Hagsmunavörðum, á ensku „lobbyistar“, sem eiga samskipti við stjórnmálamenn og stjórnsýslu verður gert að skrá sig sem slíka, hagsmunaskráning ráðherra verður útvíkkuð til maka og ólögráða barna og reglur verðar settar um starfsval eftir opinber störf sem koma eiga í veg fyrir að „starfsfólk stjórnsýslu eða kjörnir fulltrúar gangi inn í störf hjá einkaaðilum vegna aðgangs að upplýsingum úr opinberu starfi“.
Þetta er á meðal þess sem verður að veruleika ef þær 25 tillögur sem starfshópur um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu, sem skipaður var í upphafi árs, verða innleiddar. Skýrsla hópsins var kynnt í ríkisstjórn í gær og gerð opinber í dag.
Hópurinn var skipaður í byrjun janúar síðastliðins. Þá kom fram að hann ætti meðal annars að taka mið af starfi sem unnið hefur verið í tengslum við opinber heilindi hérlendis og erlendis, til dæmis væntanlegri fimmtu úttektarskýrslu GRECO, sem fjallar meðal annars um vernd gegn spillingu meðal æðstu handhafa framkvæmdavalds. Hann átti að skila af sér í síðasta lagi 1. september, sem var síðasta laugardag.
Traust á Alþingi hefur þokast upp á við undanfarið og mælist nú 29 prósent. Það er mesta traust sem mælst hefur gagnvart löggjafarþinginu í áratug.
Siðareglur endurskoðaðar
Tillögur hópsins skiptast í átta meginsvið og um er að ræða, líkt og áður sagði, 25 einstakar tillögur. Á meðal þess sem hópurinn leggur til er að ríkisstjórnin setji fram stefnuskjal sem lýsi markmiðum hennar um heilindi, svokallaðan heilindaramma. Hann á að mótast af þeim atriðum sem fjallað verður um hér að neðan.
Lagt er til að siðareglur ráðherra verði endurskoðaðar, að slíkar verði settar fyrir aðstoðarmenn ráðherra og mögulega fleiri hópa innan stjórnsýslunnar, að gagnsæi verði aukið, miðlun upplýsinga verði bætt og upplýsingaréttur almennings styrktur, meðal annars með því að stytta afgreiðslutíma úrskurðarnefndar um upplýsingamála og ráðast í heildarstefnumótun til almennings, þar með talin upplýsingagjöf handhafa dómsvalds og löggjafarvalds.
Staða „lobbyista“ gjörbreytist
Þá er lagt til að reglur um hagsmunaskráningu ráðherra muni ná til fleiri þátta, meðal annars skulda og að hún taki einnig til maka og ólögráða barna ráðherrans.
Ein stærsta breytingin sem hópurinn leggur til snýr að samskiptum stjórnmála og stjórnsýslu við aðila sem stunda hagsmunavörslu, sem á ensku kallast „lobbyism“. Í tillögum hópsins er lagt til að þeir aðilar sem „hafa atvinnu af því að tala máli hagsmunaaðila gagnvart stjórnmála- og embættismönnum verði gert að skrá sig sem hagsmunaverði (e. lobbyist)“. Þá er lagt til að reglur verði settar um hvernig samskiptum við hagsmunaaðila verði háttar til að tryggja fullt gagnsæi um samskiptin.
Aðgengi hagsmunavörsluafla, t.d. hagsmunasamtaka einstakra starfsstétta, að stefnumótun og frumvarpsgerð innan stjórnsýslunnar hefur lengi þótt, í sumum tilvikum, í besta falli á gráu svæði.
Reglur um starfsval eftir opinber störf
Mikla athygli vekur síðan tillaga um að setja þurfi reglur um „starfsval eftir opinber störf sem koma í veg fyrir að starfsfólk stjórnsýslu eða kjörnir fulltrúar gangi inn í störf hjá einkaaðilum vegna aðgangs að upplýsingum úr opinberu starfi. Slíkar reglur varða einkum tíma sem nauðsynlegt er að líði frá starfslokum og þar til starf fyrir einkaaðila hefst.“ Engar reglur eru sem stendur í gildi hérlendis um starfsval í kjölfar starfa fyrir hið opinbera.
Í skýrslunni segir að hætta sé „annars vegar á hagsmunaárekstrum; að hagsmunir verðandi vinnuveitanda geti haft áhrif á ákvarðanir á meðan einstaklingur starfar enn fyrir hið opinbera. Hins vegar er sá möguleiki fyrir hendi að upplýsingar sem viðkomandi öðlast í starfi sínu séu nýttar á ótilhlýðilegan hátt í þágu einkaaðila þegar skipt er um starfsvettvang, en slíkt getur bæði haft ólögmæt áhrif á samkeppni og gengið gegn opinberum hagsmunum.“
Fjölmörg dæmi er um það að einstaklingar hafi farið úr trúnaðarstörfum í stjórnmálum og hafið störf fyrir hagsmunaaðila. Nægir þar að nefna Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og forseta Alþingis, sem er í dag stjórnarformaður og helsti talsmaður Landssambands fiskeldisstöðva, Katrínu Júlíusdóttir, sem var fjármálaráðherra en hóf störf sem framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja þegar hún hætti í stjórnmálum, og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sem var menntamálaráðherra, en starfaði sem forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins á meðan að á pólitískri útlegð hennar stóð.
Þá eru dæmi eru um að einstaklingar hafi farið úr störfum fyrir hið opinbera þar sem þeir höfðu miklar trúnaðarupplýsingar undir höndum, og í störf fyrir aðra hagsmunaaðila sem hafa gagnstæða hagsmuni en hið opinbera í sama málaflokki. Skýrasta dæmi þess var þegar Benedikt Gíslason, sem var lykilmaður í framkvæmdarhópi um afnám hafta og kom að gerð stöðugleikasamninga við kröfuhafa föllnu bankanna, réð sig til starfa sem ráðgjafi hjá Kaupþingi. Benedikt hefur þó ætið fullyrt að hann hafi ekki nýtt sér trúnaðarupplýsingar í því starfi.
Löggjöf til að vernda uppljóstrara
Hópurinn leggur líka til að heildstæð löggjöf verði unnin sem fyrst um uppljóstraravernd fyrir opinbera starfsmenn og einkageirann. Þar væri hægt að taka mið af nýlegri löggjöf í Noregi.
Stjórnvöld ættu að auka samráð við almenning og setja sé skýr markmið þar um. Auk þess er lagt til að samráðsgátt stjórnvalda verði efld og hún kynnt betur. „Stjórnvöld leggi sig fram um að nýta hugbúnað og veflausnir til að auka þátttöku almennings og stefni að því að Ísland verði í hópi þeirra landa sem fremst standa í nýsköpun á sviði lýðræðis,“ segir í skýrslunni. Hópurinn vill líka að Ísland sæki um Open Government Partnership í samvinnu við félagasamtök og að unnið verði að því að styrkja borgaralegan vettvang t.d. með föstum styrkjum til félagasamtaka sem uppfylla tiltekin skilyrði um starfsemi og skipulag.
Siðfræðistofnun annist eftirfylgni og fái fjárveitingu til þess
Starfshópurinn vill að símenntun starfsfólks verði efld, fræðsla verði aukin og að stuðlað verði að því að efla gagnrýna umræðu innan stjórnsýslunnar þar sem „slík umræða er forsenda þess að ráðuneyti og einstakar starfseiningar beri kennsl á brotalamir í starfseminni til að hægt sé að breyta stofnanamenningu þegar nauðsyn krefur.“
Þá verði sett á fót „nefnd eða eining innan stjórnsýslunnar með það sérhæfða hlutverk að veita einstökum starfsmönnum, þ.m.t. ráðherrum, ráðgjöf í trúnaði um siðferðileg álitamál.“
Starfshópinn skipuðu Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, sem jafnframt var formaður hópsins, Ólöf Embla Eyjólfsdóttir, MSt í heimspeki, Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti, Ragna Árnadóttir, lögfræðingur og Sigurður Kristinsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Með hópnum starfaði Oddur Þorri Viðarsson, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu.