,,Við stígum sjömílnaskref og tökum djúpa skóflustungu“ sagði Mette Bock menningarmálaráðherra Danmerkur þegar hún kynnti fyrirhugaða útfærslu dönsku ríkisstjórnarinnar á samkomulagi um rekstrarumhverfi ljósvaka- og prentmiðla sl. fimmtudag. Ríkisstjórnin hafði áður greint frá því að framlög til Danska ríkisútvarpsins, DR, yrðu skorin niður um 20 prósent á næstu fimm árum. Ríkisstjórnin stefnir að því að selja 40 prósent af sjónvarpsstöðinni TV2, slíkt hefur verið reynt áður en þá var ,,lík í lestinni“ sem gerði þær hugmyndir að engu.
Þegar fyrirætlanir dönsku ríkisstjórnarinnar um tuttugu prósenta niðurskurð Danska ríkisútvarpsins, DR, voru kynntar fyrir rúmum tveim vikum kom það mörgum á óvart að það var Kristian Jensen fjármálaráðherra, ásamt einum þingmanni Danska Þjóðarflokksins, sem styður stjórnina í flestu, sem gerði fréttamönnum grein fyrir ákvörðun stjórnarinnar. Ekki menningarmálaráðherrann, ráðherra málaflokksins. Fyrir utan niðurskurðinn hjá DR var helsta frétt þess fundar að í stað afnotagjalds verður tekinn upp nefskattur. Fjármálaráðherrann sagði að breytingin þýddi jafnframt skattalækkun. Á áðurnefndum fundi kom fram að stjórnarflokkarnir, ásamt Danska Þjóðarflokknum hefðu orðið sammála um niðurskurðinn og ef stjórnarandstöðuflokkarnir vildu taka þátt í gerð fjölmiðlasamnings næstu fjögurra ára yrðu þeir að samþykkja niðurskurðinn hjá DR.
Þetta kölluðu stjórnarandstöðuflokkarnir ,,afarkosti“ og ekki er á þessari stundu ljóst hvort þeir taka þátt í gerð samningsins. Hvort þeir verða með eða ekki skiptir hinsvegar miklu máli. Ef þeir verða með verður ekki hróflað við samningunum næstu fjögur árin, frá árinu 2019, ef þeir verða ekki með en samningurinn samþykktur á þingi er núverandi stjórnarandstaða óbundin af samningnum. Gæti þess vegna tekið hann upp strax eftir næstu kosningar, sem verða væntanlega á næsta ári.
Samningurinn
Þess hafði verið beðið með nokkurri eftirvæntingu hverjar tillögur ríkisstjórnarinnar varðandi nýja rammasamninginn yrðu, aðrar en boðaður niðurskurður hjá DR. Og sl. fimmtudag voru tillögurnar kynntar, og að þessu sinni var það menningarmálaráðherrann, Mette Bock sem það gerði. Ráðherrann sagði að með þessum samningi væri stigið sjömílnaskref og tekin djúp skóflustunga. Nánar tiltekið að hér væri um að ræða mestu breytingar á dönsku fjölmiðlaumhverfi í áratugi.
1. 20 prósent niðurskurður hjá DR. Gert ráð fyrir að sjónvarpsrásunum fækki um tvær, en þær eru nú sex. Danski þjóðarflokkurinn setti sem skilyrði fyrir stuðningnum að barnaefni yrði ekki skorið niður.
2. Stjórnin vill selja 40 prósent hlut í TV2, en ríkið eigi áfram 60 prósent, fyrst um sinn. Ráðherrann sagði að stefna stjórnarinnar væri að selja TV2, eins og það leggur sig, en það yrði ekki gert strax. En TV2 er með ,,lík í lestinni“ eins og blaðamaður Berlingske kallaði það, stöðin á hugsanlega yfir höfði sér milljarða sekt frá ESB, vegna ríkisstyrks. Þetta er gamalt mál og tengist því að stöðin er að stærstum hluta rekin á auglýsingatekjum. Fyrir meira en áratug var ætlunin að selja TV2 en þá fóru þær hugmyndir upp í loft, vegna þessara sömu mála. Mette Bock sagði fréttamönnum að hugsanlegir kaupendur að TV2 yrðu losaðir undan öllum slíkum ábyrgðum. Vitað er að margir renna hýru auga til TV2, þar á meðal nokkrar stærstu fjölmiðlasamsteypur Danmerkur. Danski Þjóðarflokkurinn vill að starfsemi TV2 verði í auknum mæli flutt til Óðinsvéa, á Fjóni, þar sem höfuðstöðvarnar eru. Starfsemin hefur í auknum mæli flust til Kaupmannahafnar og því vill Danski Þjóðarflokkurinn breyta.
3. Svæðisstöðvar TV2 eiga árlega að spara 2 prósent næstu fimm árin. Þetta vekur ekki mikla hrifningu hjá Danska þjóðarflokknum, óljóst er um viðhorf annarra.
4. Stjórnin vill sexfalda það sem kallað er ,,almannaþjónustupotturinn“. Þetta er sjóður sem sjálfstæðir framleiðendur geta sótt um styrki úr. Miðað er við að viðfangsefni sem styrk hlýtur varði danskt þjóðlíf, sögu og menningu. Þessi ,,pottur“ verður 220 milljónir(3.6 milljarðar íslenskir) á ári.
5. Stjórnin hyggst bjóða út rekstur nýrrar sjónvarpsrásar, sem sinni menningarmálum og upplýsingamiðlum ásamt útvarpsrás sem sendi sígilda tónlist og menningarefni.
6. Netmiðlar verði undanþegnir virðisaukaskatti, eins og nú gildir um prentmiðla
7. Krafa um að DR og TV2 kaupi danskar kvikmyndir verður afnumin. Styrkur til kvikmyndagerðar verður aukinn.
8. Sérstakur sjóður verður myndaður, ætlaður til að styrkja svæðis- og vikufréttablöð, utan þéttbýliskjarna. Reglur varðandi þennan sjóð, og sama gildir um næsta lið hér fyrir neðan.
9. Styrkur til nýrra prent- og netmiðla verður aukinn frá því sem nú er.
10. Þegar starfsleyfi Radio24Syv rennur út í október 2019 verður starfsemin boðin út. Fjárveitingar til stöðvarinnar verða skornar niður um þriðjung. Þessi ákvörðun vekur mikla athygli því Radio24Syv, sem var sett á laggirnar árið 2010 og er talmálsrás, fréttir og umræðuþættir eru uppistaða dagskrárinnar. Sú ákvörðun að skera framlag til þessarar stöðvar niður hefur vakið undrun margra, sem og sú krafa Danska þjóðarflokksins að stöðin, sem nú er í Kaupmannahöfn, verði flutt til Vestur-Jótlands.
11. Öllum útvarpssendingum á FM bylgju verður hætt þegar helmingur hlustenda nýtir sér stafræna tækni við móttöku sendinga. Í síðasta lagi þó árið 2021.
Minni fjármunir en betra efni
Mette Bock ráðherra menningarmála sagði á fréttamannafundinum að DR myndi áfram gegna mikilvægu hlutverki í dönsku samfélagi. Tímarnir hefðu hinsvegar breyst og nú gætu margir aðrir framleitt og boðið uppá vandað efni, bæði í útvarpi og sjónvarpi. Hún teldi að niðurskurðurinn hjá DR yrði til að ,,skerpa fókusinn“ eins og hún komst að orði og DR myndi bjóða uppá vandaðra efni. Fréttamenn vildu fá útskýringar á því hvernig minni peningar þýddu betra efni.
Eins og vænta mátti hefur mikið verið fjallað um þetta mál í dönskum fjölmiðlum. Margir hafa lýst ákveðnum ótta við þessar breytingar, með minni umsvifum DR sjái erlendir aðilar sér leik á borði til að ná auknum ítökum á dönskum sjónvarpsmarkaði. Hvort sú verður raunin er ókomið í ljós.
Hvað nú?
Nú kemur fjölmiðlasamningurinn til kasta þingsins. Búast má við miklum átökum því vitað er að margir þingmenn eru ósáttir við margt í fyrirætlunum stjórnarinnar. Í sumum fjölmiðlanna hefur það verið rifjað upp að Mette Bock menningarmálaráðherra hafi um fjögurra ára skeið verið aðalritstjóri og framkvæmdastjóri dagblaðsins JydskeVestkysten. Ýmsar ákvarðanir hennar urðu þess valdandi að blaðið var nærri farið á hausinn og hún hrökklaðist úr starfinu. Skömmu síðar var hún ráðin til DR, sem dagskrárstjóri, sú ráðning vakti undrun margra. Eftir tæplega tveggja ára veru þar sagði hún upp og fékk tveggja milljóna starfslokasamning (tæpar 33 milljónir íslenskar). ,,Er þetta rétta manneskjan til að segja DR að hysja upp um sig?“ spyr dálkahöfundur Politiken og lætur lesendum eftir að svara.
Nýr samningur á að taka gildi 1. janúar á næsta ári.