Það er mikill uppgangur í Færeyjum. Fiskverð er hátt og þjóðarframleiðsla á mann hærri en í Danmörku. Landsmenn eru orðnir fleiri en fimmtíu þúsund og á síðasta ári fóru á fjórða hundrað þúsund manns um flugvöllinn í Vogum, fleiri en nokkru sinni fyrr. Þrátt fyrir þetta eru ákveðnar blikur á lofti hjá eyjaskeggjunum í Atlantshafi.
Færeyingar hafa bæði kynnst velgengni og erfiðleikum. Á tíunda áratug síðustu aldar áttu Færeyingar i miklum efnahagserfiðleikum. Aflasamdráttur vegna minnkandi kvóta, ásamt offjárfestingu, olli því að rekstur fjölmargra fyrirtækja komst í þrot og við það missti fjöldi fólks vinnuna, skatttekjur drógust saman. Erlendar skuldir voru gríðarlegar, íbúarnir höfðu lifað um efni fram. Færeyski þjóðarbúskapurinn var skyndilega á vonarvöl. Margir sáu enga framtíð á eyjunum og fluttu úr landi, ekki síst ungt fólk.
Færeyska landsstjórnin neyddist til að leita aðstoðar Dana. Danir brugðust vel við en settu ströng skilyrði fyrir lánveitingum sínum. Færeyingum sveið sárt að verða að beygja sig undir skilyrði Dana en áttu ekki annarra kosta völ.
Síðan þetta var hefur margt breyst. Núna er atvinnuleysi lítið sem ekkert, útflutningur á laxi hefur stóraukist, nam jafngildi 70 milljarða íslenskra króna í fyrra og afgangur á fjárlögum þessa árs áætlaður 401 milljón (6,6 milljarðar íslenskir). Þetta hljómar óneitanlega vel.
Hagfræðingar hrukka ennið
Þótt almenningur í Færeyjum sé ánægður með uppganginn og brosi breitt eru hagfræðingarnir ekki jafn brosmildir. Það gildir jafnt um heimamenn í Færeyjum og hagfræðinga Danska Seðlabankans. Lars Rhode er formaður stjórnar Seðlabankans, hann er jafnframt formaður sérstakrar áhættumatsnefndar (Det Systemiske Risikoråd) en nefndin var sett á laggirnar fyrir nokkrum árum og er ætlað að hafa auga með fjármálamarkaðnum og aðvara stjórnmálamennina ef, og þegar, bankarnir sýna ekki nægilega aðgæslu varðandi útlán og taka of mikla áhættu. Á síðasta ári hafði nefndin uppi aðvörunarorð vegna færeysku bankanna. Fyrir skömmu lagði ráðið til við danska atvinnumálaráðherrann að kröfur um eiginfjárauka færeysku bankanna yrðu auknar í þrjú prósent. Sambærileg tala danskra banka er hálft prósent. Ef ráðherrann fylgir þessum ábendingum þýðir það að möguleikar færeyskra banka til útlána takmarkast nokkuð og það dregur úr spennu í hagkerfinu. Danski Seðlabankinn varaði síðastliðið haust við ofþenslu í færeysku efnahagslífi. Bankinn benti á að líkt og áður hefði gerst í uppsveiflum hefði opinberi geirinn ekki staðið á bremsunni og það hefði aukið neysluna. „Þessi mikla neysla er ekki til þess fallið að skapa festu í efnahagslífinu, þetta er endurtekning þess sem áður hefur gerst“. Það er með öðrum orðum álit Danska Seðlabankans að færeyskir stjórnmálamenn hafi lítt eða ekki lært af reynslunni.
Sveitarfélögin eyða alltof miklu
Formaður færeyska efnahagsráðsins sagði í viðtali við danskt dagblað, fyrir nokkrum dögum að færeysk sveitarfélög eyði allt of miklu fé til margs konar framkvæmda. Það spenni upp launin í byggingaiðnaðinum og víðar „það sé bensín á eldinn“. Í Færeyjum eru 30 sveitarfélög sem hafa mjög víðtæka sjálfsstjórn á mörgum sviðum. „Það er engin leið að miðstýra fjármálum sveitarfélaganna“ sagði áðurnefndur formaður. „Í dag eru þau alltof mörg og þar reyna allir að ota sínum tota.“
Danski Seðlabankinn og færeyska efnahagsráðið eru sammála um að æskilegt væri að landstjórnin myndi hægja á eða fresta framkvæmdum. Það hefði umtalsverð áhrif og drægi úr þenslunni.
Allt veltur á fiskinum, Rússum og Bandaríkjamönnum
Níutíu og fimm prósent útflutningstekna Færeyinga koma frá fiski og fiskafurðum. Fyrir utan síld og makríl er laxinn það sem mestu skiptir í þessu samhengi. Í þessari einhæfni felst mikil áhætta. Ekki bætir úr skák að meira en helmingur alls útflutnings fer til tveggja landa, Rússlands og Bandaríkjanna. Rússar kaupa næstum þriðjung alls útflutnings eyjaskeggja og Bandaríkin um það bil fimmtung, einkum lax. Færeyjar eru undanskildar þeim viðskiptaþvingunum sem Rússar beita gegn Evrópusambandinu. Og hvað varðar skyndilegan áhuga Bandaríkjamanna á færeyskum laxi tengist hann því að sjúkdómar hafa herjað á laxastofna í Chile. Þeir stofnar eru hægt og rólega að ná sér á strik og þá er ekki víst að áhugi Bandaríkjamanna á færeyska laxinum verði jafnmikill og verið hefur um skeið. Færeyskir laxastofnar geta líka sýkst. Það eru sem sé of mörg egg í of fáum körfum.
Þeim gömlu fjölgar
Aldurssamsetning færeysku þjóðarinnar mun breytast verulega á næstu áratugum. Nú eru um það bil 6 þúsund Færeyingar eldri en sjötugir. Eftir fjörutíu ár verður þessi tala 11 þúsund. Fólki á vinnualdri, frá 16 ára til 66 ára mun jafnframt fækka.
Þótt nú um stundir gangi allt vel í Færeyjum er það ekki að ástæðulausu að hagfræðingarnir hrukka ennið. Uppgangurinn í efnahagslífinu getur fengið skjótan endi, útflutningstekjurnar hvíla á alltof fáum stoðum og loks þýðir breytt aldurssamsetning færri vinnandi hendur og fleiri eldri borgara.