Ef litið er fram hjá fjármálaþjónustu hefur aðeins ein vara verið þess megnug að hafa komið af stað heimskreppu á síðustu áratugum: olía. Sömuleiðis hefur framleiðsla þessarar vöru einnig virkað sem lyftistöng fyrir ýmis lönd í langan tíma, til að mynda Ísland í núverandi uppsveiflu. Hvernig má það vera að þessi eina vara hafi svo mikið að segja í velsæld landa og hvernig mun hún hafa áhrif á heimshagkerfið á komandi misserum?
Í öllum stigum hagkerfisins
Í meginatriðum liggja tvær ástæður að baki þeim miklu sviptingum sem olían veldur í hagkerfum ýmissa landa. Annars vegar er hún mikilvæg framleiðslu á svo öðrum vörum og þjónustu og hins vegar er framleiðsla hennar tímafrek.
Olía knýr áfram flest farartæki heimsins og er því meginuppistaða í hvers kyns samgöngum og flutningum. Þar sem heimshagkerfið reiðir sig á framleiðslu á þjónustu og vörum sem eru fluttar um langar vegalengdir nær því olíuverð að hafa áhrif á verð þeirra flestra, hvort sem það eru innfluttir bananar frá Suður-Ameríku eða fiskur sem fluttur er úr landi með skipum og flugvélum. Hækkandi verð á olíu myndi því skila sér í hærra verði á fiski og banönum og bitna á neytendum þeirra.
Ásamt þvi að hafa víðtæk áhrif um allt hagkerfið er olíuverð bundið miklum sveiflum þar sem birgðirnar eru af skornum skammti og erfitt er að breyta framleiðslu á henni til skamms tíma. Uppsetning á brunnum og borpöllum kostar tíma og pening, þannig að olíufyrirtæki geta jafnan ekki brugðist skjótt við skyndilegum breytingum í eftirspurn, til dæmis þegar stríð hefjast eða viðskiptabanni er komið á.
Þar sem olíuframleiðslan er óbreytt til skamms tíma geta slíkar skyndibreytingar leitt til gríðarlegra sveiflna í verði. Þessar sveiflur skila sér svo í miklum verðbreytingum á fjölda neyslu-og útflutningsvara, en áhrif þessarra verðbreytinga á hagkerfi landanna fara eftir því hvaða vörur þau flytja inn og út.
Ríkir græða og fátækir tapa á ódýrri olíu
Hægt er að sjá hversu næm lönd eru fyrir verðbreytingum í olíuverði með því að skoða inn-og útflutning landa af olíu sem hlutfall af landsframleiðslu. Þau lönd sem reiða sig mest á útflutning olíunnar eru gjarnan þróunarlönd og nýmarkaðsríki, en Brasilía, Suður-Súdan og lýðveldið Kongó eru á toppi listans. Á hinn bóginn eru það helst smærri iðnríki sem reiða sig mest á innflutta olíu, líkt og Suður-Kórea, Singapúr og Litháen. Ef litið er til þeirra óbeinu áhrifa sem olía hefur á verð annarra vara verður munurinn enn skýrari, en þar fylgja allar innfluttar neysluvörur iðnríkjanna einnig heimsmarkaðsverði á olíu.
Þessi munur veldur miklu misræmi í efnahagsárangri ríkra og fátækra þjóða, en sýnt hefur verið fram á að verðlækkun á olíu hagnist iðnríkjum á kostnað þróunarlanda. Skýrasta dæmi um þetta er Ísland, en sú mikla lækkun sem varð á heimsmarkaðsverði olíu árið 2014 hefur verið talin meginástæða lágrar og stöðugrar verðbólgu hérlendis á síðustu árum.
Hættur sveiflunnar
Ekki er hins vegar líklegt að olíuverðið, sem enn er lægra en það var árið 2014, muni haldast lágt í framtíðinni. Í augnablikinu ríkir mikil óvissa um áhrif yfirvofandi viðskiptabanns milli Írans og margra Vesturlanda, en bannið myndi að öllum líkindum leiða til minni olíuframleiðslu og þar af leiðandi hærra verðs. Ef litið er til langs tíma er einnig ljóst að olía er af skornum skammti í heiminum og erfiðara verður að framleiða hana á næstu árum og áratugum. Olíuverð mun því líklega fara hækkandi í framtíðinni, að öllu öðru óbreyttu, og leiða til hærra og óstöðugra verðlags hjá hátekjulöndum.
Vegna eiginleika sinna er olían enn þess megnug að valda fjölþjóðlega kreppu, annað hvort í þróunarlöndum eða iðnríkjum, taki hún miklar sveiflur. Reynt hefur verið að draga úr þessum fjölþjóðlegu sveiflum á heimsvísu með olíusamráðshópnum OPEC, en yfirlýst markmið hans er að viðhalda stöðugu verðlagi á olíu. Árangur OPEC er hins vegar umdeildur, en frá stofnun hópsins árið 1960 hefur heimsmarkaðsverðið á olíu haldist óstöðugt og valdið mörgum efnahagskreppum.
Tvær flugur í einu höggi
Önnur leið til að draga úr kreppuáhrifum olíuframleiðslu væri með því að draga úr vægi hennar í efnahagskerfinu. Þar myndi aukin notkun annars konar orkugjafa fyrir farartæki vega hæst, en það er einmitteitt af markmiðum núverandi ríkisstjórnar. Bann við notkun á einnota plastpokum sem búnir eru til á olíu er einnig önnur leið til að draga úr eftirspurn á olíu, en nú í vikunni var tilkynnt að Nýja-Sjáland muni bætast í hóp rúmlega 40 landa sem hafa slíkt bann í gildi.
Þrátt fyrir að flestar þessara aðgerða eru framkvæmdar af loftslags-og umhverfisástæðum er ekki síður mikilvægt að gera sér grein fyrir efnahagslegum ávinningi af því að reiða sig minna á olíu. Minni notkun allra vara sem tengdar eru framleiðslu olíunnar myndu því að öllum líkindum slá tvær flugur í einu höggi: Plánetan yrði hreinni og heimshagkerfið stöðugra.