Vörusala Haga dróst saman um tvo milljarða króna á þriðja ársfjórðungi síðasta árs, miðað við sama ársfjórðung árið 2016. Á fyrstu níu mánuðum uppgjörsárs félagsins dróst hún saman um tæplega 5,6 milljarða króna. Félaginu gekk á sama tíma vel að draga úr kostnaði. Þar skipti styrking krónunnar umtalsverðu máli. Framlegð, munurinn á vörusölu og kostnaðarverði seldra vara, Haga minnkaði því ekki um sömu tölur. Hún dróst saman um 636 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi í samanburði við sama ársfjórðung árið 2016. Á fyrstu níu mánuðum uppgjörsársins var samdrátturinn í framlegð tæplega 1,5 milljarðar króna.
Ofangreint hafði umtalsverð áhrif á afkomu Haga fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) á níu mánaða tímabilinu, en EBITDA-hlutfallið fór úr 7,7 prósent í sex prósent á milli ára. Hagnaður tímabilsins eftir skatta var 1,9 milljarðar króna, sem er 1,2 milljarði krónum minni hagnaður en á sama tímabili á árinu 2016.
Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Haga sem birt var í gær. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2017 til 30. nóvember 2017.
Miklar breytingar eftir innreið Costco
Hagar hafa gengið í gegnum miklar breytingar á undanförnu ári og aukin samkeppni, með innreið Costco á markaðinn í maí 2017, hafði víðtæk áhrif á starfsemi þessa stærsta smásala á Íslandi. Hagar sendu frá sér tvær afkomuviðvaranir á síðasta ári vegna þess sölusamdráttar sem átt hafði sér stað hjá félaginu á fyrstu mánuðunum eftir að Costco hóf starfsemi.
Enda lækkuðu hlutabréf í Högum til að mynda um 33,8 prósent á síðasta ári. Lækkunarhrinan hefur gert það að verkum að markaðsvirði Haga hefur farið úr 64,6 milljörðum króna daginn áður en að Costco opnaði, í 41,6 milljarða króna í dag.
Stærsta ástæða þess er sú að Costco hefur tekist að ná umtalsverðri markaðshlutdeild í dagvöru og gert það að verkum að verð hefur lækkað hjá öðrum stórum leikendum á þeim markaði, meðal annars Högum. Í tilkynningu til Kauphallar vegna uppgjörs þriðja ársfjórðungar segir að verðhjöðnun muni áfram hafa áhrif á rekstur félagsins. „Framlegð félagsins er nær óbreytt milli ára og því ljóst að verðlækkanir skila sér í lægra vöruverði til hagsbóta fyrir viðskiptavini félagsins.“
Búið að aðlaga félagið að breyttum veruleika
Hagar hófu undirbúning fyrir þau umskipti sem urðu á íslenskum smásölumarkaði töluvert áður en að Costco opnaði. Þannig var ákveðið að leggja af starfsemi Debenhams í Smáralind, Outlet-verslun á Korputorgi, Útilífsverslun í Glæsibæ, matvöruhluta Hagkaups í Holtagörðum, efri hæð Hagkaups í Kringlunni og ýmsar tískuverslanir í Smáralind og Kringlunni.
Það breytir því ekki að í matvöruverslanahluta samstæðunnar var sölusamdráttur 5,1 prósent þegar búið er að leiðrétta fyrir þeim verslunum sem var lokað.
Samhliða því að loka alls kyns verslunum var ráðist í breytingar á öðrum. Þannig var verslun Bónus í Smáratorgi stækkuð og endurbætt verslun Hagkaups opnuð á 1. hæð í Kringlunni. Þá opnaði fyrir skemmstu ný ZARA verslun á tveimur hæðum í Smáralind.
Í tilkynningu Haga til Kauphallar í gærkvöldi segir enn fremur að tekin hafi verið ákvörðun um að flytja verslanir Bónus í Faxafeni og Mosfellsbæ. „Verslunin í Faxafeni mun flytja í Skeifuna 11 seinni hluta árs en þar eru að hefjast framkvæmdir við að endurbyggja þann hluta eignarinnar sem skemmdist í bruna árið 2014. Þá hefur verið skrifað undir kaupsamning um fasteign við Háholt 17-19 í Mosfellsbæ og mun verslun Bónus flytja þangað á haustmánuðum.“
Von á niðurstöðu um Olís
Hagar urðu fyrir áfalli í fyrrasumar þegar Samkeppniseftirlitið hafnaði samruna þess við Lyfju. Hagar tilkynntu um það í lok apríl 2017 að félagið ætlaði að kaupa Olís á 9,1 milljarða króna. Þau kaup bíða einnig samþykkis Samkeppniseftirlitsins. Vænta má niðurstöðu eftirlitsins um mánaðamótin febrúar/mars.
Helstu eigendur Haga eru íslenskir lífeyrissjóðir.