Upphaf Skindbuksen, í kjallaranum á Lille Kongensgade 4 við Kóngsins Nýjatorg, má rekja til þess að á efri hæð hússins var veitingastaðurinn Grand Café sem þótti bæði fínn og virðulegur. Í kjallaranum var bar og veitingastaður,einskonar útibú frá veitingastaðnum, sýnu alþýðlegra. Meðal viðskiptavina voru vagnmenn (kúskar, droskekuskere) sem fluttu farþega, á hestvögnum, milli staða líkt og leigubílstjórar nútímans. Milli ferða fengu þeir sér hressingu í kjallaranum sem fékk nafnið Kúskakjallarinn (Droskekælderen). Þegar sjálfrenningarnir (eins og opnir bílar voru fyrst kallaðir) leystu hestvagnana af hólmi breyttist nafnið í Bílstjórakjallarann. Bílstjórarnir klæddust iðulega skinnbuxum og árið 1930 var nafni staðarins breytt í Skindbuksen.
Vinsæll meðal Íslendinga
Margar sögur, sannar og ósannar, eru til um veru Íslendinga í Kaupmannahöfn fyrr á tímum. Í frásögnum koma vertshúsin á svæðinu kringum Kóngsins Nýjatorg mjög við sögu. Stephan a Porta, Hviids vinstue, Pedrini, Pleisch, Genelli og Skindbuksen. Íslendingar gáfu þessum stöðum íslensk nöfn; Mjóni (eftir veitingamanninum Mini) Hvítur, Pétur drengur, Blesi, Njáll og Brókin. Flestir þessara staða heyra nú sögunni til, ef frá eru taldir Hvítur og Brókin. Í minningum Íslendinga, einkum frá 18. og 19. öld eru þessir tveir ásamt Mjóna fyrirferðarmestir. Brókin var frá upphafi bæði bar og matsölustaður. Þótt enginn væri matseðillinn vissu fastagestir alltaf hvað var á boðstólum, ekki bara í dag heldur líka á morgun. Með því að skoða matseðil Grand Cafe, á efri hæðinni, var ætíð hægt að reikna út hvað „gefið yrði á garðann á Brókinni daginn eftir“ (orðalag Björns Th. Björnssonar í bók hans um Kaupmannahöfn). Biksemad, með spæleggi hefur í áratugi verið einn vinsælasti og ódýrasti réttur staðarins og svo er enn, kostaði, þegar skrifari þessa kíkti á matseðilinn fyrir skömmu kr. 129.- ( 2.170.- íslenskar).
Griðastaður listamanna
Vinsældir Brókarinnar hafa í gegnum árin ekki verið bundnar við Íslendinga. Staðurinn hefur notið mikilla vinsælda listamanna, sem þar hafa „rætt málin og farið yfir sviðið“ eins og yfirþjónn staðarins komst að orði í blaðaviðtali fyrir nokkru. Veggi og loft veitingasalarins prýða fjölmargar myndir, sumar málaðar beint á steininn. Þar má sjá andlitsmyndir fjölmargra þekktra danskra listamanna og framámanna í dönsku menningarlífi, blaðamanna, og Íslendinga. Í áðurnefndu viðtali sagði yfirþjónn staðarins að stundum hefðu listamenn, með létta pyngju, boðið mynd sem greiðslu fyrir veitingarnar. Meðal Íslendinga sem héldu tryggð við Brókina og sátu þar tíðum var Alfreð Flóki og ljósmynd af honum hefur árum saman hangið þar á vegg.
Gamalt norrænt eldhús
Á undanförnum tveimur áratugum hefur hinum gömlu dönsku veitingastöðum sem bjóða uppá það sem sumir kalla gamaldags mat fækkað nokkuð. Hakkabuff, purusteik, áðurnefndur biksimatur og fleira af því tagi naut skyndilega ekki sömu vinsælda og áður. Pizzur og pasta ásamt margs konar skyndibita komu í staðinn. Svo kom „nýja norræna eldhúsið“. Staðir eins og Brókin þóttu gamaldags, höfðu ekki aðlagað sig breyttum tímum var gjarna sagt. Títtnefndur yfirþjónn á Brókinni sagði í viðtali við dagblaðið Politiken að þar á bæ hefðu menn hugsað sér að halda sig við „gamla norræna eldhúsið“ eins og hann kallaði það. Án þess að gert sé lítið úr öllu því nýja hefur það gamla sótt í sig veðrið á nýjan leik, ekki síst „smørrebrauðsstaðirnir“ sem um skeið voru orðnir mjög fáir í Kaupmannahöfn, og víðar í Danmörku.
Miklar breytingar í miðborg Kaupmannahafnar
Á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar á miðborg Kaupmannahafnar. Margar gamalgrónar verslanir hafa lagt upp laupana, ekki síst á Strikinu. Í staðinn hafa komið útibú verslana sem finna má nánast í hvaða borg sem er. Sama gildir um matsölustaðina. Fyrir nokkrum árum var til dæmis veitingastaðnum Stephan a Porta (Mjóna), elsta kaffihúsi Kaupmannahafnar lokað og þar er nú McDonalds hamborgarastaður.
Mörgum hugnast ekki breytingar af þessu tagi, segja að með allri „alþjóðavæðingunni“ hverfi sérstaðan. Útlendingar komi ekki til Danmerkur til að setjast inn á fjölþjóðlega hamborgarastaði eða skoða úrvalið í verslunum, sem séu þær sömu og heima hjá þeim.
Ferðamönnum hefur fjölgað mjög á síðustu árum í Kaupmannahöfn og það hefur orðið til þess að verð á húsnæði í miðborginni hefur hækkað mikið. Eignamenn og stöndug fyrirtæki sækjast í auknum mæli eftir að komast yfir húseignir og freistingin þegar vel er boðið er því mikil fyrir þá sem eiga húsnæði í miðborginni. Lille Kongensgade, sem liggur frá Kóngsins Nýjatorgi, við hlið Magasin du Nord, er ein þeirra gatna sem eignamenn hafa beint sjónum sínum að. Húsalengjan sem Brókin er hluti af, er nú nánast öll í eigu eins athafnamanns, eða fyrirtækis í hans nafni. Þessi maður hefur lengi rennt hýru auga til kjallarans sem hýsir Brókina og Hvít en þessir stað eru hlið við hlið.
Fram til þessa hafa eigendur þessara tveggja staða ekki ljáð máls á því að selja þrátt fyrir mikinn þrýsting.
Lok lok og læs á Brókinni
Eins nefnt var í upphafi þessa pistils komu gestir að lokuðum dyrum á Brókinni í byrjun liðinnar viku. Fljótlega spurðist út að nú hefði eigandinn húsnæðisins (reksturinn var í annarra höndum) hreinlega látið undan og væri búinn að selja áðurnefndum athafnamanni og starfsemin þess vegna stöðvast. Einn starfsmanna veitingastaðarins sagði í viðtali að hann hefði átt í viðræðum við eiganda húsnæðisins um kaup á því en athafnamaðurinn greinilega boðið betur.
Enginn veit hvað verður
Á þessari stundu veit enginn hvað verður. Athafnamaðurinn, núverandi eigandi Brókarinnar, hafði í viðtölum fyrr á árinu gefið í skyn að ef hann eignaðist húsnæðið yrðu breytingar. Hann vildi þó lítið segja í hverju þær breytingar gætu falist. Dagblaðið Politiken greindi hins vegar frá því fyrir nokkrum dögum að hinn nýi eigandi hefði tjáð blaðamanni að staðurinn yrði að sjálfsögðu áfram til og rekinn með sama sniði og áður. Samningar við starfsfólk væru í vinnslu og þegar þeir yrðu frágengnir yrði opnað á ný. Eigandinn sagði að eina breytingin sem til stæði væri betri loftræsting. Blaðamaður Politiken sagði að vonandi yrði ný loftræsting ekki til þess að eyðileggja andrúmsloftið á staðnum.