1. Tæplega 200 þúsund starfandi
Alls voru 192.656 starfandi á íslenskum vinnumarkaði í lok síðasta árs, á aldrinum 15 til 74 ára, af báðum kynjum og með lögheimili á Íslandi. Á sama tíma var heildarmannfjöldi á Íslandi 348.580.
2. Um 18 þúsund launagreiðendur
Tæplega 18 þúsund launagreiðendur eru á Íslandi samkvæmt tölum Hagstofunnar frá því í mars. Alls voru þeir að jafnaði 17.804 á 12 mánaða tímabili frá apríl 2017 til mars 2018 og hafði þeim fjölgað um 640 eða 3,7 prósent frá síðustu 12 mánuðum þar á undan. Á sama tímabili greiddu launagreiðendur að meðal tali 190.400 einstaklingum laun sem er aukning um 8.300 eða 4,5 prósent samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr.
3. Flestir í fræðastörfum eða opinberri stjórnsýslu
Flestir launþegar störfuðu í mars 2018 við það sem Hagstofan flokkar sem fræðistarfsemi og opinber stjórnsýsla, eða 41.500. Þar á eftir starfa 25.300 í ferðaþjónustu og 16.300 í heilbrigðis- og umönnunarþjónustu. 16.700 starfa í framleiðslu, 15.200 í smásöluverslun og 8.700 í heildverslun. Alls eru um 12.900 launþegar í tækni- og hugverkaiðnaði, 12.800 í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og 8.700 í skapandi greinum.
4. Tveir þriðju launamanna í ASÍ
Alþýðusamband Íslands er stærsta fjöldahreyfing launafólks á landinu. Um tveir þriðju hlutar launamanna í skipulögðum samtökum á Íslandi eru í ASÍ. Hlutverk ASÍ er að berjast fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna og standa vörð um réttindi þeirra. Félagsmenn í ASÍ eru um 123 þúsund í 5 landssamböndum og 48 aðildarfélögum um land allt. Þar af eru ríflega 110 þúsund virkir á vinnumarkaði. Félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ eru starfandi á flestum sviðum samfélagsins, á almennum vinnumarkaði og hjá ríki og sveitarfélögum. Forseti ASÍ er Gylfi Arnbjörnsson sem gegnt hefur því embætti frá árinu 2008.
5. Aðildarfélögin gera kjarasamninga og sinna hagsmunagæslu
Aðildarfélög ASÍ sinna margs konar þjónustu fyrir félagsmenn sína. Þau gera kjarasamninga þar sem kveðið er á um laun og önnur starfskjör félagsmanna. Þau leiðbeina um túlkun kjarasamninga og aðstoða launafólk við að sækja rétt sinn gagnvart atvinnurekendum, s.s. við innheimtu launa, viðurkenningu á áunnum réttindum og varðandi öryggis- og aðbúnaðarmál. Þau leiðbeina og aðstoða félagsmenn sína í samskiptum við opinberar stofnanir á sviði vinnumarkaðsmála, s.s. Atvinnuleysistryggingasjóð, Fæðingarorlofssjóð og Ábyrgðasjóð launa. Á vegum stéttarfélaganna eru reknir sjúkrasjóðir sem veita margháttuð réttindi, m.a. með greiðslu dagpeninga þegar félagsmenn veikjast eða lenda í slysum.
6. Andstaða við forystuna
Fjögur aðildarfélög ASÍ hafa lýst yfir andstöðu við forystu ASÍ. Það eru VR, Efling, Verkalýðsfélag Akraness og Framsýn Verkalýðsfélag. Þessi félög hafa meirihluta félagsmanna innan ASÍ að baki sér, rúmlega 52 prósent. Þau gagnrýna harðlega baráttuaðferðir forystunnar og hefur Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR meðal annars lýst yfir vantrausti á hendur Gylfa Arnbjörnssyni.
7. Meira en 2 þúsund fyrirtæki hjá SA
Samtök atvinnulífsins, SA, eru heildarsamtök íslensks atvinnulífs, það er að segja atvinnurekenda. Undir SA eru sex aðildarsamtök sem byggja á ólíkum atvinnugreinum, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. Yfir 2.000 fyrirtæki eiga aðild að SA og hjá þeim fyrirtækjum starfa um 70 prósent launafólks á almennum vinnumarkaði. Með aðildinni fela aðildarfélögin og einstakir meðlimir SA umboð til að gera alla kjarasamninga fyrir sína hönd.
8. Ríkið stærsti vinnuveitandinn
Ríkið er stærsti vinnuveitandi landsins. Starfsmenn ríkisins eru samkvæmt upplýsingum á vef Stjórnarráðsins að jafnaði um 21 þúsund talsins en stöðugildi eru töluvert færri þar sem margir eru í hlutastörfum. Fjármálaráðherra fer með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð kjarasamninga við starfsmenn ríkisins. Hann skipar samninganefnd til að annast samningagerð fyrir sína hönd. Þá eru starfskjör hluta starfsmanna ríkisins ákvörðuð af Kjararáði. Kjararáð er sjálfstætt ráð sem er falið það verkefni að ákveða laun og starfskjör æðstu embættismanna ríkisins. Í þeim hópi eru alþingismenn, ráðherrar, dómarar, saksóknarar, sendiherrar, ráðuneytisstjórar, skrifstofustjórar sem fara með fyrirsvar fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðherra við gerð kjarasamninga, forsetaritari, seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri, ríkissáttasemjari og nefndarmenn úrskurðarnefnda í fullu starfi. Fyrirkomulag um launaákvarðanir Kjararáðs er í endurskoðun hjá ríkisstjórninni.
9. SALEK frá 2013 - óvíst með framhaldið
Heildarsamtök aðila á vinnumarkaði, það er að segja ASÍ, BSRB, BHM, KÍ, Samband sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, fjármála- og efnahagsráðuneytið og SA, hafa haft með sér formlegt samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga, sem kallast SALEK, frá árinu 2013. Í október 2015 undirrituðu þessi heildarsamtök, að undanskildum BHM og KÍ, rammasamkomulag um bætt vinnubrögð við kjarasamningagerðina. Nokkur aðildarfélög ASÍ hafa lýst mikilli andstöðu við SALEK og er óvíst hvernig fer með samkomulagið þegar kjarasamningar ASÍ og SA renna út nú um áramótin.
10. Ríkisstjórnin með yfirlýsingar um sátt á vinnumarkaði
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að ríkisstjórnin hyggist beita sér fyrir samstilltu átaki með aðilum vinnumarkaðarins til að tryggja að kjarasamningar skili launafólki og samfélaginu raunverulegum ávinningi. Sátt á vinnumarkaði er nauðsynleg forsenda þess að stuðla að stöðugu verðlagi og jafnvægi og skapa þannig efnahagsleg skilyrði til lægra vaxtastigs og bættra lífskjara.