Rektor Karolinska-stofnunarinnar hefur úrskurðað að 7 einstaklingar séu ábyrgir fyrir vísindalegu misferli í sex vísindagreinum sem sneru að plastbarkamálinu og er Tómas Guðbjartsson, prófessor við HÍ og yfirlæknir á Landspítala, einn af þeim. Í tilviki Tómasar varðar það aðild hans að grein í hinu virta vísindatímariti Lancet sem byggð var á fyrstu plastbarkaígræðslunni.
Sjúklingurinn sem í hlut átti var Andemariam Teklesenbet Beyene, Eretríumaður sem var sendur á vegum íslenska heilbrigðiskerfisins til Karolinska-háskólasjúkrahússins, þar sem hann undirgekkst þar ígræðslu plastbarka í júní árið 2011.
Í greininni í Lancet var plastbarkaígræðslan í Beyene kynnt sem sönnun á gildi (proof-of-concept) þessarar nýstárlegu skurðaðgerðar. Beyne lést árið 2014 og áður hafði annar sjúklingur sem gekkst undir plastbarkaígræðslu látist. Sama ár tilkynntu fjórir læknar á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu grunsemdir sínar um að vísindalegt misferli hefði átt sér stað í greinum Macchiarinis. Í kjölfarið var Bengt Gerdin, prófessor við Uppsala-háskóla, fenginn að beiðni Karolinska-stofnunarinnar til að framkvæma rannsókn á störfum Maccharinis og meðhöfunda og komst hann að þeirri niðurstöðu að um vísindalegt misferli hafi verið að ræða í öllum sex vísindagreinum sem höfðu birst um plastbarkaígræðslur í ýmsum vísindatímaritum. Þáverandi rektor Karolinska-stofnunarinnar, Anders Hamsten, hreinsaði hins vegar Macchiarini af öllum ásökunum og það var ekki fyrr en Bosse Lindquist, fréttamaður hjá SVT í Svíþjóð, gerði þættina Experimenten að málið var skoðað á ný, meðal annars hérlendis af Landspítala og Háskóla Íslands.
Falsaðar niðurstöður í Lancet-greininni
Tekið er fram í úrskurði Karolinska-stofnunarinnar að mjög alvarlegar rangfærslur hafi verið í Lancet-greininni Tracheobornchial transplantation with a steam-cell-seeded bioartificial nanocomposite: a proop-of-concept study, um ástand Beyene, bæði fyrir og eftir plastbarkaígræðsluna, sem hafi verið villandi og einnig er tekið fram að leyfi frá vísindasiðanefnd hafi ekki verið til staðar. Enn fremur að rannsóknir sem skapa grundvöll fyrir framkvæmd plastbarkaígræðslu hafi skort en Macchiarini fullyrti að hann hefði gert tilraunir á dýrum til að undirbúa aðgerðir sínar á mönnum. Þá hafi vantað fullnægjandi upplýst samþykki sjúklinga.
Munu fara yfir niðurstöðurnar
Í svari við fyrirspurn um hvaða þýðingu niðurstöðurnar hefðu fyrir Háskóla Íslands og Tómas Guðbjartsson, prófessor við stofnunina, sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands: „Karolinska Institutet hefur núna úrskurðað um vísindaþátt plastbarkamálsins. Háskóli Íslands hefur áður tekið þann þátt fyrir og svaraði 5. apríl með hliðsjón af niðurstöðum í skýrslu óháðrar nefndar Háskólans og Landspítala um málið. Landspítali og Háskóli Íslands munu saman og í sitt hvoru lagi fara yfir þessa nýju skýrslu Karolinska Institutet eins og önnur gögn sem fram hafa komið í þessu erfiða og flókna máli.“
Fengu neitun frá NEJM vegna þess að ekkert leyfi var frá vísindasiðanefnd
Læknarnir sem komu að plastbarkaaðgerð Beyene höfðu í upphafi sent vísindagreinina um aðgerðina til New England Journal of Medicine en þar var henni hafnað, m.a. á þeirri forsendu að tilskilin leyfi vantaði frá Vísindasiðanefnd. Engu að síður sendu læknarnir greinina til Lancet sem samþykkti að birta hana. Ole Petter Ottersen, rektor Karolinska-stofnunarinnar, segir að málið hafi verið mjög vandlega rannsakað. „Þessi ákvörðun hefur verið tekin eftir nákvæmar rannsóknir í máli sem hefur haft mikil áhrif á Karolinska-stofnunina, á vísindasamfélagið í heild sinni og á traust almennings á læknisfræðilegum rannsóknum.“
Vilja koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur
Ottersen segir að málið hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjúklinga, aðstandendur þeirra, Karolinska-stofnunina og vísindasamfélagið allt. „Einkum hefur málið haft hörmulegar afleiðingar fyrir sjúklinga og ættingja þeirra, sem ég harma mjög. Karolinska-stofnunin mun nú halda áfram að hrinda í framkvæmd þeim ráðstöfunum sem nauðsynlegar eru til að koma í veg fyrir að eitthvað þessu líkt gerist aftur,“ sagði Ottersen í löngum og ítarlegum rökstuðningi en stofnunin hefur dregið allar fræðigreinarnar til baka.
Íslensku læknarnir, Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson, sem voru meðal höfunda Lancet-greinarinnar títtnefndu eru báðir sagðir hafa vanrækt skyldu sína að gera athugasemdir við rangfærslur greinarinnar en Tómas var í forsvari fyrir meðferð Beyene hér á landi og Óskar framkvæmdi berkjuspeglanir á honum fyrir og eftir tilraunaaðgerðina. Þá voru læknisfræðilegar forsendur sagðar ekki nægar til að ráðast í aðgerð sem plastbarkaaðgerðirnar voru og sjúklingar voru látnir undirgangast eins og kom fram í greininni Bera íslenskar stofnanir ábyrgð í gervibarkamálinu.
Hópur sérfræðinga á sviði vísindamisferlis innan sænsku siðanefndarinnar (Centrala etik-prövningsnämnden) sendi frá sér yfirlýsingu 30. okt, 2017 þess efnis að Macchiarini og allir meðhöfundar hans hafi gerst sekir um misferli í tengslum við birtingu vísindagreina um plastbarkaaðgerðirnar. Veigamesta greinin birtist í hinu virta læknisfræðitímariti Lancet eins og áður greinir.
Í október 2017 hafði Anders Tordai saksóknari komist að þeirri niðurstöðu að ekki væru nægar sannanir til að sakfella Macchiarini fyrir dauða Beyene og var tekið fram að plastbarkaaðgerðirnar hefði jafnvel lengt líf einstaklinganna sem undirgengust aðgerðirnar. Þetta var harðlega gagnrýnt í Svíþjóð og beðið var eftir úrskurði Karolinska-stofnunarinnar sem nú hefur komið fram.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis mun halda áfram með málið
Plastbarkamálinu er því langt í frá lokið, enda eitt alvarlegasta mál sem komið hefur upp í læknisfræði síðustu áratugi. Ljóst er að ábyrgð íslenskra stofnana er töluverð eins og fram kom í niðurstöðu rannsóknarnefndar sem skipuð var af HÍ og Landspítala. Þrátt fyrir að báðar stofnanir hafi brugðist við niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar virðist Alþingi áfram líta málið alvarlegum augum því Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur ákveðið að taka það til umfjöllunar að nýju (fundargerð frá 30. maí sl.).
Tómas ósáttur við niðurstöðuna
Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir, segir á Facebook-síður sinni í morgun að hann sé afar ósáttur við niðurstöður Karolinska-stofnunarinnar: „Niðurstaða rektors Karólínsku stofnunarinnar byggir á rannsókn sænsku vísindasiðanefndarinnar (CEPN) frá því í fyrra sem margir gagnrýndu fyrir ónákvæm vinnubrögð. Engin ný efnisatriði virðast hafa komið fram í málinu og í umsögn rektorsins um þátt minn í umræddri vísindagrein gætir ónákvæmni og mér eru hreinlega eignaðir hlutir sem ég hafði aldrei aðkomu að. Ég fékk heldur ekki tækifæri til að fylgja eftir þeim gögnum sem ég afhenti nefndinni, þvert á gefin loforð. Það eru mér mikil vonbrigði að vera á grundvelli slíkra vinnubragða sakaður um vísindalegt misferli – ákvörðun sem ekki er hægt að áfrýja.“
Þá segir Tómas að margt hefði betur mátt fara í plastbarkamálinu sem hefði ekki komið í ljós fyrr en eftir á. Hann segist vísa því alfarið á bug að hafa í greininni í Lancet vísvitandi sett fram staðhæfingar gegn betri vitund. Hann hafi á starfsævi sinni skrifað 210 vísindagreinar og aldrei fengið ámæli fyrir þau vísindastörf.
Kæru facebook vinir Enn á ný er ég til umfjöllunar í fjölmiðlum vegna plastbarkamálsins - nú síðast í gær þegar rektor...
Posted by Tomas Gudbjartsson on Tuesday, June 26, 2018