Lokakaflinn í fléttunni um framtíð Arion banka að hefjast
Búið er að virkja kauprétt á hlut ríkisins í Arion banka. Það gerðist skyndilega í gær. Samhliða var rúmlega fimm prósent hlutur í bankanum seldur til sjóða. Ekki hefur verið upplýst hverjir eru endanlegir eigendur þeirra. Það er allt á fullu við ákvörðun um framtíð Arion banka, og íslensks fjármálakerfis.
Fyrir sex dögum síðan spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og nú þingmaður Miðflokksins, Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, úr ræðupúlti Alþingis um sölu á 13 prósent hlut ríkisins í Arion banka.
Sigmundur Davíð spurði Bjarna hvort að ríkið myndi selja vogunarsjóðum, sem eiga ráðandi hlut í Kaupþingi, stærsta eiganda Arion banka, hlut ríkisins beint?
Svar Bjarna var: „Það er enginn að tala um að selja beinni sölu 13 prósent hlut ríkisins í bankanum. Það er margt sem segir að það væri langheppilegast ef ríkið ætlaði að fara í sölu á þeim eignarhlut að það væri gert með opnum hætti og í tengslum við skráningu bankans á markað þannig að markaðslögmálin myndu gilda um það. Hins vegar er það svo að þegar ríkið lagði til fjármagn til að fjármagna stofnun Arion banka á sínum tíma á árinu 2009 var veittur kaupréttur að hlut ríkisins, þessum 13 prósent, án skilyrða á fyrirframákveðnu verði. Samkvæmt þeim kauprétti er það einhliða ákvörðun þeirra sem halda á kaupréttinum að leysa hlut ríkisins til sín. Gagnvart því þarf engan stuðning eða beiðni eða samþykki íslenska ríkisins.“
Kaupréttur skyndilega virkjaður síðdegis á þriðjudegi
Á þessum tíma, í lok síðustu viku, stóð stærstu lífeyrissjóðum landsins til boða að kaupa um fimm prósent hlut í Arion banka. Þeir höfðu fram á mánudag, 12. febrúar, til að svara því tilboði. Ríkisstjórnin taldi að ef lífeyrissjóðirnir myndu kaupa hlutinn þá yrði ofangreindur kaupréttur virkjaður. Þegar lífeyrissjóðirnir ákváðu síðan hver á fætur öðrum að segja pass, meðal annars vega óvissu sem ríkti um skráningu Arion banka á markað, var ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins, sem í sitja auk Bjarna þær Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, nokkuð viss um að kauprétturinn yrði ekki nýttur.
Það breyttist í gær. Þá var skilaboðum komið til Bankasýslu ríkisins um að vilji væri hjá Kaupskilum, félagi í eigu Kaupþings þar sem vogunarsjóðirnir eru stærstu hluthafarnir, að virkja kaupréttinn og greiða um 23 milljarða króna fyrir 13 prósent hlut ríkisins. Þótt Bankasýslunni hafi enn ekki borist formlegt erindi þá er ljóst að fyrir liggur tilboð sem Katrín, Bjarni og Lilja þurfa að taka afstöðu til.
Samhliða fór fram stjórnarfundur hjá Kaupþingi sem, samkvæmt heimildum Kjarnans, stóð fram á nótt. Niðurstaða hans var meðal annars sú að tveir af erlendum hluthöfum bæði Kaupþings og Arion banka, Attestor Capital og fjárfestingarbankinn Goldman Sachs, myndu kaupa 2,8 prósent hlut í Arion af Kaupþingi til viðbótar við það sem þeir áttu. Auk þess keyptu rúmlega 20 sjóðir í stýringu fjögurra af stærstu sjóðsstýringarfyrirtækjum Íslands: Stefnis, Íslandssjóða, Landsbréfa og Júpíter, samtals 2,54 prósent hlut. Samanlagt kaupverð var um 9,5 milljarðar króna. Ástæða þess að sú sala var keyrð í gegn í gær er einföld: þá var hægt að miða kaupverðið við níu mánaða uppgjör Arion banka. Miðað við það er verðið sem greitt var fyrir 0,805 krónur á hverja krónu af eigin fé sem bankinn á. Ef verðið hefði farið niður fyrir 0,8 krónur hefði forkaupsréttur ríkisins á hlutnum virkjast. Ef viðskiptin hefðu farið fram í dag, miðvikudaginn 14. febrúar, þá hefði verðið líkast farið undir þau mörk. Arion banki birti nefnilega ársuppgjör sitt fyrir árið 2017 síðar í dag.
Kaupréttur ekki sama og forkaupsréttur
Í umræðunni hefur ekki verið gerður skýr greinarmunur á annars vegar kauprétti og hins vegar forkaupsrétti sem er til staðar á hlutum í Arion banka. Kauprétturinn sem Kaupþing vill nýta sér til að eignast hlut ríkisins í bankanum byggir á samkomulagi frá árinu 2009, sem þáverandi stjórn Vinstri grænna og Samfylkingar gerði við kröfuhafa Kaupþings þegar Arion banka var tryggð fjármögnun. Forkaupsrétturinn er hins vegar hluti af samkomulagi sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar gerði árið 2015 við kröfuhafa föllnu bankanna, og í felst að virkjast ef hlutir í Arion banka eru seldir á lægra verði en 0,8 krónur á hverja krónu af bókfærðu eigin fé Arion banka.
Ein helsta ástæða þess að vogunarsjóðirnir vilja nú nýta sér kauprétt sinn er talin vera sú að fulltrúi Bankasýslu ríkisins í stjórn Arion banka, Kirstín Þ. Flygenring, hafi sett sig upp á móti því að kortafyrirtækið Valitor, sem er að fullu í eigu Arion banka, verði aðgreint frá bankanum og að hlutabréf í fyrirtækinu verði að stærstum hluta greidd út í formi arðs til hluthafa. Hún vildi frekar að Valitor yrði selt í opnu söluferli. Þess í stað munu vogunarsjóðirnir, sem eru með tögl og haldir í Kaupþingi, eignast stóran hluta í Valitor, gangi áform þeirra eftir. Þetta vilja þeir gera áður en að Arion banki verður skráður á markað í apríl næstkomandi, en stefnt er á að hann verði skráður bæði á Íslandi og í Stokkhólmi. Með því að kaupa ríkið út þá losna sjóðirnir við fulltrúa Bankasýslunnar úr stjórn Arion banka. Og geta aðgreint Valitor áður en skráningin fer fram.
Það yrði ekki í fyrsta sinn sem vogunarsjóðirnir beittu sér fyrir því að stjórnarmaður sem er ekki á þeirra línu verði fjarlægður úr stjórn Arion banka. Það gerðist líka í lok nóvember síðastliðinn þegar Guðrún Johnsen, sem verið hafði verið varaformaður stjórnarinnar, var skyndilega látin hætta. Hún hafði, samkvæmt heimildum Kjarnans, verið gagnrýnin á það ferli sem var fram undan. Í hennar stað var Steinunn Kristín Þórðardóttir tilnefnd í stjórnina af Kaupþingi.
Miklar breytingar fram undan
Samandregið þá er uppi sú staða nú að til stendur að selja Valitor til nýrra eigenda án þess að opið söluferli fari fram og að hlutur ríkisins í Arion banka verður mögulega seldur án slíks sömuleiðis, verði það niðurstaðan að 23 milljarða króna tilboð í hann sé nægjanlega hátt.
Í kjölfarið verður ráðist í tvíhliðaskráningu Arion banka á markað, hérlendis og í Svíþjóð. Stefnt er að því að sú skráning muni fara fram í apríl. Í aðdraganda hennar mun fara fram hlutafjárútboð þar sem Kaupþing mun bjóða til sölu hluta af eign sinni í bankanum. Viðmælendur Kjarnans telja líklegast að útboðið muni fara fram með þeim hætti að kaupendum sem geti keypt stóran hlut verði fyrst boðið að kaupa á lægra verði en verður í almenna útboðinu. Þar verður fyrst og síðast reynt að höfða til íslenskra lífeyrissjóða enn á ný.
Það liggur á að klára sölu á meira af hlutafé Arion banka. Þegar samið var um stöðugleikaframlög þá var hluti af samkomulaginu að ríkið gæfi út skuldabréf upp á 84 milljarða króna sem Kaupþing ætti að greiða með afrakstri sölu hlutafjár. Líkt og áður sagði þarf slík sala að fara fram á gengi sem er að minnsta kosti 0,8 krónur á hverja krónu af bókfærðu eigin fé Arion banka. Kaupþingi er ekki heimilt að greiða inn á skuldabréfið með öðrum hætti en með afrakstri hlutafjársölu í bankanum. Takist Kaupþingi ekki að selja hluti til að greiða það niður fyrir árslok 2018 getur íslenska ríkið leyst hluti í Arion banka til sín.
Kaupþing hefur þegar greitt vel inn á skuldabréfið. Eftirstöðvar þess eru nú um 35 milljarðar króna. Sú greiðsla kom í kjölfar þess að fjórir af stærstu eigendum Kaupþings, Taconic Capital, Och-Ziff Capital Management Group, sjóðir í stýringu Attestor Capital og Goldman Sachs, keyptu samtals 29,6 prósent hlut í Arion banka af sjálfum sér í fyrra.
Alls voru hluthafar Kaupþings 591 í lok árs 2016, samkvæmt síðasta birta ársreikningi félagsins. Langflestir þeirra voru áður kröfuhafar í bú Kaupþings. Á meðal þeirra sem eiga hlut í félaginu er Wintris sem er í eigu Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar Davíðs. Wintris á 0,01 prósent hlut í Kaupþingi.
Áferðin skiptir máli vegna skorts á trausti
Áhyggjur íslenskra ráðamanna af þeirri stöðu sem nú er uppi helgast ekki bara af því hvort að ríkið fái gott verð fyrir 13 prósent hlut sinn í Arion banka. Þær snúast líka um þá tortryggni og skort á trúverðugleika sem ógagnsætt ferli um sölu á hlut í fjármálafyrirtækjunum Arion banka og Valitor geta valdið.
Hér á landi hefur áður farið fram sala á fjármálafyrirtækjum sem reyndist síður en svo gegnsæ. Þannig reyndist salan á hlut ríkisins í bönkum á árunum 2002 og 2003 að hluta til vera þaulskipulögð svikamylla. Það var opinberað í skýrslu rannsóknarnefndar um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.
Sama var upp á teningnum þegar ríkisbankinn Landsbankinn ákvað að selja kortafyrirtækið Borgun á bakvið luktar dyr til sérvalins hóps fjárfesta á verði sem síðar reyndist langt undir virði fyrirtækisins.
Slík vinnubrögð, og auðvitað eitt stykki bankahrun ásamt aragrúa efnahagsglæpa sem opinberaðir voru í kjölfar þess, hefur skilað því að traust á bankakerfið mælist einungis 14 prósent. Engin stofnun í íslensku samfélagi mælist með minna traust. Ekki einu sinni Alþingi, sem mælist með 22 prósent traust.
Ekkert liggur fyrir um hverjir séu endanlegir eigendur þeirra erlendu vogunarsjóða og fjármálafyrirtækja sem eiga stóran hlut í Arion banka. Þá liggur heldur ekkert fyrir um hverjir séu endanlegir eigendur þeirra rúmlega 20 sjóða, í stýringu íslenskra sjóðstýringarfyrirtækja, sem keyptu hlut í Arion banka í gær.
Arður og bónusar
Með kaupunum sem áttu sér stað í gær hefur skilyrði fyrir 25 milljarða króna arðgreiðslu til hluthafa Arion banka verið uppfyllt. Það skilyrði var að Kaupþing myndi ná að selja að minnsta kosti tvö prósent af eign sinni í bankanum fyrir 15. apríl næstkomandi. Arðgreiðslan gæti orðið minni vegna heimildar stjórnar til að kaupa allt að 200 milljónir hluta í bankanum á allt að 18,8 milljarða króna. Um er að ræða allt að tíu prósent hlut í Arion banka. Verði sú heimild fullnýtt mun arðgreiðslan nema 6,2 milljörðum króna. Hvernig sem fer snýst málið um að koma 25 milljörðum krónum út úr Arion banka og til hluthafa hans. Við þetta mun eiginfjárhlutfall bankans lækka um ríflega þrjú prósent.
Þá geta lykilstarfsmenn Kaupþings farið að hugsa sér gott til glóðarinnar. Þeir eiga nefnilega von á stórum bónusgreiðslum á allra næstu vikum. Í ágúst 2016 var greint frá því að um 20 starfsmenn Kaupþings gætu fengið allt að 1,5 milljarða króna í bónusgreiðslur ef markmið um hámörkun á virði óseldra eigna myndi nást. Þessar bónusgreiðslur eiga að greiðast út eigi síðar en í lok apríl 2018.