Stjórnarmenn í lífeyrissjóðum munu einungis geta setið í átta ár, þeir mega ekki sitja í stjórn, eiga eignarhlut eða stunda viðskipti fyrir eigin reikning í fyrirtækjum sem lífeyrissjóðurinn á hlut í og ársfundur lífeyrissjóða mun héðan í frá hafa æðsta vald í málefnum þeirra.
Þetta eru lykilbreytingar í nýju samkomulagi um stjórnkerfi lífeyrissjóða, milli Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og VR annars vegar og samtök vinnuveitenda hins vegar sem undirritað var í gær. Samkomulagið felur því í sér umtalsverðar breytingar á því fyrirkomulagi sem verið hefur við val á stjórnarmönnum í stjórnir lífeyrissjóða. Samkomulagið kemur í stað eldri samninga frá árunum 1995 og 1996.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, var einn þeirra sem undirrituðu samkomulagið í gær. Hann segir það vera jákvæða breytingu í átt að auknu sjóðfélagalýðræði. „Það verður meiri fagmennska við val og kjör á stjórnarmönnum í stjórnir lífeyrissjóða.“
Samningurinn nær til Birtu lífeyrissjóðs, Festu lífeyrissjóðs, Gildis, Lífeyrissjóðs Rangæinga, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja og Stapa lífeyrissjóðs.
Hægt er að lesa samkomulagið í heild sinni hér.
Komið í veg fyrir hagsmunaárekstra
Líkt og áður sagði er um umtalsverðar breytingar að ræða. Viðmælendur Kjarnans segja að um ákveðinn millileik sé að ræða. Uppi hafi verið kröfur um stóraukið sjóðsfélagalýðræði sem myndi losa tök ASÍ og Samtaka atvinnulífsins (SA) á lífeyrissjóðakerfinu. Til þess að bregðast við þeirri stöðu hafi verið ákveðið að koma til móts við hluta þeirra krafna í þróun á stjórnarháttum.
Helstu breytingarnar eru þær að nú má stjórnarmaður einungis sitja í stjórn lífeyrissjóðs í átta ár en mátti áður sitja eins lengi og hann vildi. Þá mega stjórnarmenn eða starfsmenn lífeyrissjóða ekki lengur sitja í stjórnum fyrirtækja sem sjóðirnir eiga í í umboði hans og mun skýrari reglur eru settar til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Þar skiptir mestu máli að stjórnarmenn mega ekki sitja í stjórn, eiga eignarhlut eða stunda viðskipti fyrir eigin reikning í fyrirtækjum sem lífeyrissjóðurinn á hlut í nema um óverulegar fjárhæðir sé að ræða. Í samkomulaginu segir enn fremur að „eigi stjórnarmaður verulegan hlut í fyrirtæki á skráðum verðbréfamarkaði við upphaf stjórnarsetu ber honum að selja hlutinn, koma honum í eignastýringu hjá fjármálafyrirtæki eða eiga ekki viðskipti með viðkomandi hlutabréf á meðan hann á sæti í stjórn sjóðsins.“
Þá mun ársfundur lífeyrissjóða hafa æðsta vald í málefnum þeirra.
Sérstakt fulltrúaráð skipað
Auk þess felst í samkomulaginu að skipað verður sérstakt fulltrúaráð sem verður að jöfnu skipað fulltrúum stéttarfélaga sem aðild eiga að viðkomandi lífeyrissjóði og fulltrúum atvinnurekenda.
Í samkomulaginu segir að fulltrúar „í fulltrúaráðinu skulu koma úr hópi sjóðfélaga eða stjórnenda fyrirtækja sem eru greiðendur til sjóðsins. Stéttarfélög sem aðild eiga að lífeyrissjóði skulu gera með sér formlegt samkomulag um val og skiptingu fulltrúa sinna í fulltrúaráðið. Fulltrúar samtaka atvinnurekenda skulu valdir úr hópi stærstu launagreiðenda til sjóðsins eða hagsmunasamtökum atvinnurekenda. Um fjölda fulltrúa í fulltrúaráði skal að öðru leyti kveða á um í samþykktum viðkomandi lífeyrissjóðs.“
Þá munu stjórnarmenn og framkvæmdastjórar lífeyrissjóða, sem falla undir gildissvið samningsins auk fulltrúa frá ASÍ og SA, mynda samráðshóp um lífeyrismál. „Hópurinn hittist að jafnaði tvisvar á ári til að ræða stöðu og þróun lífeyriskerfisins, málefni lífeyrissjóðanna og framvindu á grundvelli kjarasamnings þessa. ASÍ og SA bera ábyrgð á undirbúningi og boðun fundanna til skiptis.“
Arfleið Helga Magnússonar
Að stóru leyti er um sambærilegar breytingar að ræða og VR réðst í gagnvart þeim stjórnarmönnum sem sátu í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna fyrir rúmum tveimur árum. Þá ályktaði VR meðal annars að óásættanlegt væri að stjórnarmenn í sjóðnum ættu hlut í fyrirtkjum sem sjóðurinn fjárfesti í. Samtök iðnaðarins höfðu áður sett starfsreglur hjá sér að fulltrúi þeirra í sjóðnum mætti einungis sitja í sex ár.
Á þeim tíma hverfðist umræðan mikið um persónu Helga Magnússonar, þá varaformanns Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og fyrrverandi stjórnarformanns sjóðsins sem á sama tíma var umsvifamikill fjárfestir í íslensku viðskiptalífi. Skýrsla sem Talnakönnun vann fyrir Samtök sparifjáreigenda haustið 2016 sýndi að Helgi ætti eignarhluti í Marel og N1 og að markaðsvirði þeirra væri nokkur hundruð milljónir króna. Hann sat í stjórnum beggja fyrirtækja, samhliða stjórnarsetu í Lífeyrissjóði verzlunarmanna, sem var hluthafi í þeim báðum.
Helgi bauð sig ekki fram til áframhaldandi setu í stjórn sjóðsins vorið 2016, eftir að hafa setið í henni í níu ár. Margir viðmælenda Kjarnans nefndu Helga að fyrra bragði sem dæmi um einstakling sem gæti ekki setið í stjórn t.d. Lífeyrissjóðs verzlunarmanna eftir þær breytingar sem gerðar voru í gær.