Í dag opnaði Amazon Go verslun Amazon í Seattle. Þetta eru tímamót í heimi smásölunnar og tækninnar. Búðin er hátækniundur. Fólk gengur inn í búðina. Síminn er sjálfkrafa skannaður inn í kerfi búðarinnar. Síðan fer fólk um og finnur vörurnar, og gengur svo rakleiðis út aftur. Engar biðraðir. Engir búðarkassar eða starfsmenn við þá. Viðskiptin fara fram í gegnum notendasvæði Amazon í símanum. Það sem gerir þetta mögulegt, er myndavéla- og skynjarabúnaður í lofti verslunarinnar, sem hefur verið í mörg ár í þróun. Fjórtán mánuðir eru frá því að búðin var opnuð fyrir starfsmönnum Amazon, en nú hefur stóra skrefið verið stigið, og getur almenningur nú verslað í búðinni.
Stanslaus umferð hefur verið um búðina í dag, samkvæmt skrifum Seattle Times, en blaðamaður hyggst heimsækja hana þegar örlítið um hægist, vonandi síðar í vikunni.
An insider tour of Amazon Go, a cashierless store opening to the public today in Seattle: https://t.co/KumOMJ8A1Q
— The Seattle Times (@seattletimes) January 22, 2018
In a bold effort to reshape brick-and-morter shopping, sensors track items carried out and charge purchases to customers' Amazon accounts. No checkout lines. pic.twitter.com/CoyWMs4xoX
Hvað svo?
Stóra spurningin sem nú er spurt, er hvað Amazon hyggst gera. Munu nú spretta fram verslanir vítt og breitt um Bandaríkin, eða jafnvel heiminn?
Verður 470 Whole Foods verslunum fyrirtækisins breytt í þessa veru? Munu mánaðargjöld notenda Amazon vildarkjarakerfisins (Amazon Prime) hækka?
Þrjú atriði hafa helst verið nefnd, nú strax á fyrsta degi.
1. Búðin er bylting í verslun, og má líkja henni við það þegar strikamerkin komu fram. Þá fengu verslunarrekendur verkfæri til að auka hagkvæmni og áreiðanleika í þjónustu. Tæknin sem Amazon hefur nú kynnt til sögunnar - og hefur einkaleyfi á - getur aukið hagkvæmni til muna en hún stuðlar líka að mun betri nýtingu á plássi. Tölvustýrðir lagerar hjálpa til við að nýta pláss og stuðla að betri nýtingu á vörum. Þetta eru áhættuþættir sem oft geta reynst verslunum erfiðir; annars vegar afföll og hins vegar húsnæðiskostnaður. Margir virðast gera ráð fyrir að Amazon muni nýta sér búnaðinn í Whole Foods verslunum, en einnig í fleiri Amazon Go búðum. Þegar tæknin var fyrst kynnt skrifaði Laura Stevens, blaðamaður Wall Street Journal, fréttaskýringu þar sem hún sagðist vera með heimildir fyrir því, að Amazon væri búið að vinna með fjárfestum að því að tryggja sér um tvö þúsund staðsetningar fyrir Amazon Go verslanir í Bandaríkjunum. Amazon neitaði, en þó með þeim orðum að þessi áform væru ekki orðin að veruleika. Neitunin var ekki sannfærandi, með öðrum orðum.
2. Amazon er orðinn að fordæmalausum risa í smásölu, vegna netverslunarinnar. Talið er að áskrifendur vildarkjarakerfis Amazon séu nú orðnir yfir 90 milljónir, en opinber tala er ekki gefin upp. Eftir því sem þessi markaður stækkar, þeim mun verðmætara verður fyrir framleiðendur og umboðsaðila að koma vörum á framfæri á hinu risavaxna Amazon markaðstorgi. Amazon hyggst hækka mánaðargjaldið fyrir Prime meðlimi úr tæplega 10 Bandaríkjadölum á mánuði, í 12. En á sama tíma vill fyrirtækið bjóða fólki að halda sömu „gömlu“ kjörunum ef það skiptir yfir í ársáskift. Kunnugir blaðamenn í tæknigeiranum hér í Seattle, sem blaðamaður Kjarnans ræddi við, segja að Amazon vilji frekar hafa fólk í árs áskrift en mánaðarlegri, þar sem áreiðanleiki í greiðslukerfum fyrirtækisins er meiri þannig. Upphæðirnar eru miklar, og hagsmunirnir miklir. Eftir því sem útbreiðsla á þessu vildarkjarakerfi verður meiri því mun auðveldara verður fyrir fyrirtækið að tengja viðskiptavini við Amazon Go verslanir, vítt og breitt. Allt helst þetta í hendur hjá þessum risa; verslanir, netverslunin og vildarkjarakerfið. Það er eins konar hornsteinn í viðskiptasambandi Amazon við sína viðskiptavini.
At Amazon’s new convenience store, checking out feels like — there’s no other way to put it — shoplifting https://t.co/1nN32S7HL9
— The New York Times (@nytimes) January 22, 2018
3. Blaðamaður New York Times heimsótti Amazon Go verslunina í gær, degi áður en hún opnaði, og gerði tilraun til að stela vörum. Það gekk ekki betur en svo, að hann var rukkaður fyrir þær. Í umfjöllun sinni veltir hann því upp, að hugsanlega muni Amazon einblína á að breiða út hugbúnaðarkerfi sitt, og selja öðrum smásölufyrirtækjum aðgang að því. Með því móti myndi fyrirtækið einblína fyrst og síðast á þennan hluta verslunarrekstrarins, það er hugbúnaðarhlutann.
Það má taka dæmi: Íslensk verslun notast við hugbúnað Amazon, og greiðir eina milljón á mánuði til fyrirtækisins. Hugbúnaðurinn og kerfið allt, er síðan hryggjarstykkið í skipulaginu, og hjálpar til við að gera verslanir og lagera hagkvæmari. Það er vel hugsanlegt, að þetta sé eitt af því sem komi til greina hjá Amazon, þegar kemur að þessum byltingarkennda hugbúnaði.
Það er erfitt að spá fyrir um framtíðina, en miðað það skref sem Amazon steig í dag, þá er óhætt að tala um að bylting sé framundan í smásölu. Vaxandi netverslun er eitt, en þessi skynjara- og gervigreindarverslun er annað. Amazon er leiðandi í hvoru tveggja. Fyrirtækið er nú virði tæplega 600 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 65 þúsund milljarða króna. Stofnandinn Jeff Bezos heldur enn um þræðina sem forstjóri, og á enn 17 prósent hlut í fyrirtæki. Sem gerir hann að auðugasta manni heims, með um 100 milljarða Bandaríkjadala eignir.