Á árinu sem danskir piltar verða átján ára fá þeir bréf frá Danska hernum. Þar er þeim gert skylt að mæta tiltekinn dag (forsvarets dag) þar sem hver og einn undirgengst eins konar próf. Það samanstendur af viðtölum, prófi í almennri þekkingu og dönsku, athugun á líkamlegu atgervi ásamt sjón og heyrn. Þeir sem uppfylla kröfurnar teljast hæfir til að geta tekið þátt í byrjendaþjálfun hersins, ekki eiginlegri hermennsku í orðsins fyllstu merkingu.
Af þessum hópi er einungis hluti kvaddur til starfa. Hverjir „lenda“ í því er ákveðið með því sem Danir kalla tombóluaðferðina, einfaldlega með því að draga miða úr hatti. Hér verður ekki fjallað nánar um þá hæfu og hermennskuþjálfunina. Rétt er að bæta því við að stúlkur fá ekki „kvaðningu“ eins og piltarnir en geta hins vegar óskað eftir að taka prófið og ef þær standast það geta þær tekið þátt í byrjendaþjálfun hersins og síðar meir gegnt hermennsku á sama hátt og piltar.
Herskyldan á sér langa sögu
Á næsta ári verða liðin 150 ár síðan herskylda var innleidd í Danmörku og þá var „tombólufyrirkomulagið“ tekið upp. Þetta fyrirkomulag, að skylda unga menn til að þjóna föðurlandinu með þessum hætti hefur alla tíð verið umdeilt. Herskyldan hefur hinsvegar breyst mikið gegnum tíðina, árið 1969 var skyldutímabilið 18 mánuðir, og þá voru 24.400 sem sinntu herskyldunni en í dag er tímabilið 4 mánuðir og þeir sem sinna skyldunni þessa 4 mánuði á ári hverju eru nú 4200. Á síðasta ári voru stúlkur 17% þeirra sem sinntu skyldunni. Herskyldan hefur alla tíð verið umdeild en fátt bendir til að hún verði afnumin.
Þeim óhæfu fjölgar hratt
Eins og getið var um í upphafi fjölgar þeim ört sem ekki teljast hæfir til að takast á hendur byrjendaþjálfun í hernum. Fyrir tiltölulega fáum árum var yfirþyngd algengasta ástæða þess að piltar töldust ekki hæfir ásamt sjóndepru og heyrnarleysi. Þannig er það ekki í dag. Nú eru andlegir kvillar algengasta orsök þess að piltar er úrskurðaðir óhæfir til herþjálfunar. Þessi hópur hefur á undanförnum 20 árum stækkað en lang mest á allra síðustu árum og er nú þriðjungur þeirra sem ekki geta fengið inngöngu í byrjunarþjálfun hersins.
Hefur verið falið vandamál
Svend Aage Madsen prófessor við Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn segir þessa aukningu andlegra kvilla hjá ungum körlum bæði alvarlegt og umhugsunarvert. Þetta sé hinsvegar að verulegu leyti falið vandamál, og segist fagna því að þessi mál séu komin fram í dagsljósið, þau hafi allt til þessa verið hálfgerð feimnismál. Nýleg rannsókn sem prófessorinn gerði, ásamt samstarfsfólki sínu, sýnir að andleg vanlíðan er eitthvað sem karlmenn, ungir sem eldri, forðast í lengstu lög að tala um. Kollegar og jafnvel bestu vinir vita ekkert um ástandið. Þeir sem spurðir voru sögðu að þeir myndu segja vinum og kollegum frá því ef skipta ætti um augastein, fara í ristilspeglun eða liðskiptaaðgerð, en að þeim líði illa andlega minnist þeir ekki á. Andleg vanlíðan sé einfaldlega tabú.
Þegar spurt var hvers vegna svöruðu margir því til að sumir segðu „er þetta ekki bara þreyta“ eða „þú hristir þetta af þér maður“. Hefðu semsagt engan skilning á ástandinu og sumir töluðu jafnvel um aumingjaskap. „Maður reynir bara að halda grímunni“ sagði einn þátttakenda í rannsókninni. Þar kom einnig fram að jafnvel þótt farið sé til læknis eiga karlar erfitt með að tala um líðan sína. Sumir sem rannsóknarhópurinn ræddi við sögðu að tíminn hjá lækninum væri svo naumt skammtaður að þeir komist aldrei að kjarna málsins. Sumir læknanna sem hópurinn ræddi við tóku undir að margir karlar ættu mjög erfitt með að tala um líðan sína, þegar á hólminn væri komið.
Hver er ástæðan?
Svend Aage Madsen prófessor segir að mjög erfitt sé að fá afdráttarlausar skýringar á mikilli fjölgun þeirra sem glíma við andlega erfiðleika. Þar komi eflaust fleira en eitt til. Í viðtali við danska útvarpið, DR, nefnir hann nokkrar hugsanlegar skýringar. Kröfur til ungs fólks fara sífellt vaxandi, það eiga allir að skara fram úr en helst ekki skera sig úr fjöldanum. Allir eiga að mennta sig, sem prófessorinn segir af hinu góða, en það viðhorf, sem er ríkjandi, að allir eigi að fara í menntaskóla, eftir að grunnskóla lýkur segir hann ekki æskilegt. Það þyki fínna að fara í menntaskóla en í verknám þótt það henti ekki öllum. Þess vegna fari margir í menntaskólann, komist svo að því að það henti hreint ekki og gefast upp. Þessir nemendur fyllist vanmáttarkennd, finnist þeir misheppnaðir. Vita svo í framhaldinu lítt eða ekki hvað þeir eigi að taka sér fyrir hendur. Bara þetta eina atriði, segir prófessorinn, getur haft mjög mikil áhrif á einstaklinginn og leitt til alls konar andlegra erfiðleika, sem fara vaxandi sé ekki brugðist við. ,,Þegar þessir einstaklingar leita sér ekki aðstoðar er ekki von á góðu.“ Prófessor Svend Aage Madsen ræddi einnig í viðtalinu stóraukna notkun fíkniefna, sem iðulega leiddi til persónuleikabreytinga.
Reiði, einangrun og aukin drykkja
Þegar fréttamaður DR spurði prófessorinn hvort hægt væri að nefna ákveðin atriði sem bentu til að hætta væri á ferðum, t.d. breytta hegðun nefndi hann nokkur atriði.
Í fyrsta lagi bæri iðulega á reiði út í allt og alla, allt væri ómögulegt og stóru orðin ekki spöruð.
Í öðru lagi breytt hegðun og framkoma, til dæmis á vinnustað. Sá sem ekki vill sitja með félögunum í matar- eða kaffitímum, vill helst ekki tala við neinn á vinnustaðnum en heldur sig út af fyrir sig.
Í þriðja lagi nefndi prófessorinn aukna áfengisneyslu. Margir standa í þeirri trú að áfengi bæti sálarástandið og líðanina. Áfengi er engin lausn sagði Svend Aage Madsen.
Hann sagði að iðulega forðaðist fólk að spyrja hvort eitthvað væri að, ef það tæki eftir einhverjum breytingum, til dæmis þeim sem nefnd voru hér að ofan. Það væri hinsvegar alrangt, þótt viðkomandi bregðist kannski illa við ætti sá sem spyr ekki að gefast upp, heldur halda áfram og þannig fá umræðuna í gang. Þetta væri mjög mikilvægt.
Í viðtalinu við DR sagðist prófessorinn vonast til að sú umræða sem nú er komin í gang varðandi þessi mál yrði til þess að opna augu allra, bæði sérfræðinga og almennings fyrir þessum geðræna vanda hjá ungum karlmönnum.