Árið 1868, þegar þeir Theodor Wessel og Emil Vett opnuðu verslun í Árósum undir heitinu Emil Vett & Co hefur þeim líklega ekki dottið í hug að það væri upphafið á rekstri einnar þekktustu verslunar á Norðurlöndum. Emil Vett & Co var vefnaðarvöruverslun, sem Danir kölluðu þá hvidevarer.
Verslunin í Árósum naut frá upphafi vinsælda og 1870, tveimur árum eftir stofnun fyrirtækisins, opnuðu þeir Wessel og Vett útibú í Álaborg. Sama ár settu þeir á laggirnar heildverslun á Østergade (hluti af því sem síðar fékk nafnið Strøget, Strikið). Árið 1871 var verslunin í Árósum flutt í stærra húsnæði og sama ár flutti heildverslunin í Kaupmannahöfn í hluta Hotel du Nord við Kóngsins Nýjatorg, og þar var jafnframt opnuð smásöluverslun. Verslunin við Kóngsins Nýjatorg fékk nafnið „De forenede Hvidevare Forretninger ved Th. Wessel & Co“. Viðskiptin gengu vel og vöruúrvalið var ekki einskorðað við vefnaðarvörur, í nýju búðinni voru jafnframt seld föt og húsgögn.
Magasin du Nord
Eins og áður sagði var „rífandi gangur“ í viðskiptunum og árið 1879 höfðu tvímenningarnir opnað fjölda útibúa víða um land, og breyttu jafnframt nafninu, fyrirtækið og allar verslanirnar fengu nú nafnið „Magasin du Nord“. Eigendurnir sögðu að þeim þætti við hæfi að tengja nafnið hinu þekkta hóteli í miðborg Kaupmannahafnar, Hotel du Nord. Þeir leigðu jafnframt æ stærri hlut hótelsins og árið 1890 höfðu þeir keypt allt húsið og jafnframt tvö hús við hliðina.
Kaupmennirnir hugsuðu stórt og á árunum 1893 – 95 voru gamla hótelið og húsin við hliðina rifin og á lóðinni reist stórhýsið sem enn stendur og snýr framhliðinni að Konunglega leikhúsinu við torgið. Húsið er í frönskum ný-endurreisnarstíl, sama stíl og Konunglega leikhúsið sem er í næsta nágrenni. Athygli vekur að á framhlið verslunarhússins hefur frá upphafi staðið skrifað, gylltum stöfum, „Hotel du Nord“, það var gert í virðingarskyni við gamla hótelið sem á sínum tíma þótti afar glæsilegt. Arkitektar hússins voru Henri Glæsel og Albert Jensen, báðir þekktir á sínu sviði og byggingarmeistari var Olaus Mynster, sem bæði var lærður arkitekt og múrari, sömuleiðis þekktur og virtur fagmaður.
Magasin du Nord um allt land
Á síðasta áratug 19. aldarinnar og fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu óx veldi Magasin du Nord hratt. Verslanir með Magasin nafninu spruttu upp en flestar þeirra voru í eigu einstaklinga eða fyrirtækja sem fengu að nota nafnið og selja sömu vörur. Árið 1892 voru 50 verslanir með Magasin du Nord nafninu í Danmörku, 1906 voru þær 98 og á þriðja áratug síðustu aldar voru 170 Magasin du Nord verslanir í landinu, flestar litlar. 1911 var opnuð verslun í Malmö í Svíþjóð, hún bar þó ekki Magasin du Nord nafnið, hét Th. Wessel & Vett. Á árunum eftir 1950 ákvað stjórn Magasin du Nord að reka fáar, en stórar verslanir. Í dag eru Magasin verslanirnar sex talsins. Í Kaupmannahöfn er, auk verslunarinnar við Kóngsins Nýjatorg, minni verslun í Fields á Amager, í Lyngby er stór Magasin verslun, ein í Rødovre, í Óðinsvéum á Fjóni er ein verslun og sömuleiðis í Árósum á Jótlandi, þar sem fyrirtækið var stofnað. Á næstunni verður ein Magasin verslun til viðbótar opnuð, í Álaborg. Auk þess netverslun þar sem viðskiptin aukast jafnt og þétt. Af stofnendum Magasin du Nord, þeim Wessel og Vett er það að segja að þeir drógu sig að mestu út úr rekstrinum um aldamótin 1900, Wessel lést árið 1905 og Vett sex árum síðar.
Ekki fyrsta stórverslunin
Magasin du Nord var ekki fyrsta stórverslunin sem Danir kynntust. Í Kaupmannahöfn voru Fonnesbech (1847 – 1970), Crome & Goldschmidt (1860 – 1971). Síðar komu Messen (1875 – 1972) Illum (1891 -) og Daells Varehus (1910 – 1999) og fleiri mætti nefna. Þessar verslanir, að Illum undantekinni, sem er í eigu ítalsks fyrirtækis, heyra sögunni til.
Kaupin á Illum og erfiðleikaáratugir
Árið 1991 keypti Magasin erkikeppinautinn Illum. Ekki voru þau kaup ferð til fjár og síðasti áratugur síðustu aldar reyndist Magasin þungur í skauti. Magasin seldi 80% af Illum árið 2003 en ári síðar keypti Baugur Group verslunina Magasin og eignaðist þá jafnframt 20% hlut í Illum.
Rekstur Magasin var sömuleiðis erfiður á fyrstu árum þessarar aldar en smám saman rétti fyrirtækið úr kútnum. Saga Baugs Group verður ekki rakin hér en fyrirtækið komst í þrot árið 2009 og þá keypti breska fyrirtækið Debenhams Magasin og hefur rekið það síðan.
Sífelld endurnýjun og breytingar
Stundum er haft á orði að stöðnun og kyrrstaða beri dauðann með sér. Þetta á ekki síst við um verslanir, þar skiptir öllu máli að hafa í boði, á sanngjörnu verði, vörur sem viðskiptavinirnir vilja, bjóða góða þjónustu, koma með nýjungar, stunda öfluga og árangursríka auglýsinga- og kynningarstarfsemi, vera „á tánum“ eins og það er kallað. Líka er mikilvægt að innréttingar og fyrirkomulag breytist, slíkt þarf að gerast í litlum skrefum en þó nógu stórum til þess að viðskiptavinirnir skynji að ekki ríki stöðnun og allt sé „eins og það hefur alltaf verið“. Reyna að höfða til allra aldurshópa, óháð stétt og stöðu, láta viðskiptavinina finna að þeir séu velkomnir. Alla þessa þætti hefur Magasin lagt rækt við. Eitt verður þó að nefna sem ekki hefur í áratugi þótt ástæða til að breyta, það er firmamerkið. Núverandi merki var tekið í notkun árið 1954 og þá var nafn verslunarinnar líka stytt og hún hefur síðan verið nefnd Magasin. Í litlu Magasin sögusafni sem starfrækt er í sömu byggingu og verslunin við Kóngsins Nýjatorg má meðal annars sjá fjöldann allan af tímaritum og vörulistum sem Magasin hefur gefið út í áranna rás. Þar má sjá það nýjasta sem verslunin bauð upp á, á hverjum tíma. Þessi rit bera með sér að auglýsingunum hefur einkum verið beint að kvenþjóðinni, sem alla tíð hefur verið stærsti kaupendahópurinn og konur eru 82% þeirra sem leggja leið sína í Magasin. Af einstökum vöruflokkum hefur fatnaður alla tíð, að fyrstu árunum undanteknum, vegið þyngst í sölunni en snyrtivörur eru sömuleiðis veigamikill þáttur. Enn fremur selur Magasin skótau, búsáhöld, leirtau, rúmfatnað, raftæki og heimilismuni margs konar.
Eins og áður var nefnt hefur verslun á netinu aukist jafnt og þétt og er nú rúmlega fjórðungur veltu Magasin.
Á síðasta ári komu rúmlega 20 milljónir viðskiptavina í verslanir Magasin. Flestir komu í Magasin í Kaupmannahöfn, um það bil 7.5 milljónir og næstflestir í Árósum, tæplega 4 milljónir. Starfsmenn eru um 3 þúsund.
„Den gamle dame“ í fullu fjöri
Síðustu ár hefur reksturinn gengið vel en á næstu árum verða umtalsverðar breytingar á næsta nágrenni verslunarinnar í Kaupmannahöfn, sem kalla má flaggskip fyrirtækisins. Breytingunum er ætlað að styrkja svæðið sem verslunar- og þjónustumiðju miðborgarinnar og Magasin ætlar sér bita af þeirri köku, einsog forstjórinn orðaði það í viðtali. Og, eins og áður sagði verður á þessu ári opnuð ný Magasin verslun í Álaborg Ekkert bendir því til annars en „Den gamle dame“ eins og Magasin er stundum kallað muni hér eftir sem hingað til soga til sín viðskiptavini í þúsundatali á degi hverjum.
Að lokum má geta þess að í Kaupmannahöfn var 150 ára afmælinu fagnað með útiskemmtun á Kóngsins Nýjatorgi 14. apríl síðastliðinn en 8. maí verður sérstök Magasin afmælishátíð í Árósum þar sem saga fyrirtækisins hófst.