1. 69 ára bandalag
Atlantshafsbandalagið (e. NATO) var stofnað þann fjórða apríl árið 1949 af tíu Vestur-Evrópuþjóðum ásamt Kanada og Bandaríkjunum. Meginhlutverk bandalagsins var að verjast ágangi Sovétríkjanna, en það stefndi einnig að auknu stjórnmálasamstarfi aðildarríkja og vann gegn uppgangi herskárra þjóðernisafla í Evrópu. Lykilákvæði stofnsamnings bandalagsins er fimmta grein þess, en hún tilgreinir að sérhver árás á aðildarríki NATO jafngildi árás á öll ríki þess.
2. 28 opinberar aðgerðir
Í dag eru aðildarríki Atlantshafsbandalagsins 29 talsins, en starfsemi þess hefur tekið miklum breytingum frá stofnun. Bandalagið tók ekki þátt í neinum hernaðaraðgerðum á meðan Kalda stríðið stóð yfir, en frá endalokum Sovétríkjanna snemma á tíunda áratugnum hefur það staðið í að minnsta kosti 28 opinberum aðgerðum. Þeirra á meðal var þátttaka friðargæsluliða í Bosníu og Hersegóvínu vegna stríðsins í gömlu Júgóslavíu fyrir 25 árum síðan.
3. 42-föld landsframleiðsla Íslands
Áætluð heildarútgjöld sem renna til NATO á þessu ári eru 1.013.406.000.000 Bandaríkjadalir, sem jafngildir rúmri billjón dala, eða 42-falda landsframleiðslu Íslands. Sömuleiðis telur sameiginlegur her bandalagsins 3,18 milljónir, en það er meira en nífaldur íbúafjöldi Íslands.
4. Þátttaka Íslands
Ísland er eitt af stofnþjóðum bandalagsins og jafnframt eina þjóð þess sem ekki hefur eigin her og eigin varnir. Þjóðaröryggisstefna Íslands skilgreinir aðild okkar að NATO hins vegar sem lykilstoð í vörnum landsins. Lengst framan af var meginframlag Íslands til sameiginlegrar öryggisstefnu NATO í formi aðstöðu til bandaríska varnarliðsins sem hafði aðsetur hér til ársins 2006. Nú felast helstu framlög okkar í rekstur og umsjón varnarmannvirkja NATO á Íslandi, þar með talið fjögurra ratsjárstöðva, auk gistiríkjastuðnings fyrir heimsóknir og æfingar liðsafla bandalagsins. Einnig starfa tíu Íslendingar á vegum NATO sem borgaralegir sérfræðingar, en þeir fást meðal annars við upplýsingamál og sprengjueyðingu.
5. Ísland úr NATO, herinn burt
Þátttaka Íslands í NATO hefur ekki verið óumdeild, en til átaka kom á Austurvelliþegar ríkisstjórn Íslands ætlaði að samþykkja aðild okkar að bandalaginu árið 1949. Samtök herstöðvaandstæðinga stóðu einnig á bak við ellefu Keflavíkurgöngur, þar sem veru bandaríska setuliðsins og aðild Íslands að NATO var mótmælt, á tímabilinu 1960-1991. Vinstri græn hafa einnig lýst yfir andstöðu sinni við NATO, en úrsögn Íslands úr bandalaginu hefur verið á stefnuskrá flokksins í langa tíð.
6. Leiðtogafundurinn
Síðastliðinn miðvikudag og fimmtudag stóð yfir 29. leiðtogafundur sambandsins. Þeir eru ekki haldnir með reglulegu millibili, en venjulega er kallað til þeirra til að kynna annað hvort stefnubreytingu eða inngöngu nýrra aðildarríkja að bandalaginu. Aðalmál á dagskrá leiðtogafundarins í ár voru útgjaldamál aðildarríkjanna auk aðildarviðræðna Úkraínu og Georgíu að NATO.
7. Tveggja prósenta markið
Mestu athygli á leiðtogafundinum vöktu hins vegar ummæli Donald Trump Bandaríkjaforseta um misjöfn fjárframlög aðildarríkjanna til varnarmála, en Trump vildi að öll bandalagsríki myndu leggja út 2% af vergri landsframleiðslu sinni til varnarmála nú þegar og hækka hlutfall sitt upp í 4% í náinni framtíð.
8. Hærri útgjöld samþykkt
Meðlimir NATO hafa nú þegar samþykkt að auka útgjöld sín til varnarmála, en árið 2014 ákváðu aðildarríkin að stefna að útgjaldaaukningu til varnarmála þannig að hvert land næði 2% markinu innan ársins 2024. Einungis fimm aðildarríki hafa náð markinu nú þegar, en það eru Bandaríkin með 3,5%, Grikkland með 2,27%, Eistland með 2,14%, Bretland með 2,1% og Lettland með slétt tvö prósent.
9. Framlag Bandaríkjanna
Hvort sem miðað er við höfðatölu eða raunframlög leggja Bandaríkin langmest fram til sameiginlegra varnarmála Atlantshafsbandalagsins. Metið framlag Bandaríkjana í ár eru 727 milljarðar Bandaríkjadala, en það er meira en framlag allra hinna 28 ríkjanna samanlagt. Á síðustu níu árum hefur þó hlutfall framlaga Bandaríkjanna af landsframleiðslu til varnarmála minnkað um þriðjung, frá 5,3 prósent árið 2009 niður í 3,5 prósent í ár.
10. Framlag Íslands
Ísland er herlaust land og greiðir því langminnst til varnarmála af öllum aðildarríkjum bandalagsins. Samkvæmt fjárlögum árið 2018 nema heildarútgjöld Íslands til varnarmála í ár um 1,9 milljörðum íslenskra króna, en það er ekki nema 0,07 prósent af landsframleiðslu.