Síðla árs 2014 ráku starfsmenn Evrópulögreglunnar, Europol, augun í nokkur sænsk nöfn í vopnaregistri slóvösku lögreglunnar. Europol hafði samband við sænsku lögregluna, sem fór, nokkru síðar, að fylgjast með þremur sænskum mönnum. Lögregluna grunaði að þeir hefðu keypt vopn í Slóvakíu og smyglað til Svíþjóðar. Lögreglan komst, að eigin sögn fyrir tilviljun, að því að einn mannanna sem fylgst var með var með talsvert magn danskra peningaseðla í fórum sínum. Í maí 2015 talaði einn Svíanna við nokkra unga menn frá Norðurbrú í Kaupmannahöfn í síma. Þau símtöl, sem lögreglan hleraði, snérust um viðskipti. Vopnaviðskipti. Fjöldi ólöglegra vopna í umferð.
Lögregla í mörgum Evrópulöndum telur sig vita að ólöglegum vopnum í umferð hafi fjölgað mikið á undanförnum árum. Danska lögreglan veit fyrir víst að í margra mánaða átökum glæpagengja í Kaupmannahöfn á síðasta ári komu ólögleg vopn við sögu.
Mismunandi aðferðir við að breyta byssum
Þrátt fyrir að í Evrópu hafi árum saman verið í gildi lög varðandi byssuleyfi og notkun tiltekinna skotvopna hefur sala slíkra vopna ekki verið bönnuð. Skilyrði er að þær séu þannig úr garði gerðar að einungis sé hægt að hleypa af púðurskotum en ekki að nota þær sem skotvopn (með kúlu). Heimilt er að selja byssur sem búið er að breyta og gera ónothæfar sem skotvopn.
Aðferðirnar við að gera þær ónothæfar voru mismunandi, víðast hvar var byssunum breytt þannig að útilokað væri að „laga þær“ og þannig hafa reglurnar t.d. verið í Danmörku. Í Slóvakíu var, fram til júlí árið 2015, notuð önnur aðferð, þar var steypt í hlaupið. Með réttum aðferðum, og varahlutum, var fremur auðvelt að gera slíkar byssur að skotvopni á nýjan leik. Í Slóvakíu voru margir vopnasalar með breyttar byssur (með ísteyptu hlaupi) til sölu. Slíkt fréttist.
Innkaupaferðir til Slóvakíu
Ekki eru til neinar tölur um hve margar byssur slóvaskir kaupmenn hafa selt viðskiptavinum sínum en þær eru margar. Meðal þeirra sem gerðu sér ferð, eða ferðir, til Slóvakíu til vopnakaupa voru þrír Svíar, Tamer Zahran, Bjørn Nyman og Dragan Zeljo, allir frá Malmö. Þeir eru allir á fertugsaldri, þekkjast vel og hafa margoft komist í kast við lögin. Það voru nöfn þessara manna sem starfsmenn Europol ráku augun í, eins og fyrr var getið. Vorið 2014 losnaði Tamer Zahran úr fangelsi, hafði setið inni fyrir fíkniefnabrot.
Áðurnefndir félagar hans höfðu ekki setið með hendur í skauti, þeir höfðu nokkrum sinnum farið til Slóvakíu og keypt þar byssur með ísteyptu hlaupi, ásamt ýmsum varahlutum. Tvímenningarnir keyptu byssurnar hjá tveimur kaupmönnum. Annar þeirra í bænum Partizanske, Bjørn Nyman hafði áður skipt við hann, og Dragan Zeljo hafði keypt 60 byssur af gerðinni Scorpion hjá Jozef Hostinsky í verslunni Tassat í smábænum Stary Tekov. Þessir tveir bæir, eru á svipuðum slóðum, norðaustan höfuðborgarinnar Bratislava.
Í ágúst 2014, þegar Tamer Zahran var laus úr fangelsinu fór hann ásamt Birni Nyman akandi, til Stary Tekov. Frá Malmö er vegalengdin um það bil 1150 kílómetrar. Þeir keyptu samtals 235 byssur í þessari ferð og fluttu þær, hindrunarlaust, til Malmö.
Danskir kaupendur
Haustið 2014 eru byssurnar frá Slóvakíu komnar í umferð í undirheimum Svíþjóðar. Á síðustu fjórum mánuðum þess árs lagði sænska lögreglan hald á 32 byssur. Á þessum tíma vissi lögreglan hvorki hvernig byssurnar hefðu komið til Svíþjóðar né hvaðan þær komu. Þegar farið var að fylgjast með þremenningunum margnefndu, eftir ábendingu Europol áttaði lögreglan sig á því að þeir tengdust sölu á byssunum frá Slóvakíu. Lögreglan fylgdist einnig náið með kunningjum þremenninganna og komst að því að einn þeirra hitti margoft danskan mann, Larim að nafni í Malmö.
Dag einn heyrði lögreglumaður á hlerunarvakt minnst á byssur „þessar þarna Scorp“ og svo er svarað „já, hann vill fá fjórar Scorpio“. 28. maí, daginn eftir þetta símtal fór Daninn Larim (sem lögreglan fylgdist með) ásamt þremur vinum sínum yfir Eyrarsundsbrúna til Malmö á tveimur bílum, með tugþúsundir danskra og sænskra króna í reiðufé. Á Tornfalksgatan í suðurhluta Malmö hittu Danirnir margnefndan Tamer Zahran ásamt tveimur kunningjum hans. Danirnir fengu afhentan hvítan poka, Svíarnir tóku við umslagi. Allt þetta sáu sænskir lögreglumenn.
Eltingaleikur á Eyrarsundsbrúnni
Eftir að hafa tekið við hvíta pokanum héldu Danirnir til baka yfir sundið, sænska lögreglan í humátt á eftir. Þegar Danirnir höfðu borgað brúargjaldið gaf lögreglan þeim merki um að stoppa. Því hlýddu Danirnir ekki heldur gáfu í og óku á miklum hraða yfir sjálfa brúna, lögreglan á eftir með blikkandi ljós. Þegar bílarnir voru komnir á þann hluta vegarins sem liggur yfir eyjuna Piparhólmann tókst lögreglunni að stöðva bíla Dananna. Þá hafði einn þeirra kastað, fyrst hvíta pokanum og síðan sjálfum sér út úr öðrum bílnum og tók strikið yfir Piparhólmann í átt að sjónum. Sænskur lögreglumaður (væntanlega í toppformi) hljóp hann uppi en Daninn hafði á hlaupunum hent frá sér hvíta pokanum. Í pokanum reyndust vera tvær Scorpio byssur, ásamt ýmsum fylgihlutum, og peningar sem lögreglan telur að hafi átt að nota til greiðslu fyrir tvær byssur til viðbótar, sem kannski hafi ekki verið tilbúnar þennan dag.
Byssurnar voru frá verslun Jozefs Hostinsky
Þrátt fyrir að búið væri að afmá framleiðslunúmer byssnanna sem voru í hvíta pokanum tókst tæknideild dönsku lögreglunnar að greina númerin. Þau stemma við númer á byssum sem Dragan Zeljo keypti í versluninni Tassat, verslun Jozefs Hastinsky í smábænum Stary Tekov. Dóttir kaupmannsins, sem vann í verslun föður síns, skráði samviskusamlega tegund og framleiðslunúmer hverrar byssu sem seld var í búðinni, klukkan hvað kaupin fóru fram, nafn kaupandans og söluverðið. Faðirinn staðfesti, með undirskrift, upplýsingarnar í skránni. Aðra byssuna keypti Dragan Zeljo 9. janúar 2014 og hina 7. mars sama ár.
Réttarhöld og dómar
19. nóvember síðastliðinn hófust réttarhöld í máli Svíanna þriggja í Malmö og féll dómur þann 19. desember, Dragan Zeljo fékk þriggja og hálfs árs fangelsisdóm, Björn Nyman og Tamer Zahran fengu hvor um sig fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm, brot þeirra alvarlegri af því þeir seldu byssurnar til afbrotamanna. Danirnir fjórir fengu hver um sig þriggja ára fangelsi, sá dómur féll árið 2016.
Hvað með allar byssurnar?
Sænska lögreglan hefur lagt hald á 65 af þeim tæplega 300 byssum sem Svíarnir keyptu í Slóvakíu. Danska lögreglan hefur lagt hald á tíu byssur sem vitað er að þremenningarnir keyptu. Ekki er vitað hvar hinar 225 eru niðurkomnar. Danska lögreglan telur næsta víst að í Danmörku séu margar byssur sem keyptar voru í Slóvakíu þótt ekki sé hægt að fullyrða slíkt. Í viðtali við dagblaðið Jótlandspóstinn sagði starfsmaður vopnadeildar dönsku lögreglunnar að líklegt væri að fleiri en Svíarnir þrír hefðu lagt leið sína til Slóvakíu til að verða sér úti um skotvopn.