Nokkur vitundarvakning hefur orðið á hinum ýmsu geðsjúkdómum í íslensku samfélagi á síðustu árum og áratugum en enn gerist það að fólk sér ekki aðra leið út úr vanlíðaninni en að taka eigið líf. Þegar tölur er skoðaðar má sjá sveiflur milli ára eftir aldri, búsetu og kyni. Óttar Guðmundsson geðlæknir segir ýmsar skýringar geta legið að baki þessum sveiflum á Íslandi og sé engin skýring endilega betri en önnur.
Tenging milli áfengisneyslu og sjálfsvíga
Samkvæmt tölum, sem Embætti landlæknis hefur tekið saman, er mikill munur á milli hversu margir karlmenn og konur fremja sjálfsvíg. Í fyrra frömdu til að mynda 32 karlmenn sjálfsvíg en 2 konur. Þess má geta að samkvæmt tölum lögreglu voru framin 40 sjálfsvíg árið 2017 en 6 af þeim voru útlendingar sem unnu í mjög skamman tíma á landinu og/eða voru ferðamenn. Þeir teljast ekki í dánarmeinaskrá þar sem þeir teljast hjá heimalandi sínu.
En hvaða ástæður gætu legið að baki þessum gríðarlega mun milli kynjanna? „Það virðist vera að karlmönnum líði verr með sjálfa sig,“ segir Óttar og bætir því við að þeir geti verið hvatvísari og beiti agressívari aðferðum en konur. Hann segir að þeir drekki sömuleiðis meira og verði fyllri. Hann bendir á að tenging sé á milli sjálfsvíga og áfengisneyslu og að karlmenn séu líklegri til að drekka ofan í mikið þunglyndi.
Ungir karlmenn í áhættuhópi
Óttar hefur áhyggjur af ungum mönnunum og þrátt fyrir að öflugt forvarnarstarf hafi verið unnið á síðastliðnum árum þá séu þeir í áhættuhópi. Óttar bendir á að ungar konur séu mun ólíklegri til að taka eigið líf og séu það hugsanleg merki þess að þeim líði ekki eins illa og drengjunum. Þeir hafi neikvæðar tilfinningar gagnvart sjálfum sér sem tengist oft neyslu og vonleysi. „Svo virðist sem strákum líði verr. Stelpum gengur betur í skóla og virðist ganga betur í lífinu í dag,“ segir hann. Enn fremur eigi strákar erfiðara með að tala um tilfinningar sínar.
Stelpum gengur betur í skóla og virðist ganga betur í lífinu í dag.
Óttar segir að stúlkur eða konur eigi það aftur á móti frekar til að gera sjálfsvígstilraunir sem séu hróp á hjálp og að það sama eigi við um sjálfsskaða.
Öll forvörn er af hinu góða, að mati Óttars, þar sem strákar eru hvattir til að segja hug sinn. Hann bendir á að sjálfsvígstíðni hafi minnkað eilítið síðustu ár þrátt fyrir að auðvitað sé erfitt að segja til um beint orsakasamhengi þar á milli.
Sveiflur tilviljunarkenndar
Nokkrar sveiflur eru milli síðustu tveggja ára hvað varðar sjálfsvíg en þær hafa þó aldrei farið yfir 50 eða niður fyrir 26. Svipað hefur verið uppi á teningnum síðustu tíu ár. Óttar segir að hann myndi vilja sjá tölurnar lækka enn frekar.
Þegar hann er spurður út í ástæður fyrir þessum sveiflum segir hann þær vera tilviljunarkenndar og að ekki sé hægt að draga neinar ályktanir varðandi þær. Þó sé hægt að sjá ákveðin mynstur og vonar hann að forvarnir beri árangur.
Söfnun upplýsinga mikilvæg fyrir forvarnir
Mesta aukningin hefur verið á Vestfjörðum en eins og áður segir voru flest sjálfsvíg þar á síðasta ári. Þetta er þó heldur óvenjulegt þar sem sjálfsvígstíðnin hefur ekki verið há þar hingað til. Óttari bendir á að lítið þurfi að aukast til að sveiflur fari að sjást. „Það eru engar skýringar á þessu,“ segir hann og erfitt sé að segja til um hvað þessar tölur þýði. Hvort þetta sé varanlegt eða einungis tímabundið og tilviljunum háð.
Það skiptir öllu máli að vita hvað við höfum milli handanna. Við getum ekki beitt forvörnum nema vita hvert við eigum að beina þeim.
Óttar segir að miklu máli skipti að halda vel utan um tölur af þessu tagi því þá sé hægt að gera sér betur grein fyrir vandamálinu. „Það skiptir öllu máli að vita hvað við höfum milli handanna. Við getum ekki beitt forvörnum nema vita hvert við eigum að beina þeim,“ segir hann. Með því að reyna að átta sig á hvaða hóp verið er að tala um og hvernig eigi að ná til hans þá sé hægt að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir sjálfsvíg.