Í bréfi sem fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi stjórnum fyrirtækja í ríkiseigu og Bankasýslu ríkisins í janúar 2017 var þeim tilmælum beint til þeirra að stilla öllum launahækkunum forstjóra í hóf eftir að ákvarðanir um laun þeirra færðust undan kjararáði um mitt ár í fyrra. Þar stendur að ástæða hafi verið til þess að „vekja sérstaka athygli á mikilvægi þess að stjórnir hafi í huga áhrif launaákvarðana á stöðugleika á vinnumarkaði og ábyrgð félaganna í því sambandi. Æskilegt er að launaákvarðanir séu varkárar, að forðast sé að ákvarða miklar launabreytingar á stuttu tímabili en þess í stað gætt að laun séu hækkuð með reglubundnum hætti til samræmis við almenna launaþróun.“
Afrit af bréfinu var sent til allra stjórnanna daginn áður en að ný lög um kjararáð, sem færðu launaákvörðunarvald frá ráðinu til stjórna opinberu fyrirtækjanna, tóku gildi í byrjun júlí 2017. Stjórnir flesta stærstu fyrirtækjanna í ríkiseigu hunsuðu tilmælin og hækkuðu laun forstjóra sinna langt umfram almenna launaþróun. Kjarninn hefur fengið umrætt bréf afhent frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Pólitísk ákvörðun um að breyta lögum
Lögum um kjararáð var breytt undir lok árs 2016 og tóku þær breytingar gildi um mitt síðasta ár. Um var að ræða frumvarp sem formenn sex flokka á Alþingi stóðu að. Formennirnir sex voru Bjarni Benediktsson Sjálfstæðisflokki, sem einnig var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, Katrín Jakobsdóttir Vinstri grænum, Logi Einarsson Samfylkingu, Óttarr Proppé Bjartri framtíð, Sigurður Ingi Jóhannsson Framsóknarflokki og og Benedikt Jóhannesson Viðreisn.
Skýr skilaboð sem voru ítrekuð nokkrum sinnum
Þann 6. janúar 2017 sendi fjármála- og efnahagsráðuneytið bréf til stjórna fyrirtækja í ríkiseigu og stjórnar Bankasýslu ríkisins. Tilefnið var ákvörðun launa og starfskjara framkvæmdastjóra félaga í meirihlutaeigu ríkisins eftir að sú ákvörðun færðist undan kjararáði og til stjórnanna um mitt ár 2017.
Í bréfinu stendur að í tilefni af þeim breytingum sem væru yfirvofandi vildi ráðuneytið benda á þá skyldu stjórna að við ákvörðun launa og starfskjara framkvæmdastjóra og starfsmanna félagsins almennt yrði fylgt ákvæðum eigendastefnu ríkisins um að félög í eigu þess skuli „setja sér hóflega en samkeppnishæfa launastefnu“. Þetta átti að fela í sér, samkvæmt skilgreiningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, að launastefna félags í meirihlutaeigu ríkisins skyldi ekki „ekki vera leiðandi, eins og áréttað er í eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki frá árinu 2009“. Þá átti að horfa til ábyrgðar og árangurs við ákvörðun um starfskjör og gæta að viðurkenndum jafnréttissjónarmiðum.
Ráðuneytið beindi þeim tilmælum til stjórna félaganna að bréfið yrði kynnt á stjórnarfundi og haft til hliðsjónar við launaákvarðanir. Einnig var þess óskað að bréfið yrði sent dótturfélögum þar sem ákvarðanir um laun framkvæmdastjóra hefðu fallið undir kjararáð.
Bréfið var, líkt og áður sagði, fyrst sent 6. janúar 2017. Afrit af bréfinu var síðan sent þann 30. júní 2017 á nýjar stjórnir félaganna. Þá fundaði Benedikt Jóhannesson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, með formönnum stjórna stærri félaga þann 10. ágúst 2017 og var þar farið yfir efni bréfsins.
Mikið launaskrið
Kjarninn greindi frá því í fréttaskýringu í síðustu viku að tilmæli ráðherrans hafi verið fullkomlega hunsuð af stjórnum stærstu félaganna sem eru í eigu íslenska ríkisins. Þannig hækkaði stjórn Landsvirkjunar laun forstjórans Harðar Arnarsonar um 45 prósent á ársgrundvelli, þegar ekki er búið að leiðrétta fyrir gengissveiflum. Þegar búið var að leiðrétta fyrir þeim nam hækkunin 32 prósentum. Hækkun á mánaðarlaunum hans er líklega yfir einni milljón króna þegar tekið er tillit til þess að launin voru hækkuð um mitt síðast ár og hækkunin tók því einungis til hálfs árs, ekki heils.
Í fréttaskýringum Kjarnans kom einnig fram að laun forstjóra Íslandspósts hefðu hækkað um 17,6 prósent milli ára, að bankastjóri Landsbankans hafi hækkað í launum um 21,7 prósent, að laun forstjóra Landsnets hafi hækkað um rúm tíu prósent og að komið hafi verið í veg fyrir að laun bankastjóra Íslandsbanka lækkuðu umtalsvert, líkt og þau áttu að gera samkvæmt ákvörðun kjararáðs.