Mesta verðbólga sem mælst hefur á fullveldistímanum var árið 1983 þegar hún fór upp í 85,7 prósent. Verðbólga – miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis – mældist 37,8 prósent fullveldisárið 1918 en árið 1922 var mesta verðhjöðnun sem mælst hefur á Íslandi, eða 19,7 prósent.
Þetta kemur fram í nýrri frétt Hagstofunnar sem birtist í tilefni aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.
Á Vísindavef Háskóla Íslands segir að árið 1983 hafi ýmis Íslandsmet í verðbólgu verið slegin og hefðu Íslendingar þó ýmsu vanist í verðlagsmálum áður. Ef miðað er við vísitölu neysluverðs, sem þá hét vísitala framfærslukostnaðar, varð verðbólgan mest frá febrúar til mars það ár en vísitalan hækkaði um 10,3 prósent milli þessara tveggja mánaða. Það samsvarar 225 prósent verðbólgu á ári.
Verðbólgan fór alvarlega úr böndunum síðari hluta ársins 1982. Í september það ár hækkaði vísitalan um 8,4 prósent. Verðbólgan róaðist ekki fyrr en ári síðar. Í september 1983 hækkaði vísitalan um 0,5 prósent á milli mánaða og var það í fyrsta sinn í rúm tvö ár sem hún hækkaði um minna en 1 prósent á milli mánaða.
Í tólf mánuði á undan, það er frá ágúst 1982 til ágúst 1983, hækkaði vísitalan um 103 prósent, en það þýðir að verðlag ríflega tvöfaldaðist á tólf mánuðum. Það þýðir þá auðvitað líka að sá sem átti peningaseðil í ágúst 1982 gat keypt helmingi minna fyrir hann í ágúst 1983. Verðbólgan allt árið 1983, það er frá janúar 1983 til janúar 1984, mældist rúm 70 prósent.
Orðið verðbólga ekki gamalt í íslensku
Orðið verðbólga hefur oft sett sterkan svip á umræðu um íslenskt efnahags- og stjórnmálalíf á undanförnum áratugum, segir Jón Hilmar Jónsson, rannsóknarprófessor á orðfræðisviði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, í grein sinni á Vísindavefnum. Hann bendir á að einföld orðabókarskýring á hugtakinu sé „almenn verðhækkun samfara verðfalli á gjaldeyri“.
„Meginheiti hugtaksins í nálægum tungumálum er inflation, orð af latneskri rót sem vísar upphaflega til þess að eitthvað sé fyllt lofti eða blásið út. Hin hagfræðilega merking orðsins kemur til sögunnar í ensku um miðja 19. öld,“ segir hann.
Orðið verðbólga er ekki mjög gamalt í íslensku, líklega frá þriðja áratug síðustu aldar, en orðið er í hópi þeirra fjölmörgu íslensku nýyrða þar sem orðmyndunin er lýsandi um merkinguna, jafnframt því sem greina má enduróm erlendrar fyrirmyndar. Elsta dæmi um orðið í ritmálssafni Orðabókarinnar er úr þingræðu á Alþingi frá árinu 1927, þar sem Jónas Jónsson frá Hriflu á í orðaskiptum við Jón Þorláksson forsætisráðherra, og gerir þar eftirfarandi athugasemd:
En fjárglæframenn er eins góð þýðing og sum þau orð, sem hæstv. ráðh. hefir auðgað tungu vora með, t.d. verðbólga o.s.frv.
Á Vísindavefnum er bent á að Héðinn Valdimarsson hafi notað orðið verðlagsbólga í greininni „Þróun auðmagnsins“ sem hann ritar í Skírni árið 1925:
Stríðsgróðinn lenti hjá stóriðjunni, og endurreisn heilla landshluta gáfu henni aftur ágætan arð. Verðlagsbólgan víðsvegar um Norðurálfuna flýtti fyrir þessu.
Tók nokkurn tíma fyrir orðið að festa sig í sessi
Jón Hilmar segir að svo sé að sjá sem nokkur tími hafi liðið þar til orðið verðbólga hafi fest sig í sessi, að minnsta kosti í almennu máli. Elsta finnanlegt dæmi um notkun þess í Morgunblaðinu er frá árinu 1931, þar sem sagt er frá falli sterlingspundsins:
Með lækkun pundsins ætla Englendingar sjer að skapa hægfara verðbólgu (inflation) og örva atvinnulífið í Englandi.
Hann gerir ekki ráð fyrir að orðið sé orðið alkunnugt á þessum tíma, því erlenda jafnheitið sé haft í svigum til glöggvunar.
„Af orðinu verðbólga hefur sprottið fjölskrúðugt orðafar sem á sinn hátt er lýsandi um þá mynd sem málnotendur gera sér af fyrirbærinu, eðli þess og áhrifum. Eftir því sem verðbólgan magnast og verður þrálátari mótast sú líking sem fólgin er í orðinu verðbólgudraugur,“ segir á Vísindavefnum.
Jafnframt segir að orðið verðbólgudraugur endurspegli vel þá afstöðu og reynslu að erfitt sé að ráða niðurlögum verðbólgunnar og hún geri mönnum lífið leitt. En verðbólgan hafi einnig þá ímynd að vera óviðráðanleg og stjórnast af sínu innra afli sem enginn fær við ráðið. Til marks um það séu orðin verðbólguskrúfa og verðbólguhjól, sem oft hafi verið gripið til í umræðunni.
Verðgildi krónunnar hundraðfaldað
Í byrjun árs 1981 varð gjaldmiðilsbreyting á Íslandi; nýir peningaseðlar voru gefnir út og verðgildi krónunnar var hundraðfaldað. Meðal annars voru settir 10, 50, 100 og 500 króna seðlar í umferð. Af þeim er nú aðeins 500 krónu seðillinn enn í gildi en seinna bættust við 1000, 2000, 5000 og 10000 króna seðlar.
Þótt útgáfu 10, 50 og 100 krónu seðla hafi verið hætt á níunda og tíunda áratug síðustu aldar þá voru þeir enn í umferð lengi á eftir. Í nóvember 2005 var sett reglugerð um innköllun þessara seðla og var frestur til að skila þeim inn til 1. júní 2007. Eftir það var ekki hægt að nota seðlana. Í lok apríl árið 2006 voru enn í umferð um 119 milljónir króna af 10, 50 og 100 króna seðlum, samkvæmt frétt Morgunblaðsins sama ár.