Upplýsingar um hagsmunaskráningu aðstoðarmanna ráðherra hafa verið gerðar aðgengilegar á heimasíðum ráðuneytanna.
Þann 8. maí ákvað ríkisstjórnin að taka upp hagsmunaskráningu fyrir ráðuneytisstjóra og aðstoðarmenn ráðherra í kjölfar nýlegrar skýrslu GRECO þar sem athygli íslenskra stjórnvalda var vakin á því að ástæða kunni að vera til að láta hagsmunaskráningu ná til þessara starfsmanna með hliðsjón af eðli starfanna og nálægð við vald ráðherra.
Kjarninn hefur tekið saman það sem markvert er í hagsmunaskráningu aðstoðarmannanna.
Birgir Jakobsson
aðstoðarmaður Svandísar Svavarsdóttur og fyrrverandi landlæknir, situr í stjórn norsks/sænsks fyrirtækis, FlowIt AB, sem hann segir vera nýtt ráðgjafyrirtæki sem veitir ráðgjöf um umbótastarf samkvæmt LEAN hugmyndafræðinni í mest opinberum fyrirtækjum í Noregi. Starfsemi hafi ekki hafist í Svíþjóð. Hann mun ekki þiggja laun fyrir þessa stjórnarsetu. Birgir gefur ekki upp neinar frekari upplýsingar, það er hann er ekki skráður fyrir neinum eignum (húsnæði til eigin nota er þar undanskilið), gegnir engum trúnaðarstörfum og sinnir engri annarri launaðri starfsemi.
---
Ólafur Teitur Guðnason
aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra gefur upp nokkur launuð verkefni sem hann sinnir með störfum sínum í ráðuneytinu. Fyrst ber að nefna starf hans sem plötusnúður á Sálfræðiþingi 9. febrúar 2018. Verkkaupi var Sálfræðingafélag Íslands. Þá sneri hann einnig snældum á 30 ára útskriftarafmæli 1988-útskriftarárgangs Hólabrekkuskóla, 5. maí 2018. Þar var verkkaupi undirbúningsnefnd útskriftarafmælis. Ólafur tekur fram að hann hafi afþakkað laun fyrir formennsku í stjórn Átaks til atvinnusköpunar, sem heyrir undir ráðuneytið og er skipuð af ráðherra.
---
Sóley Ragnarsdóttir
aðstoðarmaður Ásmundar Einars Daðasonar félags- og jafnréttismálaráðherra, var samkvæmt hagsmunaskráningunni varamaður í stjórn félagsins MPI ehf. í upphafi árs en hefur að sögn sagt sig úr þeirri stöðu. Engin gögn um úrsögn hennar úr stjórn fyrirtækisins virðast hafa borist fyrirtækjaskrá. Félagið er í eigu fyrrverandi sambýlismanns hennar sem gegndi sömu stöðu og hún sem aðstoðarmaður ráðherra, Matthíasar Imsland og leigir út íbúðarhúsnæði. DV greindi frá því í síðustu viku að félagið hefði fjárfest í íbúðum í Vestmannaeyjum fyrir 130 milljónir til útleigu.
---
Arnar Þór Sævarsson
hinn aðstoðarmaður Ásmundar Einars gefur upp þrjár fasteignir, sem ekki er þá til hans eigin nota. Eina í Álftamýri í Reykjavík, eina fastein við Víðimel í Vesturbæ Reykjavíkur og síðan Skeggjastaði á Hvammstanga. Arnar Þór er sjálfur skráður með lögheimili á Blönduósi og var áður sveitarstjóri þar.
---
Svanhildur Hólm Valsdóttir
aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, situr í stjórn Íslandspósts þar sem hún er varaformaður. Laun stjórnarmanna í Íslandspósti voru hækkuð milli ára og samkvæmt nýjasta ársreikningi félagsins sem birtur var í apríl fóru greiðslur til stjórnarmanna úr níu milljónum króna í tíu milljónir. Þau eru ekki sunurliðuð sérstaklega í ársreikningnum. Um er að ræða 11 prósenta hækkun milli ára. Þá á Svanhildur fasteign að Goðabraut á Dalvík.
---
Hafþór Eide Hafþórsson
aðstoðarmaður Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra, er varamaður í stjórn Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga. Samkvæmt hagmsunaskráningunni er greitt fyrir setna fundi sem aðalmaður en Hafþór hefur engan fund setið sem aðalmaður og hugðist ekki gefa kost á sér til endurkjörs á aðalfundi sem fram fór í fyrradag.
---
Ágúst Bjarni Garðarsson
annar tveggja aðstoðarmanna Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formanns Framsóknarflokksins, er oddviti á lista Framsóknar og óháðra fyrir sveitarstjórnarkosningar í Hafnarfirði fyrir kosningarnar sem fram fara nú eftir rúma viku þann 26. maí 2018. Gefa ber upp upplýsingar um trúnaðarstörf fyrir hagsmunasamtök, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félög óháð því hvort störfin séu launuð eða ekki.
---
Ingveldur Sæmundsdóttir
hinn aðstoðarmaður Sigurðar In ga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formanns Framsóknarflokksins, er samkvæmt hagsmunaskráningunni fulltrúi í stjórn Íslenskra orkurannsókna, Ísor. Auk þess er Ingveldur í varastjórn Isavia ohf. Samkvæmt ákvörðun aðalfundar Isavia fá stjórnarmenn í félaginu fá 195 þúsund fyrir hvern fund, en þóknunin var hækkuð um 15 þúsund á fundinum og var áður 180 þúsund á fund. Varamenn fá 80 þúsund krónur fyrir hvern setinn fund.
---
Borgar Þór Einarsson
aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríksráðherra, á helmingseignarhlut við Kaplaskjól í Vesturbæ Reykjavíkur og helmingseignarhlut í sumarhúsi í Ölveri. Þá á hann félagið Optimus ehf. en tilgangur þess félags er samkvæmt fyrirtækja skrá útgáfustarfsemi, gagnasöfnun, sala og dreifing á rafrænum upplýsingum. Dreifingog sala auglýsinga og markaðsefnis. Hugbúnaðargerð. Dreifing og sala á þjónustu á hugbúnaðarlausnum. Sala og rekstur vefkerfa og hýsingar. Fjárfestingar í hlutabréfum og verðbréfum ("debenture") hvort heldur er á Íslandi eða erlendis. Rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Eignir félagsins voru 932 þúsund krónur í lok árs 2016.
---
Diljá Mist Einarsdóttir
hinn aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórssonar, utanríkisráðherra, gefur upp í sinni hagsmunaskráningu stundarkennslu við Verzlunarskóla Íslands sem hún mun sinna fram í lok maí á þessu ári. Að auki er Diljá Mist er 20 prósenta eigandi á Endurskoðunar/lögmannsstofunni sf.
---
Einar Hannesson
aðstoðarmaður Sigríðar Ásthildar Andersen dómsmálaráðherra, er í stjórn eigin félags sem heitir Einar Hannesson slf. Tilgangur félagsins er samkvæmt Fyrirtækjaskrá viðskiptaráðgjöf og önnur rekstrarráðgjöf.
---
Nokkrir ráðuneytisstjórar hafa einnig opinberað hagsmunaskráningu sína. Þar á meðal Kristján Skarphéðinsson ráðuneytisstjóri atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Hann gefur upp veiðirétt þar sem hann hefur árlegar tekjur að fjárhæð 121 þúsund krónur. Hann er eigandi að 29 prósenta hlu í jörðinni Eiríksbakka Biskupstungum.
Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins hefur einnig birt sína hagsmunaskráningu en þar er ekkert tiltekið sem við á. Hið sama á við um Sigríði Auði Arnardóttur ráðuneytisstjóra umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu er formaður stjórnar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda og hefur verið frá árinu 2010. Núverandi skipunartími Guðmundar í því starfi er til ársins 2020. Þá er hann skráður eigandi að þremur fasteignum. Tveimur samstæðum byggingarlóðum að Lautarvegi í Reykjavík, 50 prósenta eignarhlut í sumarhúsi á Selhellu við Mjóafjörð í Fjarðabyggð. Auk þess Sumarhús og lóð við Hraunteig í Borgarbyggð. Guðmundur hyggst að endingu taka þátt í stofnun Hollvinasamtaka Gamla barnaskólans á Eskifirði og í starfi þeirra ef að vonum lætur.
Ráðuneytisstjórar annarra ráðuneyta hafa ekki gefið upp hagsmunaskráningu sína.
Tilraunaverkefni
Í frétt forsætisráðuneytisins um hagsmunaskráninguna segir að fyrst um sinn verði hagsmunaskráningin valkvæð þar sem skylda til skráningar þyrfti að eiga sér skýra lagastoð. Forsætisráðuneytið mun taka við þessum upplýsingum og fara yfir þær fara og leiðbeina hlutaðeigandi um hvort þörf sé á ráðstöfunum vegna mögulegra hagsmunaárekstra.
Ráðuneytið segir að um tilraunaverkefni sé að ræða og ekki var gert ráð fyrir að upplýsingar sem verða til við þessa skráningu verði birtar opinberlega. „Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að efla vitund starfsmanna um mikilvægi þess að afstýra hagsmunaárekstrum og bjóða þeim ráðgjöf í vafatilvikum.“
Forsætisráðuneytið mun taka saman skýrslu um verkefnið og birta eigi síðar en 30. mars 2019. Í henni verði ekki persónugreinanlegar upplýsingar. Hagsmunaskráningarkerfi stjórnvalda er nú í heild til endurskoðunar, meðal annars í ljósi ábendinga GRECO. Endurskoðunin lýtur að því hverjum skuli skylt að skrá hagsmuni, hvort gera eigi ráð fyrir upplýsingagjöf og ráðgjöf í trúnaði í vissum tilvikum og hversu víðfeðm skráningarskyldan eigi að vera. Síðastefnda atriðið varðar til dæmis skráningu skuldbindinga og hagsmuni maka og ólögráða barna viðkomandi.
Frétt ráðuneytisins var uppfærð eftir að frétt Kjarnans fór í loftið þar sem eftirfarandi kemur fram:
Hagmunaskráning aðstoðarmanna og nokkurra ráðuneytisstjóra hefur nú verið birt og stefnt er að því að birtingu ljúki á allra næstu dögum. Birtingin er að frumkvæði aðilanna sem við eiga, aðstoðarmanna og ráðuneytisstjóra, og í kjölfarið verður unnið að því að yfirfara löggjöf sem varðar birtingu upplýsinga af þessu tagi.