Samtökin Loyal to Familia, LTF, urðu til haustið 2012. Stofnendurnir voru flestir innflytjendur eða af erlendu bergi brotnir, fyrrverandi félagar í samtökum kenndum við Blaagaards Plads á Norðurbrú en einnig frá nokkrum hverfum í norðurhluta Kaupmannahafnar og nágrenni. LTF hafa, að mati lögreglunnar, allt frá stofnun ætlað sér stóra hluti í undirheimum Kaupmannahafnar. Þar voru hinsvegar fyrir nokkur önnur samtök, þar á meðal Bandidos og Brothas, sem ekki tóku þessum nýju samtökum fagnandi. Einkum þau síðarnefndu.
Upplýsingar um LTF, og önnur samtök af svipuðum toga liggja ekki á lausu, ekkert eiginlegt félagatal fyrirfinnst enda „starfsemin“ þess eðlis að félagarnir hafa ekki sérlegan áhuga á að upplýsa um hana. Lögreglan telur að á síðasta ári hafi félagar í LTF verið nokkuð á þriðja hundrað, lang flestir í Kaupmannahöfn og nágrenni en samtökin hafa einnig verið að reyna að ná fótfestu í Árósum.
Ætluðu sér yfirráð á Norðurbrú
Eftir að LTF varð til, haustið 2012, varð fljótlega ljóst að samtökin hygðust ekki sitja á friðarstóli. Ætluðu sér að verða ráðandi á svæðinu sem liggur að og í nágrenni innflytjendahverfisins Mjølnerparken á Norðurbrú og hrekja önnur samtök á brott. Og það er einmitt á svæðinu þar í kring sem hvað oftast hefur komið til átaka á síðustu árum. Samtökin Brothas hafa litið á Mjölnerparken sem sitt yfirráðasvæði og voru ekki tilbúin að gefa það eftir.
Og hvað þýða svo þessi yfirráð, og að helga sér svæði? Það hefur ákveðna táknræna merkingu, sýnir hverjir það eru sem drottna. Þeir sem það gera sýna líka margs konar yfirgang gagnvart íbúunum, þvinga eigendur verslana og veitingastaða til að borga svokallað „verndargjald“ sé það ekki gert er haft í hótunum og iðulega ekki látið sitja við orðin tóm. Rúður brotnar trekk í trekk, kannski allt innandyra brotið og bramlað og þess eru mörg dæmi að kveikt hafi verið í að næturlagi. Þessu tengist svo verslun með eiturlyf.
Shuiab Khan
Leiðtogi LTF er Shuaib Khan 32 ára, af pakistönskum ættum. Foreldrar hans fluttu til Danmerkur á sjöunda áratug síðustu aldar. Faðirinn Wallait Khan er þekktur í samfélagi Pakistana í Kaupmannahöfn og hefur ennfremur setið í bæjarráði borgarinnar. Wallait Khan er, þrátt fyrir áratugabúsetu í Danmörku, pakistanskur ríkisborgari. Samkvæmt upplýsingum sem danska lögreglan býr yfir á fjölskyldan land í Pakistan og þrátt fyrir að Wallait Khan segist einungis hafa komið þangað sjö sinnum síðan hann flutti til Kaupmannahafnar veit danska lögreglan betur. Það eru þessi tengsl við Pakistan sem hafa orðið til þess að danska lögreglan hefur margoft reynt að fá syninum, Shuaib Khan vísað úr landi í Danmörku. Það hefur hinsvegar reynst árangurslaust, dómstólar telja Shuaib Khan ekki hafa þau tengsl við Pakistan að hægt sé að senda hann þangað. Shuaib Khan hefur hlotið marga dóma fyrir rán og ofbeldisverk og hefur mátt dúsa í fangelsi árum saman. Lögreglan telur að Shuaib Khan hafi stjórnað LTF samtökunum úr fangelsinu og sé enn leiðtogi samtakanna. Hann losnaði úr fangelsi fyrir nokkrum mánuðum og var ákaft fagnað af félögum sínum þegar hann yfirgaf fangelsið og gekk út í frelsið.
Skotbardagar, morð og ofbeldi
Síðan í febrúar 2015 hefur oftar en fjörutíu sinnum verið hleypt af skotum í átökum glæpagengja í Kaupmannahöfn. Þrír hafa látist í þessum átökum og tugir særst. Lögreglan segir að LTF komi lang oftast við sögu í þessum átökum og séu nær alltaf annar „stríðsaðilinn“ eins og talsmaður lögreglu komst að orði.
Vill uppræta LTF
Søren Pape Poulsen dómsmálaráðherra hefur lengi talað fyrir því að gripið verði til aðgerða í því skyni að binda enda á skálmöldina. Fyrir nokkrum mánuðum síðan hóf danski ríkislögmaðurinn, að beiðni ráðherrans, athugun á því hvort forsendur væru fyrir því að banna LTF samtökin. Enda þótt í Danmörku ríki félagafrelsi eru í lögunum ákvæði sem gera kleift að banna starfsemi við sérstakar kringumstæður. Til dæmis ef starfsemin grundvallast á skipulagðri glæpastarfsemi og ofbeldi. Niðurstaða ríkislögmanns var birt fyrir nokkrum dögum og þar kom fram að hægt væri að beita þessu lagaákvæði gegn LTF. Slík ákvörðun þarf að fara fyrir dómstóla og sama dag og greint var frá niðurstöðu ríkislögmanns tilkynnti dómsmálaráðherrann að undirbúningur dómsmáls hæfist þegar í stað.
Mótbárur
Lögfræðingur Shuaib Khan og LTF er ósáttur við ákvörðun dómsmálaráðherrans. Segir hana jaðra við ofsóknir, LTF séu ekki lengur í stríði við önnur samtök. Hugsanlegt bann yrði einungis sýndarmennska, þeir sem áður hafa klæðst hettupeysum merktum LTF kaupi bara peysur með öðru merki. Sömuleiðis sé spurning hvort LTF geti kallast félagssamtök. Søren Pape Poulsen dómsmálaráðherra gefur lítið fyrir þessi rök, segir að þótt LTF láti lítið fyrir sér fara í augnablikinu sé það vegna þess að lögreglan sé með sérstakan viðbúnað. Vegna aðgerða lögreglu sitji margir félagar í LTF í grjótinu um þessar mundir og það geri samtökunum erfitt fyrir. Auk þess óttist félagar í LTF væntanleg réttarhöld og haldi sig þess vegna á mottunni. Og varðandi það að breyta um nafn á samtökunum segir ráðherrann að þau yrðu jafn ólögleg og LTF og yrðu samstundis upprætt.
Fimmtán félagar í LTF afplána nú langa fangelsisdóma og tugir annarra hafa fengið vægari dóma, eða bíða ákæru vegna margs konar afbrota.
Ekki liggur fyrir hvenær boðuð réttarhöld hefjast en það verður væntanlega með haustinu.