Kalifornía, fjölmennasta ríkið Bandaríkjanna með 40 milljónir íbúa og sem er jafnframt sjöunda stærsta hagkerfi heimsins, hefur ákveðið að skylda öll skráð félög í ríkinu til að vera með konu í stjórn frá og með 31. desember 2019 og þarf hlutfall kvenna að vera komið í 40 prósent fyrir árslok 2021 eða á næstu rúmu þremur árum.
Kalifornía er með þessu fyrsta ríki Bandaríkjanna til að skylda skráð félög til að vera með konur í stjórn. Í umfjöllun fréttavefs Harvard Law School segir að Kalifornía hafi til þessa verið eftirbátur annarra ríkja en meðtal kvenna sem sitja í stjórnum skráðra félaga í Bandaríkjunum 1,75 og er þar miðað við alla stjórnarmenn en algengt er í Bandaríkjunum að stjórnarmenn skráðra félaga séu 11 talsins.
Þetta var ákveðið 30. ágúst síðastliðinn og lét einn af talsmönnum þessa máls meðal þingmanna ríkisins, Hannah Beth Jackson, hafa eftir sér að málið væri afar mikilvægt. „Þetta er ekki aðeins hið rétta að gera, heldur er þetta líka gott fyrir fyrirtækin,“ sagði Jackson eftir að málið hafði verið samþykkt. Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu, segir að fjársektum verði beitt gagnvart þeim félögum sem ekki munu fara eftir reglunum.
Í umfjöllun The Economist segir að fyrirtækin í ríkinu séu ekki svo sannfærð um að þetta sé rétt stefna, og eru fyrirtæki sum hver sögð vera að íhuga mótmæli og aðgerðir gegn þessari stefnu ríkisins. Þau eru sögð mótfallin þessu, þar sem þau vilja ekki að hið opinbera setji reglur um þessi mál.
Á Íslandi er lagaskylda á félögum að konur séu í það minnsta 40 prósent stjórnarmanna.