Samfylkingin mælist með 19,3 prósent fylgi samkvæmt nýjustu könnun Gallup, sem gert er grein fyrir á vef RÚV í dag. Það er mesta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með frá því í desember 2014, þegar fylgi flokksins mældist 20,3 prósent.
Í nýjustu könnuninni munar einungis 3,4 prósentustigum á Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki, sem mælist sem fyrr stærsti flokkur landsins. Fylgi hans mælist nú 22,7 prósent og hefur ekki mælst lægra á kjörtímabilinu í könnunum.
Þeir fimm flokkar sem mynda stjórnarandstöðuna mælast nú með samtals 56,3 prósenta fylgi en stjórnarflokkarnir með 42,6 prósent. Það er mikill viðsnúningur frá því sem var í síðustu kosningum, þegar stjórnarflokkarnir fengu 52,9 prósent fylgi og 35 þingmenn en stjórnarandstaðan 28. Ef kosið yrði í dag myndi stjórnarandstaðan líkast til fá 35-36 þingmenn en stjórnarflokkarnir þrír 27-28 , sem myndi ekki duga til að mynda meirihlutastjórn. Stuðningur við ríkisstjórnina fór í fyrsta sinn undir 50 prósent í könnun Gallup sem birt var í lok júlí og helst þar í nýjustu könnuninni. Skömmu eftir að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við mældist stuðningur við hana 74,1 prósent.
Þrír flokkar taka fylgið til sín
Skipta má stjórnarandstöðunni í tvennt. Annars vegar eru Samfylkingin, Viðreisn og Píratar sem skilgreina sig sem frjálslynda miðjuflokka, þótt áherslumunur sé á ýmsum málum þeirra á milli. Þessi stjórnarandstöðublokk hefur verið að styrkjast mikið samkvæmt könnunum og mælist nú með samanlagt 41,9 prósent fylgi. Þar er Samfylkingin stærst með 19,3 prósent og bætir við sig 2,6 prósentustigum milli kannana, Píratar mælast með 12,5 prósent en tapa 1,4 prósentustigi og Viðreisn myndi fá 10,1 prósent atkvæða ef kosið væri í dag, sem er 1,4 prósentustigi meira en flokkurinn mældist með fyrir mánuði síðan. Þessir þrír flokkar hafa bætt við sig 13,9 prósentustigum frá kosningunum sem fóru fram í október 2017 og eru einu flokkarnir sem eiga sæti á Alþingi sem mælast með meira fylgi í dag en þeir fengu þá.
Báðir flokkarnir unnu mikinn kosningasigur í fyrrahaust og fengu þá samtals 17,8 prósent fylgi. Ef kosið yrði í dag myndu þeir hins vegar fá 14,4 prósent.
Vinstri græn rétta aðeins úr kútnum
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa allir tapað fylgi frá síðustu kosningum. Vinstri græn rétta hins vegar aðeins úr kútnum í nýjustu könnun Gallup og mælast nú með 11,7 prósent fylgi. Í könnuninni sem birt var í lok júlí mældist fylgið einungis 10,7 prósent sem var það minnsta sem Vinstri græn, flokkur forsætisráðherrans, hafði mælst með frá því í árslok 2015. Flokkurinn er þó enn langt frá kjörfylgi sínu, sem var 16,9 prósent og gerði hann að næst stærsta flokki landsins á þeim tíma.
Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem tapar mestu milli kannana, eða 1,9 prósentustigi. Það er einnig umtalsvert lægra en þau 25,3 prósent sem hann fékk í kosningunum fyrir um tíu mánuðum síðan. Ef fylgið sem Sjálfstæðisflokkurinn mælist með í dag yrði niðurstaða kosninga þá væri það versta niðurstaða flokksins frá upphafi.
Framsóknarflokkurinn tekur líka dýfa úr 9,2 prósentum í 8,2 prósent milli kannana. Flokkurinn fékk 10,7 prósent í kosningunum í október 2017.