Öll fjölgun landsmanna á fyrri hluta ársins 2018, og vel rúmlega það, má rekja til þess að erlendir ríkisborgara fluttu hingað til lands. Þeir eru nú orðnir 41.280 talsins og hefur fjölgað um 3.328 frá áramótum, eða um 8,7 prósent. Alls fjölgaði íbúum á Íslandi um 2.360 á tímabilinu og því ljóst að landsmönnum hefði fækkað ef ekki hefði verið fyrir aðflutning erlendra ríkisborgara til landsins. Hlutfallslega setjast langflestir þeirra að í Reykjanesbæ. Fjöldi erlendra ríkisborgara þar hefur tæplega fjórfaldast á örfáum árum.
Alls eru Íslendingar nú 353.070 talsins. Erlendir ríkisborgarar eru tæplega tólf prósent af íbúum landsins. Þetta kemur fram í nýbirtum mannfjöldatölum Hagstofu Íslands sem sýna stöðuna í lok júní síðastliðins.
Erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi hefur fjölgað um 97 prósent frá lokum árs 2011. Það þýðir að fjöldi þeirra hefur tvöfaldast á sex og hálfu ári. Þeir hafa aldrei verið fleiri og fjölgun þeirra hefur aldrei verið hraðari en á síðustu 18 mánuðum.
Fjölgar hratt í Reykjavík
Um síðustu áramót bjuggu 23.200 erlendir ríkisborgarar á höfuðborgarsvæðinu. Þar af bjuggu 15.640 í Reykjavík. Til samanburðar bjuggu 330 á Seltjarnarnesi en 640 í Garðabæ.
Á fyrstu sex mánuðum ársins 2018 hefur erlendum ríkisborgurum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um 1.910 og eru nú 25.110. Það þýðir að 57 prósent allra erlendra ríkisborgara sem setjast hér að flytja á höfuðborgarsvæðið.
Flestir nýju íbúanna setjast enda að í Reykjavík, en á fyrri helmingi ársins fjölgaði erlendum ríkisborgurum í höfuðborginni um 1.370. Útlendingum fjölgaði ekkert á meðal íbúa Seltjarnarness og Garðabæjar á sama tímabili.
Frá lokum árs 2011 hefur erlendum ríkisborgurum sem búa innan marka Reykjavíkur fjölgað um 54 prósent. Þeir eru nú 13,4 prósent þeirra 127.220 íbúa sem búa í höfuðborginni. Fyrir sex og hálfu ári síðan voru þeir átta prósent íbúa hennar.
Næstum fjórði hver erlendur
Sú aukning kemst þó ekki nálægt því sem er að eiga sér stað í Reykjanesbæ. Þar hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað um 17 prósent það sem af er árinu 2018. Þeir voru 3.650 um áramót en eru nú 4.270.
Ástæðan er fyrst og síðast sú aukna þörf á vinnuafli sem aukin umsvif í kringum alþjóðaflugvöllinn útheimtir, en nýbirtar tölur sýna að ferðamenn sem heimsóttu Ísland voru 2,7 milljónir í fyrra. Árið 2010 voru þeir um hálf milljón.
Þessi staða hefur gert það að verkum að breytingarnar á samsetningu íbúa í Reykjanesbæ hafa orðið meiri en áður hefur þekkst í íslensku samfélagi. Í lok árs 2011 bjuggu þar 1.220 erlendir ríkisborgarar og voru 8,6 prósent íbúa sveitarfélagsins. Í dag búa 18.510 manns í Reykjanesbæ og erlendir ríkisborgarar þar eru, líkt og áður sagði, 4.270. Því eru 23 prósent íbúa Reykjanesbæjar erlendir ríkisborgarar. Það hlutfall var 20 prósent um síðustu áramót.