Lögum um kjararáð var breytt undir lok árs 2016 og tóku þær breytingar gildi um mitt síðasta ár. Um var að ræða frumvarp sem formenn sex flokka á Alþingi stóðu að. Formennirnir sex voru Bjarni Benediktsson Sjálfstæðisflokki, sem einnig var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, Katrín Jakobsdóttir Vinstri grænum, Logi Einarsson Samfylkingu, Óttarr Proppé Bjartri framtíð, Sigurður Ingi Jóhannsson Framsóknarflokki og og Benedikt Jóhannesson Viðreisn.
Eini flokkurinn sem þá átti sæti á þingi og var ekki með á frumvarpinu voru Píratar. Þingmenn flokksins greiddu hins vegar atkvæði með lögunum þegar þau voru samþykkt í atkvæðagreiðslu 22. desember 2016.
Tilgangur frumvarpsins var að fækka verulega þeim sem kjararáð ákveður laun og önnur starfskjör og færa ákvarðanir um slíkt annað. Á meðal þeirra sem fluttust þá undan kjararáði voru fjölmargir forstjórar fyrirtækja í opinberri eigu.
Þau áttu því að vinda ofan af breytingum á lögum um kjararáð sem tóku gildi sumarið 2009 og gerðu það að verkum að ríkisforstjórar máttu ekki vera með hærri grunnlaun en forsætisráðherra.
Þegar frumvarpið var lagt fram var því spáð að það myndi nær örugglega leiða til þess að laun ýmissa ríkisforstjóra myndu hækka verulega. Upplýsingar sem fram hafa komið síðustu daga sýna að það er raunin.
32 og 49 prósent
Um þessar mundir eru flest stærri fyrirtæki landsins að birta ársreikninga sína. Þeirra á meðal eru fyrirtæki í eigu ríkisins. Áður en ofangreind breyting á lögum um kjararáð tók gildi voru ákvarðanir um laun æðstu stjórnenda þeirra tekin af kjararáði, en það vald var fært aftur til stjórna þeirra með breytingunni.
Stjórnarformaður Landsvirkjunar er Jónas Þór Guðmundsson. Það er fjármála- og efnahagsráðherra sem tilnefnir í stjórn Landsvirkjunar. Þegar Jónas Þór settist í stjórnina gengdi Bjarni Benediktsson því embætti. Hann er einnig formaður Kjararáðs og er þar fulltrúi Sjálfstæðisflokks. Á meðal annarra stjórnarmanna í Landsvirkjun, sem tóku ákvörðun um launahækkun forstjóra, eru tveir fyrrverandi ráðherrar, Ragnheiður Elín Árnadóttir úr Sjálfstæðisflokki og Álfheiður Ingadóttir úr Vinstri grænum. Auk þeirra sitja í stjórninni Haraldur Flosi Tryggvason og Kristín Vala Ragnarsdóttir. Stjórnin hækkaði einnig eigin laun duglega á síðasta ári. Heildarlaun hennar fóru úr 12,7 milljónum króna í 19 milljónir króna. Það er hækkun um 49 prósent.
17,6 prósent og 11 prósent
Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspóst, hefur einnig notið góðs af þessum breytingum. Laun hans hækkuðu um 17,6 prósent á síðasta ári og mánaðarlaun hans eru nú 1,7 milljónir króna.
Á meðal þeirra sem sitja í stjórn Íslandspósts, sem ákvað hækkunina, er Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar. Hún er varaformaður stjórnarinnar. Laun stjórnarmanna í Íslandspósti voru einnig hækkuð milli ára. Samtals fóru greiðslur til stjórnarmanna úr níu milljónum króna í tíu milljónir króna. Þau eru ekki sundurliðuð sérstaklega í ársreikningi Íslandspósts. Um er að ræða hækkun um 11 prósent milli ára.
140 prósent og 59 prósent
Íslenska ríkið á tvo banka. Annan þeirra, Íslandsbanka, eignaðist það í byrjun árs 2016. Hann hafði þá árum saman verið í eigu slitabús Glitnis. Árið 2016 voru heildarlaun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra bankans, 60,7 milljónir króna. Þau samanstóðu af 51,6 milljóna króna greiðslu vegna launa og hlunninda og 9,1 milljóna króna árangurstengdrar greiðslu.
Eftir að Íslandsbanki komst í ríkiseigu blasti við að ákvörðun um launakjör bankastjóra hans myndu færast undir kjararáð. Það náði að úrskurða einu sinni um laun Birnu áður en að breytt lög tóku gildi 1. júlí 2017. Sá úrskurður var á þá leið að laun hækkar ættu með öllu að vera rúmar tvær milljónir króna á mánuði, og laun hennar á ársgrundvelli því um 24 milljónir króna.
Í nýbirtum ársreikningi Íslandsbanka kemur hins vegar í ljós að laun, hlunnindi og árangurstengdar greiðslur til Birnu voru 58 milljónir króna í fyrra, og meðaltalslaun hennar á mánuði því um 4,8 milljónir króna. Það er um 140 prósent hærra en úrskurður kjararáðs sagði til um. Því er ljóst að breytingarnar á lögum um kjararáð um mitt síðasta ár hafi komið í veg fyrir verulega kjararýrnun bankastjórans.
Stjórnarformaður Íslandsbanka er Friðrik Sophusson, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Hann er líka formaður starfskjaranefndar bankans. Laun Friðriks fyrir stjórnarsetu fóru úr 9,3 milljónum króna í 10,6 milljónir króna í fyrra, og hækkuðu því um tæp 14 prósent. Það þýðir að Friðrik fékk um 883 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Laun varaformanns stjórnar, Helgu Valfells, hækkuðu um 22,4 prósent í 8,2 milljónir króna á ári. Mánaðarlaun Helgu fyrir stjórnarsetu voru því um 683 þúsund krónur á mánuði. Laun annarra stjórnarmanna en formanna hækkuðu þó mest, eða um 59 prósent á einu ári. Almennir stjórnarmenn fá nú sjö milljónir króna á ári eða um 583 þúsund krónur. Stjórnarseta í Íslandsbanka er ekki aðalstarf.
21,7 prósent
Bankastjóri Landsbankans er Lilja Björk Einarsdóttir. Hún tók við starfinu í fyrra en fyrirrennara hennar, Steinþóri Pálssyni, var sagt upp störfum í lok árs 2016. Í ársreikningi Landsbankans kemur fram að Lilja Björk hafi verið með 2,8 milljónir króna á mánuði í laun og hlunnindi á því níu og hálfs mánaðar tímabili sem hún gegndi starfinu á síðasta ári.
Á árinu 2016 námu heildarmánaðarlaun og hlunnindi fyrrverandi og núverandi bankastjóra að meðaltali 2,3 milljónum króna. Mánaðarlaunin hækkuðu því um 21,7 prósent á milli ára.
Formaður bankaráðs Landsbankans er Helga Björk Eiríksdóttir. Hún er einnig formaður starfskjaranefndar sem tekur ákvörðun um launakjör innan bankans. Laun og hlunnindi stjórnarformannsins hækkuðu í 10,8 milljónir króna í fyrra, eða um 15,6 prósent. Hún fær því um 925 þúsund krónur á mánuði fyrir stjórnarsetu sína. Varaformaður bankaráðsins heitir Magnús Pétursson. Laun og hlunnindi hans hækkuðu í 8,2 milljónir króna. Hann fær því 683 þúsund krónur að meðaltali á mánuði fyrir setu í bankaráðinu. Aðrir bankaráðsmenn hækkuðu einnig í launum og fá nú mánaðarlaun sem eru yfir 600 þúsund krónur á mánuði. Seta í bankaráði er ekki aðalstarf.
Tíu prósent
Annar forstjóri sem færðist undan kjararáði í fyrra er Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. Laun hans hækkuðu um tvær milljónir króna í fyrra og námu heildarlaun hans á ársgrundvelli 21,7 milljónum króna, eða um 1,8 milljónum króna á mánuði. Það er hækkun um rúm tíu prósent.
Enn eiga ýmis fyrirtæki sem eru að hluta eða öllu leyti í eigu ríkisins, og laun forstjóra þeirra heyrðu áður undir kjararáð en eru nú ákvörðuð af stjórnum, eftir að skila ársreikningum. Þar má m.a. nefna RÚV, Isavia, RARIK og Matís. Því liggja ekki fyrir opinberar upplýsingar um launaþróun forstjóra eða forstöðumanna þeirra á síðasta ári.