Lífeyrissjóðir landsins lánuðu alls 14,5 milljarða króna til sjóðsfélaga sinna vegna íbúðarkaupa í nóvember síðastliðnum, sem næst hæsta upphæð sem þeir hafa lánað til þeirra í einum mánuði. Mest lánuðu þeir í ágúst 2017, þegar útlánin námu 14,6 milljörðum króna.
Á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2017 lánuðu lífeyrissjóðirnir samtals 132,2 milljarða króna til sjóðsfélaga sinna. Á öllu árinu 2016 lánuðu sjóðirnir alls 89 milljarða króna. Því voru útlán þeirra á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2017 43,2 milljörðum krónum hærri, eða 48,5 prósent hærri, en á öllu árinu 2016. Þetta kemur fram í nýbirtum hagtölum Seðlabanka Íslands um stöðu lífeyrissjóða landsins.
Á sama tímabili, fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs, lánuðu bankar og aðrar innlánsstofnanir 129 milljarða króna í ný íbúðalán að frádregnum uppgreiðslum. Lífeyrissjóðirnir lánuðu því hærri upphæð í íbúðalán en bankar landsins.
Ná forystu á íbúðamarkaði
Lífeyrissjóðir landsins hafa lengi lánað sjóðfélögum sínum til íbúðarkaupa. Þau lán hafa þó verið þannig að mun lægra lánshlutfall hefur verið í boði sem gerði það að verkum að fólk sem átti lítið eigið fé gat illa nýtt sér þau lán. Það breyttist allt haustið 2015 þegar sjóðirnir hækkuðu lánshlutfall sitt og bjóða upp á enn hagstæðari kjör. Frá þeim tíma hafa þeir lánað sjóðsfélögum sínum 228 milljarða króna til íbúðarkaupa.
Það má segja að lífeyrissjóðir landsins hafi náð forystu á íbúðalánamarkaði á síðustu tveimur árum. Frá byrjun árs 2017 og út nóvember jukust útlán banka og annarra innlánsstofnana til heimila landsins, að frádregnum uppgreiðslum, til að mynda um 129 milljarða króna, samkvæmt tölum sem Íbúðalánasjóður birti í dag. Bankar lánuðu því lægri upphæð á fyrstu ellefu mánuðum ársins í fyrra í íbúðalán en lífeyrissjóðir.
Ástæða þess að lífeyrissjóðirnir eru að ná í flesta nýju viðskiptavinina er einföld: þeir geta boðið upp á mun betri kjör. Þannig bjóða fjórir lífeyrissjóðir upp á verðtryggð lán með breytilegum vöxtum sem eru nú um stundir vel undir þremur prósentum. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins býður upp á bestu kjörin þar, eða 2,69 prósent vexti og allt að 75 prósent hámarksveðhlutfall.
Sá banki sem býður upp á bestu breytilegu verðtryggðu vextina er hins vegar Landsbankinn, þar sem slíkir vextir eru 3,83 prósent. Það munar því um 30 prósent á hagkvæmustu verðtryggðu lánum sem íslenskur lífeyrissjóður býður upp á og þeim sem íslenskum banki býður upp á. Þó er vert að minna á að bankarnir bjóða upp á hærra lánshlutfall. Landsbankinn býður til að mynda sínum viðskiptavinum upp á 85 prósent lán og allir bjóða upp á viðbótarlán fyrir þá sem eiga lítið eigið fé.
Því er staðan þannig að þeir sem eiga lítið eigið þegar þeir ráðast í íbúðarkaup eiga helst möguleika á að fá nægjanlega há lán hjá bönkum landsins, sem bjóða upp á mun lakari kjör en lífeyrissjóðirnir.
Segja að almenningur sé látinn borga bankaskatt
Það er ástæða fyrir þessari stöðu. Hún er meðal annars sú að stóru viðskiptabankarnir þurfa að greiða bankaskatt og sérstakan fjársýslukatt. Þeir skattar hafa ekki verið afnumdir þótt að íslensku bankarnir séu nær allir komnir í eigu íslenska ríkisins og búið sé að semja við kröfuhafa föllnu bankanna um slit þrotabúa þeirra.
Um er að ræða umtalsverðar fjárhæðir. Í fjárlögum er til að mynda gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs á árinu 2018 af bankaskatti, sem er 0,376 prósent af skuldum banka, verði 9,2 milljarðar króna. Í fyrra skilaði hann um 8,8 milljörðum króna í ríkiskassann. Bankarnir hafa haldið því fram að þessi skattur sé ekkert annað en álag ofan á útlán, sem almenningur þurfi á endanum að borga.
Þess vegna er staðan enn þannig í dag að þeir vextir á íbúðalánum sem bankarnir bjóða eru í langflestum tilvikum ekki jafn góðir og þeir sem lífeyrissjóðir geta boðið.