Laun- og launatengdur kostnaður Kaupþings ehf., félags sem stofnað var um eftirstandandi eignir hins fallna banka, jókst um einn milljarð króna í fyrra þrátt fyrir fyrir að starfsfólki hefði fækkað úr 30 í 19 á árinu. Alls nam kostnaður félagsins 2,6 milljörðum króna á árinu 2017. Þar af fóru 544 milljónir króna til stjórnar og helstu stjórnenda. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Kaupþings.
Í stjórn Kaupþings í lok árs voru Allan Jeffrey Carr, Paul Copley, Óttar Pálsson, Benedikt Gíslason og Piergiorgio Lo Greco. Copley er einnig framkvæmdastjóri Kaupþing.
Til viðbótar fengu utanaðkomandi ráðgjafar greidda tæplega 4,3 milljarða króna í fyrra. Það er um 700 milljónum krónum minna en árið áður.
Vilja ekki upplýsa um bónusgreiðslur
Greint var frá því fyrir tveimur árum síðan að um 20 manna hópur lykilstarfsmanna Kaupþings gæti fengið allt að 1,5 milljarða króna til að skipta á milli sín ef hámörkum á virði óseldra eigna Kaupþings myndi nást. Næðust markmiðin átti að greiða út bónusgreiðslurnar eigi síðar en í apríl 2018.
Langstærsta óselda eign Kaupþings á þeim tíma var 87 prósent hlutur félagsins í Arion banka, sem nú hefur verið að stórum hluta seld og það sem eftir stendur gert seljanlegt með skráningu á markað. Umræddar bónusgreiðslur ná einungis til starfsmanna Kaupþings, ekki stjórnarmanna og ráðgjafa sem unnið hafa fyrir félagið. Greiðslur til þeirra koma til viðbótar því sem greiðist til starfsmanna.
Kaupþing hefur ekki viljað upplýsa um hvort búið sé að greiða bónusanna út né hver áætluð heildargreiðsla sé.
Vogunarsjóðir allsráðandi
Sjóðir tengdir sjóðstýringarfyrirtækinu Taconic Capital eru langstærstu eigendur Kaupþings ehf. Samanlagt eiga þeir 45,6 prósent hlut í félaginu.
Stærsta eftirstandandi eign Kaupþings er 32,67 prósent hlutur í Arion banka. Taconic Capital á líka beint tíu prósent hlut í Arion banka og skipaði nýverið Benedikt Gíslason sem fulltrúa sinn í stjórn bankans.
Næst stærsti eigandi Kaupþings er sjóðurinn Sculptor Investments s.a.r.l. sem er tengt Och-Ziff sjóðsstýringarfyrirtækinu. Och-Ziff á líka 6,58 prósent hlut beint í Arion banka. Þriðji stærsti eigandinn eru sjóðir tengdir CCP Credit Aquisition með samtals 9,3 prósent eignarhlut og fjórði stærstir eru sjóðir í stýringu Attestor Capital, sem er líka einn stærsti eigandi Arion banka með 8,86 prósent beinan eignarhlut.
Samtals eru eiga tíu stærstu eigendur Kaupþings 90,6 prósent hlut í félaginu. Í þeim hópi eru vogunarsjóðir langstærstir en þar er líka að finna eignarhluti sem haldið er á í gegnum sjóði eða útibú stórbanka á borð við JP Morgan og Deutsche Bank. Þá á slitabú Kaupthing Singer & Friedlander 3,2 prósent hlut.
Wintris á meðal eigenda
Alls eru hluthafar 595 talsins. Af öðrum þekktum eigendum Kaupþings má nefna Wintris, félag í eigu Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins. Eignarhlutur Wintris er mjög lítill og byggir á kröfum sem félagið lýsti í þrotabú Kaupþings.
Alls voru eignir Kaupþings metnar á 233,1 milljarð króna í lok árs 2016 og höfðu þá lækkað úr 409,7 milljörðum króna árið áður, m.a. vegna þess að Kaupþing greiddi inn á skuldabréf við íslenska ríkisins sem var hluti af stöðugleikaskilyrðunum sem félagið þurfti að uppfylla.