manneskjur að af öllu landinu. Ef það er hægt, þá á að nota þyrlur. Það á að fjárfesta mikið í því að sjá til að sjúkraflutningar séu effektívir.
Einstaklingurinn getur staðið fyrir massívri einkavæðingu
Jakob kinkar kolli hinn áhugasamasti og beinir því næst talinu að fjarlækningum. Er hægt að notast við þær?
Kári: Þær notarðu í algjörri neyð.
Jakob: En ég meina…
Kári: Hvað ætlarðu að gera í fjarlækningum?
Jakob: Ég á við einfaldari læknaþjónustu eins og í heilsugæslunni.
Kári: Það á að vera hægt að ráðleggja lókallækni í gegnum svona fjarfundabúnað. Það er alveg sjálfsagt og það er mjög einfalt. Og kostar mjög lítið.
Jakob: En það er engin stefna í því?
Kári: Það er engin stefna í heilbrigðismálum almennt. Við erum með þessi tiltölulega nýju lög um sjúkratryggingar – að setja þau lög án þess að hafa heildarstefnu í heilbrigðismálum hefur til dæmis gert það að verkum að forstjóri sjúkratrygginganna hefur einn og út af fyrir sig staðið fyrir alveg massívri einkavæðingu í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Og Steingrímur Ari Arason er frjálshyggjumaður. Hann lítur svo á að einkavæðingin sé góð fyrir okkar samfélag og hefur því verið að þjóna samfélaginu eins vel og hann heldur að hann geti.
Jakob: Ertu þá að vísa til samnings sjálfstætt starfandi lækna? Kári: Já, hann hefur verið aðhaldssamur við spítalann en mjög frjálslyndur í samningum sínum við sjálfstætt starfandi lækna. Með því móti hefur vaxið upp þessi risavaxni sveppur af einkastofum úti í bæ sem eru að taka stærri og stærri hundraðshluta af heildarkostnaði við heilbrigðisþjónustu.
Auður: Svo meðan það er engin stefna, þá getur einn einstaklingur haft svona mikil áhrif?
Kári: Já, einn einstaklingur gert allskonar hluti. Og ekki misskilja mig. Ég er ekkert að dæma þessar stofur úti í bæ og segja þær vera vondar. Ég er bara að segja að það sé engin stefna.
Það ætti að sjá til þess að það væru sérfræðingar til staðar til þess að ráðleggja læknum á öllum stigum heilbrigðiskerfisins.
Gate-keepers íslenska heilbrigðiskerfisins
Nú er komið að Auði að spyrja: Gætir þú teiknað upp í grófum dráttum heilbrigðisstefnu eins og ef þú værir að krota hugmyndir á blað? Svona litla mynd af stefnu.
Kári: Þá myndi ég skilgreina Landspítalann sem miðtaugakerfi heilbrigðisþjónustunnar sem ætti ekki bara að sjá um hina tæknivæddu heilbrigðisþjónustu þeirra sem þurfa á slíku að halda heldur eigi að veita öllu heilbrigðiskerfinu gæðastjórn. Það ætti að sjá til þess að það væru sérfræðingar til staðar til þess að ráðleggja læknum á öllum stigum heilbrigðiskerfisins. Heilsugæslulæknar ættu að eiga aðgang að sérfræðingum spítalans, skilgreindan aðgang til þess að leita aðstoðar við lausn á flóknum vandamálum. Ég myndi líta svo á að það væri mjög mikilvægt að það væri greiður aðgangur að sérfræðingum, bæði inni á göngudeildum spítalans og sjálfstætt starfandi sérfræðingum – fyrir fólkið í landinu. Fólkið gæti leitað til þeirra til að fá greiningu á sínum sjúkdómum en það væri stefnt að því að láta meðferðina og eftirfylgnina vera í höndum heilsugæslunnar í stað þess að vera með tilvísunarkerfi. Þetta kerfi gæti komið í veg fyrir að þeir væru einhvers konar aðgengishindrun að þeim sem raunverulega geta komið með greiningu.
Jakob: Svona Gate-keepers?
Kári: Já, Gate-keepers – þeir eiga ekki að vera það. Þeir eiga að taka við sjúklingum frá sérfræðingunum. Fólk á ekki að geta verið í eftirmeðferð hjá sérfræðingi svo árum skiptir.
Verkfærataska íslenskra lækna
Nú getur lyfjalobbíistinn ekki hamið sig lengur og spyr: Svona í ljósi þess að ég kem úr lyfjaáttinni, finnst þér skipta máli að íslenskir læknar hafi sömu verkfæri í sinni verkfæratösku og kollegar þeirra í löndunum í kringum okkur?
Kári: Algjörlega. Og ég held því fram að það sé alveg ofboðslega mikið réttlætismál að sjá til þess að við höfum öll nýjustu lyf til þess að spila úr. Mjög mikið af þessum nýjustu lyfjum eru lyf sem geta lengt líf mjög mikið hjá þeim sem eru með alvarlega sjúkdóma. Og ég held því fram að við eigum að teygja okkur mjög langt. Númer eitt í því er að finna peninga til þess að kaupa þessi lyf fyrir fólk sem er með þessa sjúkdóma sem margir hverjir eru krabbamein. En við eigum líka að taka þátt í alþjóðlegri tilraun til þess að koma einhverju skikki á þessa verðlagningu.
Það má ekki gleyma því að þessi lyf, sem er verið að búa til, verða til vegna þátttöku sjúklinga með sjúkdómana. Það er ekki hægt að búa þau til án þess að menn taki þátt í klínískum rannsóknum eða lyfjatilraunum. Það er raunverulega, í huga mínum, svik við þetta fólk, sem tekur þátt, að verðleggja lyfin á þann hátt að þeir sem raunverulega þurfa á þeim að halda geta aldrei fengið þau. Þetta er flókið vegna þess að lyf verða að vera dýr til þess að hægt sé að þróa ný lyf af því að það er svo dýrt að þróa þau. Það tekur að meðaltali tíu til fimmtán ár að gera það og einmitt þess vegna er ég svona æstur yfir þessu, lyfjaiðnaðurinn gerir sér ekki grein fyrir hversu viðkvæmur þessi samningur við samfélagið er.
Tuttugasta febrúar síðastliðinn birtist á vef velferðarráðuneytisins frétt þess efnis að ríkisstjórnin hefði á fundi sínum nokkrum dögum fyrr samþykkt tillögu um að fela ráðherrum fjármála- og efnahagsmála og svo heilbrigðismála að tryggja aukið fjármagn til innleiðingar nýrra lyfja. Segja má að þarna endurtaki sagan sig því sama staða hefur verið uppi síðustu ár.
Raunar endurtekur hún sig svo rækilega að nærri samhljóða frétt birtist á sama vettvangi næstum því nákvæmlega ári fyrr, eða 19. febrúar 2016. En með nýsamþykktum fjárlögum og fjáraukalögum er loforðið frá því í febrúar fjármagnað og að auki bætt í, til samræmis við áherslur ríkisstjórnarinnar á aukið fjármagn til heilbrigðismála.
Ákvarðanir sem stytta líf fólks
Auður: Nú er ég hinn almenni fávísi skattgreiðandi og spyr: Er kannski verið að svíkja okkur Íslendinga um lyf sem er verið að nota á Norðurlöndunum og í Þýskalandi? Erum við nógu meðvituð um hvaða lyf við fáum og hver ekki?
Kári: Ég get ekki tjáð mig fyllilega um það en það er alveg ljóst að töluvert af þessum nýju lyfjum hefur komið hingað seinna en í löndunum í kringum okkur.
Auður: Hversu mikið seinna?
Kári: Jakob er í betri aðstöðu til að tjá sig um það.
Jakob: Á myndinni sem ég sýndi þér í gær, þegar við bárum Ísland saman við Norðurlöndin, mátti sjá að á síðustu fjórum árum voru komin í notkun tuttugu og fimm ný krabbameinslyf. Tuttugu og fjögur þeirra voru komin í notkun í Noregi, tuttugu og tvö í Danmörku og Svíþjóð, sautján í Finnlandi, en einungis átta komin í notkun hér á landi. Þetta er bara fakta.
Kári: Og þetta er grafalvarlegt. Þetta eru ákvarðanir sem enda á því að stytta líf fólks.
Þurfum að taka afstöðu sem samfélag
Auður: Hversu mikinn rétt eigum við, sem samfélag, til þess að biðja um þessi lyf?
Kári: Þetta er það sem ég var að reyna að prédika þegar við vorum í þessari undirskriftasöfnun. Það er bara spurning um hvað samfélagið vill. Ég held því fram að samfélagið vilji að við fjárfestum í svona lyfjum sem hluta af fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu. Grundvallar forsenda þess að við getum risið undir skilgreiningunni á samfélagi er að við hlúum að þeim sem eru lasnir og meiddir. Og þessi lyf eru besta leiðin til að hlúa að fólki sem er með allskonar krabbamein. Ég held því fram að við eigum að fórna ýmsu öðru til þess að geta hlúð að þessu fólki.
Ég held því fram að samfélagið vilji að við fjárfestum í svona lyfjum sem hluta af fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu. Grundvallar forsenda þess að við getum risið undir skilgreiningunni á samfélagi er að við hlúum að þeim sem eru lasnir og meiddir.
Auður: Hversu meðvitaður er almenningur um þetta?
Kári: Það er mjög erfitt fyrir almenning að setja sig inn í þetta. Ég held að almenningur verði að taka afstöðu til hins almenna prinsipps sem er þetta: Viljum við eða viljum við ekki fjárfesta í að byggja upp heilbrigðiskerfi sem stenst samjöfnuð við heilbrigðiskerfi annarra landa. Á móti kemur að það birtist af og til tölfræði sem segir að heilbrigðiskerfið á Íslandi sé svo ofsalega gott.
Auður: Hver eru þá viðmiðin?
Kári: Viðmiðin eru mismunandi. Ein af ástæðunum fyrir því að við komum vel út úr samanburði af þessari gerð er að fjarlægðir eru litlar á Íslandi. Fjarlægðin milli okkar og fólksins sem vinnur í heilbrigðiskerfinu er tiltölulega lítil. Olræt? Við erum lítið samfélag, ekki stórt samfélag. Stóru samfélögin koma alltaf miklu verr út úr þessu. Andorra kom til dæmis út sem land með besta heilbrigðiskerfi í heimi – skilurðu.
En stóra málið er að það þarf að setja saman heildarstefnu. Menn þurfa að gera sér grein fyrir því að heilbrigðisþjónustan er dýrari litla samfélaginu en stóra samfélaginu af því að við erum svo fá að kostnaður á hvern einstakling er töluvert hærri, þú færð ákveðinn magnafslátt í stærra samfélagi.
Við þurfum að taka afstöðu sem samfélag, að við ætlum að eyða ákveðnum hundraðshluta af því sem við öflum til þess að hlúa að meiddum og lösnum. Mér finnst eðlilegt að það breytist miðað við afkomu samfélagsins. Og við komumst ekkert upp með að eyða 7,2 prósent af vergri landsframleiðslu í heilbrigðiskerfið og halda því fram að við höfum heilbrigðisþjónustu sem jafnast á við það sem finnst annars staðar.
Ef Kári væri heilbrigðisráðherra?
Auður: Hvað myndir þú gera ef þú værir heilbrigðisráðherra núna?
Kári: Ég myndi setja saman heildarstefnu – allt annað er aukaatriði – og taka til þess tvo mánuði. Það er engin ástæða til þess að bíða fram í byrjun febrúar til þess að hafa tilbúna heildarstefnu. Það er hægt að fá fullt af góðu fólki til þess að setjast yfir þetta og síðan má endurskoða þá heildarstefnu linnulaust. Það má láta endurskoðun þessarar heildarstefnu vera aðalverkefni heilbrigðisráðuneytisins á hverjum tíma fyrir sig.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
5. janúar 2023Íslendingar vilja að læknar veiti dánaraðstoð
-
31. desember 2022Viljinn er allt sem þarf
-
23. desember 2022Borgin varði 1,5 milljörðum í málaflokk heimilislausra á fyrstu 10 mánuðum ársins
-
20. desember 2022Kalla eftir „draumastað“ fyrir þau sem vilja hætta í vændi
-
15. desember 2022Fólk með fíknivanda talið besta tekjulindin
-
14. desember 2022Íslendingar eyddu 10,5 til 12 milljörðum króna í fjárhættuspil á síðasta ári
-
10. desember 2022SÁÁ sagðist vanta 450 milljónir til að þjónusta verði ekki skert 2023 en fær 120 milljónir
-
9. desember 2022Sjö tegundir hvíldar
-
7. desember 2022Yfirlæknir á bráðadeild segir vert að íhuga skorður á sölu og notkun flugelda