Innan veggja danska útvarpsins hefur um alllangt skeið verið á sveimi orðrómur þess efnis að í kjallarageymslum stofnunarinnar væru geymdar á þriðja tug gamalla kvikmynda, sem fæstir hefðu vitað að þar væri að finna. Varla teldist það fréttnæmt nema vegna þess að þetta eru klámmyndir sem á sínum tíma var stranglega bannað að sýna, hvað þá selja. Klámmyndir, sem jafnvel enn í dag þykja grófar að ekki sé meira sagt. Myndirnar eru danskar, þýskar, franskar og bandarískar, þær elstu frá byrjun síðustu aldar og þær yngstu frá sjötta áratugnum. Þessar myndir eru svart hvítar og þöglar, lengdin frá þremur upp í tíu mínútnar, myndu í dag kallast stuttmyndir.
Komust í eigu DR árið 1974
Þótt fæstir hafi, fyrr en nú, haft hugmynd um tilvist þessara kvikmynda í safni DR er ekki síður athyglisvert að enginn virtist lengi vel vita hvaðan þær komu, eða frá hverjum. Myndirnar, sem eru rúmlega 20 talsins, eru allar skráðar í safnið í desember árið 1974 og sagðar „Safn Meyers“. Enginn virtist vita neitt um þennan Meyer og ekki stendur neitt skráð um það (svo vitað sé) hver tók á móti myndunum og ekki stendur heldur neitt um ástæður þess að þær voru færðar DR til varðveislu. Auk skráningarseðils safnadeildar DR, fylgir hverri mynd nákvæm lýsing á söguþræðinum, myndgæðum og sömuleiðis mat skrásetjara á frammistöðu leikaranna. Ekki er vitað hver skrifaði þessar upplýsingar en þær fylgdu myndunum þegar þær voru afhentar DR. Flestar kvikmyndanna eru teknar á 16 millimetra filmu en nokkrar einnig á 35 millimetra filmu. Kvikmyndasérfræðingar, sem DR ræddi við, telja að í heiminum séu til um 2000 myndir af sama tagi, og þær sem geymdar eru í kjallaranum hjá DR. Frá upphafi kvikmyndagerðar og fram til ársins 1968.
1967 og 1969
Árið 1967 samþykkti danska þingið, Folketinget, lög um klám. Þar var útgáfa klám- rita og bóka heimiluð. Fram til þess tíma var útgáfa og sala á bókum og blöðum sem innihéldu klámfengið efni bönnuð. Eigi að síður var talsvert af slíku efni í umferð, en eins og einn gamall kaupmaður orðaði það í samtali við DR „maður var með þetta undir afgreiðsluborðinu en ekki í hillunum.“ Eftir lagabreytinguna 1967 streymdu á markaðinn í Danmörku alls kyns tímarit og bækur sem innihéldu klám og klámfengið efnið. Tveimur árum síðar, 1. júlí 1969, samþykkti danska þingið lög sem heimiluðu útgáfu og sölu á myndefni sem innihéldi klám, Danir voru fyrsta þjóðin í heiminum sem heimilaði slíkt. Ári eftir setningu lagann kom á markaðinn kvikmyndin „Rauði rúbíninn“ með Ole Søltoft í aðalhlutverkinu. Hann hefur iðulega verið nefndur fyrsti danski kvikmyndaelskhuginn og lék á árunum eftir 1970 meðal annars í hinum þekktu „rúmstokksmyndum“ sem nutu mikilla vinsælda. Þessar myndir hafa stundum verið kallað gamanmyndir með klámkenndu ívafi.
Er eitthvað merkilegt við þessar myndir?
Þessari spurningu svaraði einn af sérfræðingum DR játandi og í sama streng tók sagnfræðingurinn Thomas Oldrup sem segir „Safn Meyers“ mjög merkilegt. Tiltölulega fáar myndir af þessu tagi séu til í heiminum og „Meyer“ hafi greinilega vandað valið þegar hann keypti. Oldrup segir að þótt myndirnar eigi ekki erindi í sjónvarpið séu þær merkilegir safngripir og þær beri að varðveita.
Hver var Meyer?
Eftir að yfirmenn DR ákváðu að gera upplýsingarnar um klámmyndirnar opinberar fóru fréttamenn að reyna að grafast fyrir um þennan Meyer, sem ekkert var vitað um. Einhver benti þeim á Ole Brage fyrrverandi starfsmann safnadeildarinnar sem hugsanlega vissi eitthvað um málið. Það reyndust orð að sönnu. Ole Brage kannaðist vel við myndasafnið og það sem meira var, hann hafði kynnst Meyer og vissi að það var hann sem hafði afhent DR myndirnar og fengið smávægilega borgun fyrir. Þarna voru fréttamennirnir komnir á sporið og komust í samband við fjölskyldu Meyers. Meyer, sem var silfurvöruframleiðandi, dó fyrir ellefu árum. Hann var safnari, átti stærsta safn sem til var á Norðurlöndum af alls kyns orðum, safnaði líka sparibaukum, skotvopnum og mörgu fleiru. Fréttamennirnir komust líka að því að Meyer hafði átt miklu fleiri klámmyndir en þær sem hann afhenti DR. Ole Brage taldi að kannski hefðu myndirnar sem fóru til DR verið þær merkilegustu að mati Meyers.
DR hefur undanfarið birt nokkrar greinar um „Klámmyndirnar í kjallaranum“ eins og fréttamenn kalla það. Þeir eru ekki hættir, ætla nú að reyna að komast að því hvar Meyer fékk myndirnar og líka hvað varð um myndirnar sem fóru ekki til DR.