Drengurinn sem síðar fékk nafnið Henri Marie Jean André (greve de Laborde de Monpezat) fæddist í Frakklandi 11. júní 1934. Hann ólst upp í Frakklandi og franska Indókína (Laos, Kambodíu og Víetnam). Foreldrarnir voru efnafólk með fyrirtækjarekstur í Frakklandi og Asíu. Henri lauk herskyldu, eins og lög gerðu ráð fyrir, lagði stund á píanónám en ákvað svo að fara aðra leið og lauk magisterprófi í frönskum bókmenntum og asískum tungumálum.
Áratugum síðar rifjaði Henri (eða Henrik á dönsku) upp í viðtali að þegar hann var í Asíu árið 1958, löngu áður en hann kynntist Margréti Þórhildi, fór hann ásamt vinkonu sinni til kínversks spámanns. Spámaðurinn sagði Henri að hann myndi giftast konu sem byggi langt í burtu og ,,líf þitt verður spennandi, fullt af ýmsum hindrunum og erfiðleikum. Þú verður þekktur, og ríkur, og eyðir ævinni að mestu í landi umkringdu vatni, eyju.“ Vinkonunni þótti lítið til spámannsins koma en þegar litið er til baka hitti spámaðurinn naglann á höfuðið.
Kvöldverðarboðið
Árið 1964 var Henri boðið til kvöldverðar í London en hann var þá fyrir skömmu orðinn starfsmaður franska sendiráðsins þar. Í þessu kvöldverðarboði sat hann við hlið ungrar konu, sem hann þekkti ekki, Þau spjölluðu um heima og geima, einkum um listir og bókmenntir. ,,Okkur skorti ekki umræðuefni en þegar þessi geðþekka unga kona sagði mér að hún væri ríkisarfi Danmerkur brá mér nú aðeins“ sagði Henri í viðtali árið 2000. Skömmu síðar hittust þau aftur og „svo kom Amor með örvarnar“.
Hamingjan hjálpi okkur, hann er franskur!
Í ausandi rigningu haustið 1966 settist ung kona undir stýri á Volvo Amazon bifreið og ók sem leið lá frá Amalienborg í Kaupmannahöfn út á Kastrup flugvöll. Þetta var stuttur bíltúr, einungis átta kílómetrar en hjartað í brjósti bílstjórans sló ótt og títt. Margrét Þórhildur var að sækja unnustann sem var að koma í fyrsta sinn til Kaupmannahafnar. Hann var enn við störf í London en hafði fengið nokkurra daga leyfi til að heimsækja unnustuna. Dönsku blöðin komust á snoðir um heimsóknina og grófu næstu daga upp allt sem þeim var unnt um þennan tilvonandi maka ríkisarfans. Eitt blaðanna greindi frá því að þegar blaðamaður greindi gömlum konum sem sátu á bekk í miðbæ Kaupmannahafnar frá því að unnusti ríkisarfans væri í borginni, og hann væri franskur, slógu gömlu konurnar sér á lær og sögðu ,,Gud bevare Danmark“. Nýársræður drottningar enda reyndar ætíð á þessum orðum en það er önnur saga! ,,Ætli hann sé óttalegt snobb, þekkir örugglega ekki rúgbrauð og vill þrjár tegundir af osti með kríthvítum frönskum rúnnstykkjum“ sögðu gömlu konurnar á bekknum. Þær vissu ekki, og kannski jafngott, að unnusti ríkisarfans myndi síðar iðulega klæðast rauðum buxum, blárri skyrtu og gulum eða grænum jakka.
Hlustaði ekki á pabba
Margrét Þórhildur og Henri voru gefin saman í Hólmsins kirkju í Kaupmannahöfn 10. júní 1967. Henri tók þá upp danska nafnið Henrik og var jafnframt kallaður prins. Henrik sagði í viðtölum að sér væri mjög vel ljóst hlutskipti sitt, sem maka ríkisarfans og hann sætti sig fyllilega við það. Það gerði hann líka fyrst í stað, en það átti eftir að breytast.
Þegar Henrik greindi foreldrum sínum frá fyrirhuguðum ráðahag, að hann ætlaði að kvænast ríkisarfa Danmerkur, sagði faðir hans að hann yrði strax að fá á hreint hvaða skyldum honum væri ætlað að gegna og hvert hlutverk hans yrði. Henrik þótti þetta óþarfa áhyggjur en sá síðar að hann hefði betur hlustað, og tekið mark á, orðum föður síns. Danska hirðin vissi ekkert hvaða störf og verkefni ætti að fela þessum nýja tengdasyni þjóðarinnar, hann fékk litla skrifstofu í höllinni, síma, skriffæri og ritara sem fyrst í stað hafði engin verkefni, frekar en prinsinn. Þau Margrét Þórhildur og Henrik eignuðust tvo syni, krónprinsinn Friðrik árið 1968 og Jóakim ári síðar.
14. janúar 1972
Friðrik IX konungur lést aðfaranótt 14. janúar 1972 og að morgni sama dags var Margrét Þórhildur formlega útnefnd þjóðhöfðingi Dana. Margrét Þórhildur hafði skyndilega í mörg horn að líta, og Henrik fylgdi með, ætíð tveimur skrefum fyrir aftan eiginkonuna (samkvæmt hans eigin lýsingu). Þessar skyldur tóku sinn tíma, en önnur verkefni hafði Henrik ekki. Hann sagði síðar að hann hefði gjarna viljað verja meiri tíma með drengjunum meðan þeir voru litlir en hann reyndi að bæta það upp með barnabörnunum. Synirnir eiga fjögur börn hvor.
Prinsa- og prinsessukraðakið
Þegar Henrik fékk titilinn prins var hann einn um þann titil. Það fjölgaði í hópnum þegar synirnir fæddust, krónprinsinn Friðriki og Jóakim prins. Síðar, þegar barnabörnin komu til sögunnar bættust við fleiri prinsar og einnig prinsessur. Margrét Þórhildur og Henrik ákváðu þá að hann skyldi framvegis, til aðgreiningar, bera titilinn prinsgemal, drottningarmaður. Henrik var reyndar ósáttur við að vera ekki titlaður kóngur, segir það ekki jafnrétti og vísar þá til þess að Mary, eiginkona Friðriks verði drottning þegar Friðrik tekur við krúnunni. Danska stjórnarskráin leyfir hinsvegar ekki að kóngur sé lægra settur en drottning og nöldrið í Henrik breytti engu þar um.
Kom víða við
Eins og áður sagði tók það Henrik nokkurn tíma að ,,finna fjölina“. Þegar litið er yfir ævi hans og störf sést að hann hefur víða komið við og fengist við fjölbreytt verkefni. Árið 1974 keyptu þau hjónin vínbúgarðinn Chateau de Cayx í Suður- Frakklandi, skammt frá æskuheimili Henriks. Þar hafði verið framleitt miðlungsvín en Henrik stefndi markvisst að því að framleiða gæðavín og á síðustu árum hefur vínið frá Cayx unnið til verðlauna og hlotið viðurkenningar. Drottningin hefur iðulega dvalið á búgarðinum á sumrin en ekki komið nálægt vínframleiðslunni ,,læt duga að drekka hana“ sagði hún einhverju sinni í viðtali. Vínframleiðsluna seldu hjónin árið 2015 en héldu aðalbyggingunni á búgarðinum.
Allt frá æsku fékkst Henrik við ljóðagerð, sendi frá sér átta ljóðabækur, sumar myndskreytti hann sjálfu en naut líka aðstoðar Margrétar Þórhildar, sem er afkastamikill myndlistarmaður. Henrik fékkst einnig nokkuð við þýðingar, úr frönsku á dönsku, á verkum þekktra franskra rithöfunda. Talaði reyndar sex tungumál, slakastur í dönsku sagði hann sjálfur. Þau hjónin töluðu ætíð frönsku sín á milli.
Um árabil sótti Henrik tíma í höggmyndagerð á Konunglega listaháskólanum og eftir hann liggur fjöldinn allur af styttum, margar steyptar í brons. Fyrir fjórum árum hélt AROS listasafnið í Árósum stóra sýningu á verkum hans og Margrétar Þórhildar. Tæplega 300 þúsund manns sáu sýninguna.
Henrik var mikill áhugamaður um mat og matargerð (eins og sést á vaxtarlaginu sagði hann í viðtali fyrir nokkrum árum). Hann skrifaði nokkrar matreiðslubækur og kom margoft fram í matargerðarþáttum í sjónvarpi, þar naut kímnigáfa hans sín vel. Garðurinn við Fredensborgarhöllina, eftirlætisstað Henriks, ber áhuga hans á garðrækt gott vitni og þar eyddi hann miklum tíma ár hvert. Hann var mikill áhugamaður um tónlist, var prýðilegur píanóleikari og samdi nokkur tónverk.
Það sem hér hefur verið talið flokkast allt undir tómstundagaman. En Henrik kom víðar við. Hann tók virkan þátt í starfi Rauða Krossins og fleiri samtaka, til dæmis á sviði náttúruverndar og umhverfismála. Forystumenn í dönskum iðnaði segja hann hafa unnið ötullega að því að skapa viðskiptasambönd, ekki síst í Asíu. Framkvæmdastjóri eins stærsta fyrirtækis Danmerkur á sviði tæknibúnaðarframleiðslu sagði í viðtali að um þessi störf Henriks vissu fáir en þau væru að sínu mati mikilvægari en allt annað sem prinsinn hefði fengist við.
Afmæli, eftirlaunin og legstaðurinn
16. apríl 2015 varð Margrét Þórhildur 75 ára og af því tilefni efnt til mikillar og fjölmennrar veislu. Þar vantaði þó einn: Henrik. Fjarvera hans vakti athygli en skýringin sögð sú að hann væri lasinn. Hann virtist hinsvegar við hestaheilsu tveimur dögum síðar þegar til hans sást í Feneyjum. Danskir fjölmiðlar töldu hann vera í langtímafýlu, óánægja hans með að fá ekki konungstitilinn yrði æ meira áberandi.
Í nýársávarpi sínu á gamlárskvöld 2015 greindi Margrét Þórhildur frá því að Henrik hefði ákveðið að fara á eftirlaun. Tæki framvegis þátt í færri viðburðum. Á vordögum 2016 tilkynnti Henrik að nú vildi hann ekki lengur bera titilinn prinsgemal, nú yrði hann aftur prins Henrik.
3. ágúst 2017 varpaði Henrik sprengju (orðalag fjölmiðla) inn í danskt samfélag. Tilkynnti að hann vildi ekki, þegar þar að kæmi hvíla við hlið drottningar í Hróarskeldu, ástæðan væri einföld ,,maður sem ekki stendur jafnfætis konu sinni í lífinu verðskuldar ekki að hvíla við hlið hennar í gröfinni.“ Danska þjóðin átti ekki til orð, þótt Henrik væri óánægður með að fá ekki að heita kóngur væri þetta nú einum of langt gengið. Ekki sagði Henrik neitt um það hvar hann vildi láta jarða sig.
Mörgum fannst sem prinsinn væri hreint ekki með fullum sönsum, sú tilgáta reyndist ekki fjarri lagi, þótt það kæmi ekki í ljós fyrr en nokkru síðar.
Greindist með einkenni heilabilunar
Í byrjun september í fyrra sendi fjölskylda drottningar frá sér tilkynningu. Þar sagði að prins Henrik hefði greinst með einkenni heilabilunar, Þetta væri niðurstaða ítarlegra rannsókna sérfræðinga Ríkisspítalans í Kaupmannahöfn. Fjölmiðlar fjölluðu ítarlega um þetta mál og öll þjóðin virtist á einu máli um að þarna væri skýringin á háttalagi og sérkennilegum yfirlýsingum prinsins. ,,Maðurinn er veikur og það verður að meta ummæli hans og og háttalag á þeim forsendum“. Í nýársávarpi sínu að kvöldi gamlársdags 2017 fór drottningin nokkrum orðum um veikindi Henriks og þakkaði þann stuðning sem fjölskyldan hefði notið hjá þjóðinni.
Lést á Fredensborg
Eftir um það bil hálfs mánaðar veru á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn var Henrik, þriðjudaginn 13. febrúar, að eigin ósk fluttur til Fredensbogarhallar á Norður- Sjálandi, þar vildi hann eyða sínum síðustu stundum. Þær stundir urðu ekki margar, því hann lést að kvöldi þess sama dags. Fredensborg var eftirlætisstaður Henriks, þar dvöldu þau hjónin að jafnaði sex mánuði ársins, þrjá að vori og þrjá að hausti.
Hvar vill hann hvíla?
Þetta var spurningin sem strax vaknaði þegar fréttin um andlát Henriks barst. Ekki þurfti lengi að bíða svars því í ljós kom að hann var sjálfur búinn að skipuleggja útfararathöfnina og greftrunarstaðinn. Hann vildi láta brenna sig og hluta öskunnar skyldi dreift á dönsku hafsvæði, en duftker með ösku hans skyldi jarðsett í einkareit fjölskyldunnar í Fredensborgargarði. Útfararathöfnin yrði ekki svokölluð ,,opinber útför“ en kista hans skyldi flutt á Amalienbog, vera þar um kyrrt í um það bil sólarhring og þaðan flutt í Kristjánsborgarkirkjuna við hlið Kristjánsborgar. Allt gekk þetta eftir, samkvæmt fyrirmælum Henriks, og þar stendur kistan, lokuð, á ,,castrum doloris“, sérstökum viðarpalli (ekki til íslenskt orð) fram að útför sem gerð verður á þriðjudag, 20. febrúar. Að Henrik skyldi ákveða að jarðneskar leifar sínar skuli brenndar er ekki samkvæmt hefð konungsfjölskyldunnar en sú ákvörðun hefur mælst vel fyrir og ekki síður fyrirmæli hans varðandi öskuna.
Hver verða eftirmælin
Umfjöllun um Henrik prins hefur verið mjög fyrirferðarmikil í dönskum fjölmiðlum undanfarna daga. Að sögn sérfróðra hefur aldrei í sögunni verið jafn mikil umfjöllun um nokkra persónu og mátt hefur sjá og heyra undanfarna daga. Ævi prinsins hefur verið rakin í smáatriðum, birt gömul og nýrri viðtöl við hann, rætt við fólk sem þekkti hann vel, óteljandi myndir af honum, frá ýmsum tímum o.s.frv. Undantekningalaust tala allir sem kynntust Henrik vel um hann. Hann hafi verið skemmtilegur, áhugasamur um fólk, mjög vel að sér um flesta hluti. Ekta fransmaður sem fór sínar eigin leiðir og það mæltist ekki alltaf vel fyrir í þessum ,,litla andapolli“ eins og einhver komst að orði. Einn viðmælandi danska útvarpsins sagði það hefðu ugglaust verið mikil viðbrigði fyrir þennan heimsvana Frakka að flytja til Danmerkur, sem á þeim tíma var ,,þróunarland í matargerðarlyst“.
Henrik var oft skotspónn fjölmiðla. Þeir hæddust að klæðnaði hans sem var litskrúðugri en hinir svartklæddu Danir áttu, og eiga, að venjast. Mest grín var þó gert að dönskunni hjá prinsinum. Hann hafði mikinn orðaforða en náði aldrei góðum tökum á framburðinum. Sagði sjálfur að hann hefði þurft að leggja sig langtum meira fram til að ná tökum á dönsku talmáli. Í viðtali við dagblaðið Politiken sagði einn sem við var rætt að Danir ættu kannski að líta í eigin barm, þeir væru nú upp til hópa ekki neinir sérstakir tungumálasnillingar.
Sjálfum var Henrik kannski alveg sama þótt grín væri gert að ýmsu í fari hans, honum sárnaði hinsvegar þegar hann var sakaður um að vera ekki ,,ekta Dani“. Flestir, ef ekki allir eru sammála um að hann hafi verið Margréti Þórhildi mikil stoð og stytta, bæði á opinberum vettvangi og sem lífsförunautur, þau voru gift í rúma hálfa öld.
Það hve margir hafa séð ástæðu til að votta honum og fjölskyldunni virðingu sína undanfarna daga hefði ugglaust glatt hann en þúsundir Dana hafa lagt leið sína til Amalienborgar, Fredensborgar, Graastenhallar og Marselishallar í Árósum og lagt þar blómvendi og kveðjur.