Framlag Kjarnans á árinu 2015
Kjarninn er fimm ára í vikunni. Af því tilefni verður rifjað upp það helsta sem hann hafði til málanna að leggja á hverju því starfsári sem hann hefur verið til, á hverjum degi í þessari viku. Í dag er farið yfir árið 2015.
Föstudaginn 23. janúar 2015 skapaðist athyglisvert ástand á Íslandi. Kvöldið áður hafði maður sem hafði misst fyrirtækið sitt í hendur banka, Víglundur Þorsteinsson, sent frá sér gögn til þingmanna og fjölmiðla sem hann sagði sýna fram á að stjórnmálamenn, embættismenn og eftirlitsaðilar hafi af óbilgirni framið stórfelld lögbrot og beitt blekkingum til að hafa 300-400 milljarða króna af íslenskum heimilum og fyrirtækjum. Þetta fé hafi þess í stað runnið til kröfuhafa.
Rökstuðningur Víglundar var sá að bráðabirgðamat Fjármálaeftirlitsins á eignum sem fluttar voru úr þrotabúum föllnu bankanna ætti að vera endanlegur úrskurður um virði þeirra.
Málflutningur Víglundar er vel þekktur, enda var þetta í þriðja sinn sem hann steig fram og bar hann á borð. Hann hélt hins vegar ekki vatni, líkt og kom fram í umfjöllun Kjarnans um málið.
Illugi Gunnarsson komst í vandræði þegar upp komst að hann hefði þegið fjárstuðning frá Hauki Harðarsyni, stjórnarformanni Orku Energy. Í honum fólst að Haukur keypti íbúð Illuga af honum og leigði honum hana síðan aftur auk þess sem Illugi hafði starfað sem ráðgjafi hjá Hauki. Þetta fjárhagslega hæði var tortryggt vegna þess að Illugi tók Hauk með í opinbera heimsókn til Kína í mars 2015 og opnaði fyrir honum viðskiptalegar dyr. Illugi hefur ætið þvertekið fyrir að hafa gert nokkuð óeðlilegt.
Samhliða gríðarlegri fjölgun ferðamanna jókst þrýstingur á stefnumótun og gjaldtöku á ferðamannastöðum til uppbyggingar. Ragnheiður Elín Árnadóttir lagði fram frumvarp um náttúrupassa sem vakti mjög harða gagnrýni víðast hvar, og svo fór að ákveðið var að málið færi ekki lengra, enda enginn stuðningur við aðferðina.
ESB og fjárkúgun
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra greindi frá því í mars að hann hefði afhent utanríkisráðherra Lettlands bréf um að ríkisstjórnin liti svo á að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki að Evrópusambandinu. Málið var gríðarlega umdeilt og samkvæmt könnun Fréttablaðsins var mikill meirihluti Íslendinga ósáttur við framgöngu Gunnars Braga. ESB leit svo á að þetta væri ekki formleg afturköllun og stjórnarandstaðan sendi eigið bréf og sagði það Alþingis að taka ákvörðun af þessu tagi.
Í byrjun júní voru systur á fertugsaldri eru handteknar í úthverfi Hafnarfjarðar fyrir að reyna að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra. Önnur var fyrrverandi ástkona umsvifamikils fjölmiðlaeiganda sem á sér langa pólitíska forsögu. Þær ætluðu að notfæra sér upplýsingar sem áttu að sýna fram á að forsætisráðherrann hefði tekið þátt í fjármögnun á kaupum á fjölmiðli án þess að slík kaup væru gerð opinber, til að hafa af forsætisráðherranum átta milljónir króna. Þetta hljómar eins kvikmyndahandrit, en var íslenskur veruleiki. Og Kjarninn gerði honum skilmerkilega grein í ítarlegum fréttaskýringum.
Um svipað leyti kynntu stjórnvöld áætlun sína um losun hafta. Hún byggði á því að slitabúum föllnu bankanna var gefin kostur á því að semja um að greiða stöðugleikaframlag gegn því að klára nauðasamninga sína eða fá á sig 39 prósent stöðugleikaskatt. Eftir að kynningunni lauk kom í ljós að öll slitabúin höfðu þegar samið um að ljúka málinu með greiðslu stöðugleikaframlags.
Skráning Símans og menningarlegur rasismi
Ákveðið var að skrá Símann á markað í október 2015. Kjarninn greindi frá því að áður fengu tveir hópar að kaupa hlut á lægra verði en bauðst í útboðinu. Annar hópurinn var samansettur af helstu stjórnendum Símans og fjárfestum sem þeir tengdu saman. Þeir fengu að kaupa á gengi sem var um þriðjungi lægra en útboðsgengið.
Þá fengu valdir vildarviðskiptavinir Arion banka að kaupa á lægra verði líka. Bankinn viðurkenndi að gagnrýni á sölu til vildarviðskiptavina hefði verið réttmæt en stóð með ákvörðuninni að selja stjórnendahópnum.
Í íslenskri stjórnmálaorðræðu má tvímælalaust greina sterkan menningarlegan rasisma. Þetta var niðurstaða rannsóknar sem gerð var við Háskólann á Bifröst og Kjarninn greindi einn fjölmiðla frá. Þar ber helst að nefna moskumálið, hugmyndir Ásmundar Friðrikssonar um bakgrunnsrannsókn á múslimum og umræðuna í kringum skipan Gústafs Níelssonar í mannréttindaráð Reykjavíkur. Árið 2015 var árið þar sem opinber umræða um útlendinga, innflytjendur, fjölmenningu og alþjóðasamskipti náði nýjum hæðum. Og Kjarninn tók samstundis forystu í þeirri umræðu.
Á árinu komst umræða um sæstreng til Bretlands á flug og ákváðu David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra að skipa vinnuhóp til að taka út möguleika þeirrar framkvæmdar. Landsvirkjun hafði auk þess staðið í samningaviðræðum við Norðurál um endurnýjun raforkusamnings og mikill þrýstingur hefur skapast á fyrirtækið að selja orkuna áfram á lágu verði til að verja störf, meðal annars frá verkalýðsfélagi og Samtökum Iðnaðarins. Forstjóri Landsvirkjunar, sagði á þessum tíma að aukin arðsemi fyrirtækisins sé eitt mesta efnahagslega hagsmunamál íslensku þjóðarinnar. Kjarninn tók virkan þátt í umræðu um þetta mikilvæga hagsmunamál og stóð meðal annars fyrir opnum fundi um lagningu strengsins.
Trú og loftlagsmál
Í október var birt könnun sem sýndi að mikill meirihluti þjóðarinnar er fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju. Alls voru þá tæplega 90 þúsund Íslendingar utan þjóðkirkjunnar. Á árinu komst samvisufrelsi presta til að meina samkynhneigðum um giftingu í umræðuna og var á endanum bannað. Aukin framlög til kirkjunnar voru einnig gagnrýnd mjög og Ólöf Nordal, þá innanríkisráðherra, opnaði á að taka öll samskipti ríkis og kirkju upp. Svo náðu Zúistar, trúfélag sem ætlaði að endurgreiða öll sóknargjöld, í yfir 3.000 fylgjendur. Kjarninn var leiðandi í umfjöllun um þessi mál á árinu 2015.
Í sama mánuði greindi Kjarninn frá því að félag í eigu Árna Harðarsonar, stjórnarmanns og lögmanns lyfjafyrirtækisins Alvogen, ætti um 60 prósent þeirra hlutabréfa sem voru að baki hópmálsókn gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni. Árni átti hlutabréfin, sem hann hafði keypt af islenskum lífeyrissjóðum í vikunni á undan, í gegnum félag sem heitir Urriðahæð ehf. Samtals greindi Árni á milli 25 til 30 milljónir króna fyrir hlutabréfin, sem voru verðlaus nema að til tækist að fá viðurkennt fyrir dómstólum að Björgólfur Thor ætti að greiða fyrrum hluthöfum Landsbankans skaðabætur. Til viðbótar þurfti Urriðhæð að greiða sinn hluta málskostnaðar.
Árni er nánasti samstarfsmaður Róberts Wessmans. Þeir störfuðu áður báðir hjá Actavis, á meðan að Björgólfur Thor var aðaleigandi þess fyrirtækis. Síðan að Árni og Róbert hættu störfum hjá Actavis árið 2008 hefur andað verulega köldu milli þeirra og Björgólfs Thors. Hann hafði meðal annars stefnt þeim til greiðslu skaðabóta fyrir meintan fjárdrátt auk þess sem báðir aðilar höfðu ítrekað atyrt hinn á opinberum vettvangi á undanförnum árum.
Málinu var á endanum vísað frá.
Sögulegt samkomulag um loftslagsmál náðist í París um miðjan desember. Er þetta víðtækasta alþjóðasamkomulag sem gert hefur verið enda samþykktu það nær öll ríki heims. Sameiginlegt markmið ríkjanna sem skrifuðu undir er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hægja á hlýnun jarðar. Um er að ræða markmið næstu áratuga en margt er þó enn óráðið; munu ríkin innleiða markmið sín um minni losun? Er hlýnun jarðar innan við tvær gráður raunhæft markmið? Ísland samdi með Evrópusambandinu og Noregi og mun semja um hlutdeild sína í samkomulaginu á nýju ári. Kjarninn var á staðnum.
Blaðamannaverðlaun fyrir umfjöllun um Borgun
Kjarninn hafði opnað hið svokallaða Borgunarmál seint á árinu 2014. Umfjöllun um það hélt áfram af miklum krafti á árinu 2015 og Magnús Halldórsson, blaðamaður Kjarnans, var tilnefndur til Blaðamannaverðlauna Íslands fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins fyrir ítarlega umfjöllun um sölu á hlutum Landsbankans í Borgun í lokuðu söluferli og vísbendingar um að hlutur Landsbankans hafi verið seldur á undirverði m.a. í ljósi aðgreiðslna og því hafi ekki verið gætt að hagsmunum eigenda sem er almenningur í landinu.
Magnús hlaut verðlaunin snemma árs 2016.