Hluthafar í HB Granda, sem Kjarninn hefur rætt við, vilja að utanaðkomandi aðilar verði fengnir til að meta virði Ögurvíkur ehf. áður en að gengið verði frá kaupum á félaginu. Tilkynnt var um það eftir lokun markaða á föstudag að HB Grandi hefði gert samkomulag um að kaupa Ögurvík á 12,3 milljarða króna.
Það sem er sérstakt við kaupin er að núverandi eigandi Ögurvíkur, Brim hf., er líka stærsti eigandi HB Granda með 35 prósent eignarhlut. Guðmundur Kristjánsson, eigandi Brim, settist auk þess nýverið í forstjórastól HB Granda. Með samkomulaginu er væri HB Grandi því að kaupa eign af stærsta eiganda sínum, sem er í eigu forstjóra félagsins.
Í gær var send út tilkynning til Kauphallar þar sem greint var frá því að boðað hafi verið til stjórnarfundar í HB Granda næstkomandi fimmtudag þar sem fjallað verður um samkomulagið, en stjórn og hluthafafundur félagsins þurfa að samþykkja það áður en hægt verður að ganga frá kaupunum.
Lífeyrissjóðir eiga stóran hlut í HB Granda
Stærstu eigendur HB Granda, að Brim frátöldu, eru íslenskir lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóður verzlunarmanna á 13,66 prósent hlut, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins á 9,94 prósent hlut, Gildi lífeyrissjóður á 8,62 prósent hlut og Birta lífeyrissjóður á 8,62 prósent hlut.
Viðskiptin eru einnig háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Til stendur að fjármagna kaupin með eigin fé og lánsfjármagni.
Hár margfaldari á eigið fé
Kjarninn greindi frá því á mánudag að samkvæmt ársreikningi Ögurvíkur fyrir árið 2017 þá hafi hagnaður félagsins numið 37 milljónum króna. Það hagnaðist hins vegar um 485 árið 2017. Félagið var með 747 milljónir í eigið fé í lok árs. Eignir námu 6,25 milljörðum króna en skuldir 5,5 milljörðum króna. Þar af voru langtímaskuldir í erlendri mynt, 4,8 milljarðar króna.
Verðmiðinn sem tilkynnt var um til kauphallar er því 16,4 sinnum eigið fé félagsins, miðað við stöðuna eins og hún var í lok árs í fyrra.
Til samanburðar er verðmiðinn á HB Granda nú 56,5 milljarðar króna, en eigið fé félagsins var um mitt þetta ár 250 milljónir evra, eða sem nemur um 32,5 milljörðum króna. Markaðsvirðið er því 1,7 sinnum eigið fé félagsins.
Gerir út einn frystitogara
Ögurvík er útgerðarfélag í Reykjavík sem gerir út frystitogarann Vigra RE 71. Aflaheimildir hans á fiskveiðiárinu sem hófst í byrjun mánaðar eru 7.680 tonn af botnfiski og 1.663 tonn af makríl. Vigri RE er eitt kvótahæsta fiskiskip íslenska flotans.
Rúm tvö ár eru síðan að Brim keypti Ögurvík, en þá var kaupverðið sagt trúnaðarmál.