Á heitum degi í hjarta kalda stríðsins
Auður Jónsdóttir og Bára Huld Beck röltu á heitum sunnudegi um sögufrægt svæði í Berlín, Tempelhof-flugvöll og nágrenni, áður hjarta kalda stríðsins en nú hjarta Berlínar-búa í sumarskapi. Við gömlu flugstöðvarbygginguna sem eitt sinn tilheyrði nasistum má nú finna hjarta framandi menningar slá. Á allra síðustu árum hafa þúsundir flóttafólks m.a. dvalið í henni.
Berlín getur verið syfjuleg við fyrstu sýn á sunnudögum. En í notalegu veðri fyllast almenningsgarðar og leiksvæði borgaranna af lífi. Borgin státar af mörgum leikflæmum fyrir almenning, enda mikið sprengd í stríðinu. Þessi svæði eru sum hver fútúrísk að sjá, nýtt í bland við leifar af gömlum járnbrautarteinum eða húsarústum – og sum hver borgarbúum ákaflega hjartfólgin.
Þá ekki síst gamli Tempelhof-flugvöllurinn sem var nýttur sem alþjóðaflugvöllur þar til fyrir örfáum árum síðan en er nú flennistórt leikrými í miðju borgarinnar þar sem fólk hleypur, leikur sér, grillar, fleytir flugdrekum, hjólar og þeysir um á línuskautum.
Fjárfestar ætluðu að nota hluta vallarins undir byggingar, m.a. var talað um lúxusíbúðir, en úr því varð mikið pólitískt þref í vinsælli borg þar sem húsnæðisvandi er farinn að gera vart við sig og endað með ástríðufullri atkvæðagreiðslu borgarbúa sem vildu margir hafa svæðið ósnortið, enda slíkt víðáttusvæði stórborgarbúum kært.
Við einn enda vallarins er gríðarstór bygging sem tilheyrði á sínum tíma nasistum, varð síðar flugstöðvarbygging og hýsti nú síðast þúsundir flóttamanna frá Sýrlandi og fleiri löndum en þar geta jafnframt listamenn, fyrirtæki og verktakar leigt sér vinnuaðstöðu, auk þess sem þar hafa bæði verið leikhús og kabarett. Þetta verður að teljast nokkuð táknrænt að þessi gamla nasistabygging skuli hafa gegnt þessu hlutverki, á svæði sem var vægast sagt umdeilt í borgarskipulagsmálum.
Flugvöllurinn varð þó hvað frægastur þegar hann gegndi hlutverki loftbrúar fyrir eyjuna Vestur-Berlín, umkringda rússneskum yfirráðum í Kalda stríðinu, en þegar verst lét þurftu bandamenn, meðvitaðir um mikilvægi vestursins, að flytja bæði vatn og brýnustu nauðsynjar til Vestur-Þjóðverja og lentu þá flugvélar á allt að þriggja mínútna fresti þar, þegar verst lét (segir sagan) á níutíu sekúndna fresti. Kannski ekki skrýtið að Tempelhof-flugvöllur hafi verið kallaður hjarta Kalda stríðsins.
Við hlið Tempelhof-vallar er svo Hasenheide-garðurinn; feikistór, frekar villtur almenningsgarður þar sem dópdílerar brosa til barnafjölskyldna, nakið fólk breiðir úr sér á nektarsólbaðsspotta, einhverjir leika mínígólf, gamlir tyrkneskir karlar sötra te með teppi á hnjánum og stórfjölskyldur grilla. Þar er líka útibíó, gamaldags veitingasala, tveir leikvellir og húsdýragarður.
Fyrir neðan Hasenheide-garð endar hið víðfeðma Kreuzberg-hverfi. Við tekur Kreuz-Kölln og þar byrjar NeuKölln; gamalt verkamannahverfi hverfi fullt af innflytjendum, fjölmörgum af tyrkneskum og arabískum uppruna, en líka frá óteljandi löndum. Þangað sækja jafnframt námsmenn, listamenn og allir sem hafa gaman af mannlífi. Á þessum myndum má sjá líf sunnudagsstemninguna á þessu sögufræga svæði.
Við fyrstu sýn virðist þetta vera venjulegur staður þar sem fólk safnast saman en þegar betur er að gáð má sjá leifar af gömlum tíma. Að rekast á gamla lestarteina í miðjum garði vekur upp margar spurningar. Eru þetta teinar sem notaðir voru fyrr á síðustu öld, í stríðinu eða hvað? Við fáum engin svör en það gerir þá enn forvitnilegri fyrir vikið.
Á góðum degi má heyra tónlist og góðan trumbuslátt. á Tempelhof . Þarna var trommað fyrir maraþonhlaupara til þess að hvetja þá áfram. Ryþminn sest í blóðið og fylgir okkur það sem eftir lifir dags.
Hér er fýrað upp í grillinu. Oft má sjá tyrkneskar og arabískar stórfjölskyldur grilla og hita te í kötlum meðan börnin leika.
Annar greinarhöfundur sá þátt á BBC þess efnis að bág lífskjör fylgi því að vera vörubílstjóri í ýmsum Evrópulöndum. En þessir herramenn kunna að lifa lífinu og sögðu okkur að þeir væru að með sinn eigin tyrkneska veitingastað á trukknum. Við götuna á milli Hasenheide-garðs og Tempelhof-vallar má oft sjá runu af kyrrstæðum vörubílum.
Í góðu veðri allan ársins hring er þétt setið við kaffisöluna í Hasenheide-garði og fólk fær sér ýmist kaffi eða bjór og krakkarnir ís eða pylsu.
Fátt er eins draugalegt eins og tómt tívolí en á sumrin fara flökkutívolí á milli hverfa í Berlín og misjafnt eftir hverfum hvenær þau koma . Í byrjun maí er alltaf tívolí í Hasenheide (Héraheiðinni), garðinum við hlið Tempelhof, enda mikið er um dýrðir og líflegar óeirðir þann 1. maí á þessu svæði. Í augnablikinu er engin starfsemi og tívolíið bíður eftir að stuðið hefjist.
Fáar borgir státa af jafn mörgum fallegum leikvöllum eins og Berlín en þá má nánast finna á hverju götuhorni. Þeir eru stílaðir inn á misjafnan aldur og eru flestir með einhvers konar þema. Þessi virðist vera innblásinn af tyrkneskri soldánahöll. Nánast allir eru þaktir með mjúkum hvítum sandi fyrir litlar táslur að leika sér í. Eitt sinn á þessum leikvelli varð annar greinarhöfundur vitni að þegar nokkrir blóðheitir fjölskylduferðir misstu sig í slagsmál og kom fótboltalið, sem var að æfa í nágrenninu, og stillti til friðar.
„Af hverju drápuð þið mig?“ spyr þessi látni póní-hestur að handan. Einhver meðvitaður starfsmaður húsdýragarðsins í Hasenheide-garði hefur hengt þetta upp til að hreyfa við meðfæddu samviskubiti Þjóðverja.
Hundar eru einstaklega vel upp aldir í Berlín. Stundum má sjá þá bíða óbundna fyrir utan matvörubúðir eftir eiganda sínum eða hlaupa á undan hjólreiðamönnum.
Það er hörkuvinna að starfa á kebabstað: Í Berlín – þessu Rómaveldi nútímans – er víða unnið frá morgni til kvölds fyrir lágt kaup. Tyrkir hafa gert hið safaríka Berlínar-kebab frægt en í Berlín eru gamalgrónar Tyrkjabyggðir í gömlu Vestur-Berínarhverfunum. Þegar var Vestur-Berlín var að braggast veitti ekki af fleiri vinnandi höndum...
Lesa meira
-
2. janúar 2023Höfundur Matador þáttanna látin – „Maður er ekkert merkilegur af því maður er gamall“
-
2. janúar 2023„Stjórna erlendar streymisveitur bráðum innlendri kvikmyndaframleiðslu?“
-
24. desember 2022Ólöf Arnalds safnar fyrir útgáfu fimmtu breiðskífu sinnar
-
20. desember 2022Hundrað ára afmæli Cafe Fodkold
-
18. október 2022Þekkt en þó óþekkt
-
9. október 2022Segja niðurskurð á framlögum færa fagsjóði listgreina á sama stað og þeir voru 2014
-
30. september 2022Staða menningarmála: Fornleifar
-
23. ágúst 2022Endurkoma smurbrauðsins
-
17. ágúst 2022Stefnt að því að sameina þrjá tónlistarsjóði í einn og skilgreina Sinfó sem þjóðareign
-
16. ágúst 2022Ævintýrið um Carmen rúllurnar