Opnunarleikur heimsmeistaramótsins í knattspyrnu fer fram nú á eftir þar sem mætast gestgjafaþjóðin Rússar og lið Sádi-Arabíu. Kjarninn fékk tvo fótbolta- og geopólitíska sérfræðinga til að spá í spilin fyrir þennan fyrsta leik mótsins, sem er kannski ekki sá mest spennandi knattspyrnulega séð, en út frá alþjóðastjórnmálafræðinni er hann hins vegar mjög áhugaverður. Báðir spá síðan fyrir um úrslitin.
Miklir peningar í deildunum
Stefán Pálsson sagnfræðingur segir löndin tvö koma úr töluvert ólíkum áttum. Rússland sé með langa og mikla fótboltahefð á meðan Sádi-Arabía sé í því tilliti einhvers konar nýríki. Hann segir Sádana hafa notað peninga sína grimmt og keypt mikið af gömlum evrópskum stjörnum í þjálfun. „Án þess að hafa skoðað það sérstaklega þá reikna ég með að töluverður hluti af landsliðinu sé ekki fæddur í Sádi-Arabíu heldur verið fluttir þangað inn ungir frá norður Afríku til að spila og fengið ríkisfang.“
Stefán segir liðin bæði eiga það sameiginlegt að vera í þeirri stöðu að deildirnar í heimalandinu greiði það há laun, þvert á gæði deildanna, sem gerir það að verkum að obbinn af leikmönnunum spili í viðkomandi landi. Rússarnir spili í Rússlandi og Sádi-Arabara í Saudi-Arabíu. „Það er ekki endilega gott fyrir fótboltann á viðkomandi stöðum. Leikmennirnir eru ekki að fara í sterkari deildir og verða þar með betri. Það þarf allavega helvíti fín tilboð til að lokka þá í burtu.“
Lítið gert úr þætti Sádi-Arabíu í stríðsrekstrinum í Jemen
Bæði þessi lönd hafa verið í eldlínunni á alþjóðavettvangi. Stefán segir Sádana fara miklu meira undir radarinn, „á meðan að heimurinn var alveg á innsoginu fyrir fáeinum vikum yfir því hvort Rússarnir hafi drepið einhvern njósnara, sem nú er allur orðinn hressari og gæti jafnvel bara skellt sér á leikinn.“ Hann segir að á móti sé furðu lítið gert úr stríðinu sem Sádarnir herji nú á Jemen. „Bara í gær gerðu þeir árás eða tilraun til að taka hafnarborg í Jemen sem hefur verið aðal dreifingarmiðstöðin fyrir mat og lyf til stórs hluta landsins. Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst áhyggjum af því að þetta geti þýtt massífa hungursneyð og leit til dauða tugþúsunda manna. Við gætum verið að horfa upp á svimandi mannfall í tengslum við þetta. Þetta hefur verið að mestu talið óáreitt af Vesturlöndum. Kannski af því að fólkið í Jemen flýr ekki til Evrópu, það kemst ekki svo langt.“
Stefán Segir Sádi-Arabíu eyða meiru í vopn heldur en Rússland. „Sem er alveg galin staðreynd. Þeir eru eitt allra stærsta vopnakaupaland í heimi og er land sem að er alveg stórkostlega ábyrgt fyrir stöðu mála í Mið-Austurlöndum, þá fyrst og fremst sem fjármagnandi og upprunaland fyrir vopn. Þeir eru ekki bara að safna þessum gríðarlegu vopnabúrum í geymslur sínar heldur hafa þeir miðlað þeim áfram í þessum borgarastríðum í grannríkjunum,“ segir Stefán.
Auðvelt pólitískt val
Þeir sem hafi tilhneigingu til þess að velja sér lið út frá einhverjum pólitískum forsendum í HM eiga þægilegt val fyrir höndum í þessum leik að mati Stefáns.
En hvernig fer þetta? Stefán segir að þegar horft sé á söguna hafi það lengi verið þannig að opnunarleikur á HM var ávísun upp á annað hvort markalaust jafntefli eða óvænt úrslit. Í seinni tíð hafi kúrsinn breyst örlítið og heimamenn náð að landa sigri. „Ég held að svo verði, Rússarnir vinni 2-1 en verð ekki hissa ef þeir verða orðnir smá stressaðir þegar fyrsta markið kemur loksins.“
Sádar tvöfalt ríkari á mann en Rússar
Björn Berg Gunnarsson fræðslustjóri Íslandsbanka og fótboltaunnandi segir þennan leik Rússa gegn Sádi-Aröbum mjög áhugaverðan út frá efnahagsmálum. „Þetta er olíuleikur. Löndin tvö eru tveir stærstu olíuútflytjendur í heimi. Heildarútflutningur Sádi-Arabíu á hráolíu er 16 prósent af heildinni og 11 prósent hjá Rússum. Og þetta eru alvöru upphæðir. Útflutningur Sádanna var að andvirði 13.400 milljarða króna á síðasta ári og Rússar fluttu út hráolíu fyrir 9.300 milljarða króna. Þetta eru tveir langsamlega stærstu aðilarnir á markaðnum.
Björn segir að sé horft til annarra helstu hagstærða þá sé munurinn milli ríkjanna töluverður.
„Ef við skoðum landsframleiðslu á hvern íbúða í þessum löndum, sem er reyndar frekar lítið að marka þar sem ójöfnuðurinn er svo mikil, þá er hún tvisvar sinnum hærri í Sádi-Arabíu en Rússlandi. Sádar er því tvöfalt ríkari á mann en Rússar. Þeir eru bara miklu færri og þar er miklu meiri velmegun. Í Sádi-Arabíu er miklu meiri olía á hvern íbúa en í Rússlandi. Og Rússar standa alveg hræðilega í efnahagslegu tilliti. Þar hefur verið ofboðslegur samdráttur í landsframleiðslu í síðasta áratuginn. Til dæmis hefur rúblan fallið um helming frá 2014. Myntin ríalinn í Sádi-Arabíu er hins vegar fastur við dollar þannig að hann er hvað það varðar tiltölulega stöðugur.
Enginn innflutningur á fólki í Rússlandi
Björn segir einnig áhugavert að athuga að fólksfjöldinn hefur síðasta áratuginn staðið í stað í Rússlandi. „Þeim hefur fjölgað um 1 prósent síðasta áratuginn en Sádi-Aröbum um 31 prósent á sama tíma. Þetta er rosalegur munur. Sádarnir dirfnir áfram af erlendu vinnuafli en það er náttúrulega enginn innflutningur á fólki í Rússlandi.“
Ef löndin eru borin saman við Ísland í efnahagslegu tilliti þá er hér á landi sjö sinnum meiri landsframleiðsla á mann heldur en í Rússlandi. „En ef við leiðréttum fyrir kaupmætti sem að segir í rauninni þá hversu langt nær hver króna, það er ódýrt að búa í Rússlandi enda lífsgæðin minni, þá er Ísland með tvöfalt hærri landsframleiðslu á mann, í stað sjö sinnum hærri og eiginlega alveg á pari við Sádana. Munurinn er að hér er miklu meiri jöfnuður heldur en á báðum stöðum sem skekkir þennan samanburð.
Allt muni ganga með heimaliðinu
Björn spáir Rússum sigri líkt og Stefán. „Vegna þess að þeir eru á heimavelli. Opnunarleikurinn hefur oft verið „anticlimax“, valdið vonbrigðum. Ég held að Rússarnir muni vera á þessu móti eins og Suður-Kórea var árið 2002 - að allt gangi með þeim.“