1. Þjóðkirkja
Í stjórnarskrá Íslands segir að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og að ríkisvaldið eigi bæði að styðja hana og vernda. Auk þess er í gildi hið svokallaða kirkjujarðarsamkomulag frá árinu 1997, sem í felst að þjóðkirkjan afhenti ríkinu um 600 jarðir til eignar en á móti átti ríkið að greiða laun 138 presta og 18 starfsmanna Biskupsstofu.
2. Á fjárlögum
Í krafti þessa fær þjóðkirkja umtalsverða fjármuni úr ríkissjóði. Þaðan er til að mynda greitt framlag til Biskups Íslands, í Kirkjumálasjóð og Jöfnunarsjóð sókna. Samtals er áætlað að þessi upphæð verði 2.830 milljónir króna í ár. Til viðbótar fær þjóðkirkjan greidd sóknargjöld í samræmi við þann fjölda sem í henni er. Ætla má að sú upphæð verði um 1.750 milljónir króna í ár. Samtals mun rekstur þjóðkirkjunnar því kosta tæplega 4,6 milljarða króna í ár. Þá er ekki meðtalið rúmlega 1,1 milljarðs króna framlag til kirkjugarða.
3. Börn fylgdu lengi móður
Áratugum saman var skipulag mála hérlendis þannig að nýfædd börn voru ætið skráð í trúfélag móður. Það þurfti því sérstaklega að skrá sig úr trúfélagi í stað þess að skrá sig inn í það. Þessu var breytt árið 2013 og nú þurfa báðir foreldrar að tilheyra sama trú- og lífsskoðunarfélagi til að barnið sé skráð í félag, annars skráist barnið utan trúfélaga. Á sama tíma var ramminn utan um hvers kyns félög mættu skrá sig sem trú- og lífskoðunarfélög og þiggja sóknargjöld rýmkaður.
4. Nánast öll þjóðin var lengi vel í þjóðkirkjunni
Árið 1992 voru 92,2 prósent landsmanna skráðir í þjóðkirkjuna. Á árunum fyrir hrun fjölgaði alltaf lítillega í hópi þeirra sem skráðir voru í þjóðkirkjuna á milli ára þótt þeim Íslendingum sem fylgdu ríkistrúnni fækkaði alltaf hlutfallslega.
5. Undir 70 prósent í fyrsta sinn
Frá árinu 2009 hefur meðlimum þjóðkirkjunnar fækkað á hverju ári. Þeir voru 236.260 í byrjun árs 2017, eða 69,9 prósent mannfjöldans. Það var í fyrsta sinn síðan að mælingar hófust sem að fjöldi meðlima hennar fer undir 70 prósent mannfjöldans.
6. 111 þúsund utan þjóðkirkju
Þeir íslensku ríkisborgarar sem kusu að standa utan þjóðkirkjunnar voru 30.700 um síðustu aldarmót. Í dag eru 111.042 íbúar utan hennar, eða 32 prósent allra landsmanna. Fjöldi þeirra hefur því rúmlega þrefaldast á þessari öld. Á síðasta ári einu saman sögðu 3.738 manns sig úr þjóðkirkjunni, þar af 60 prósent á síðustu þremur mánuðum ársins. Það er næstmesti fjöldi sem hefur sagt sig úr kirkjunni á einu ári. Metið var sett á árinu 2010, þegar ásakanir um þöggun þjóðkirkjunnar yfir meintum kynferðisglæpum Ólafs Skúlasonar, fyrrverandi biskups, voru settar fram. Þá fækkaði um 4.242 í þjóðkirkjunni á einu ári.
7. Fjórfalt fleiri kaþólikkar
Á sama tíma hefur meðlimum annarra trúfélaga fjölgað mikið, en slík fá greidd sóknargjöld í samræmi við meðlimafjölda. Fjöldi þeirra sem skráðir eru í Kaþólsku kirkjuna á Íslandi hefur næstum fjórfaldast frá aldarmótum. Þá voru 3.857 manns skráðir í kirkjuna en í byrjun árs 2017 voru þeir orðnir 12.901. Frá byrjun árs 2010 hefur kaþólikkum á Íslandi fjölgað um yfir þrjú þúsund.
8. Miklu fleiri múslimar
Þeim sem skráðir eru í trúfélög múslima á Íslandi hefur einnig fjölgað mjög á undanförnum árum. Árið 1998 voru 78 manns skráðir í Félag múslima á Íslandi. Árið 2017 voru þeir orðnir 542 talsins en frá 2010 hafa verið tvö trúfélög múslima hérlendis. Hitt, Menningarsetur múslima, var með 406 meðlimi skráða í byrjun árs í fyrra. Fjöldi múslima sem skráðir eru í trúfélög hérlendis hefur því rúmlega tólffaldast á 19 árum.
9. Siðmennt og zúistar trekkja að
Siðmennt verið skráð lífsskoðunarfélag frá árinu 2013. Félagið er það eina sem berst beinlínis gegn sóknargjöldum og fyrir algjöru trúfrelsi. Meðlimir í Siðmennt voru í upphafi árs 2017 1.789 talsins. Zúistum hefur líka fjölgað mikið á örfáum árum. Þeir voru tveir árið 2014 en fjöldi þeirra rauk upp í rúmlega þrjú þúsund í byrjun árs 2016, eftir að hópur manna taldi sig hafa tekið yfir félagið og ætlaði að endurgreiða fólki þau sóknargjöld sem innheimt yrði vegna þeirra. Síðan stóð yfir áralöng barátta milli þess hóps og þeirra aðila sem áður höfðu farið með yfirráð í félagsskapnum. Sú barátta endaði með sigri hinna síðarnefndu. Zúistar fengu 32 milljónir króna greiddar úr ríkissjóð vega sóknargjalda á árinu 2016.
10. 22 þúsund utan trúfélaga
Fjöldi þeirra íbúa á Íslandi sem skráðir eru utan trú- og lífsskoðunarfélaga hefur rúmlega tvöfaldast frá því í byrjun árs 2010. Þá voru þeir sem voru skráðir utan slíkra félaga 10.336 talsins. Heildarfjöldi þeirra í dag er yfir 22 þúsund.