lls hafa 533 einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi á fyrstu tíu mánuðum ársins 2018. Flestir þeirra koma frá Írak, alls 89 talsins. Þá komu 70 frá Albaníu, sem flokkast sem er á lista stjórnvalda yfir örugg ríki þar sem grundvallarmannréttindi eru almennt talin virt. Þeim sem sækja um hæli frá öruggum ríkjum er yfirleitt ekki veitt hæli hérlendis.
Af þeim sem sótt hafa um hæli það sem af er ári eru 319 fullorðnir karlmenn, 86 konur, 64 drengir og 54 stúlkur. Þar af eru tíu fylgdarlaus börn. Alls hafa 577 mál verið afgreidd á árinu 2018. Í þeim hafa 114 manns fengið hæli hérlendis, 187 verið synjað um slíkt, 117 verið sendir aftur til þess lands sem þeir komu fyrst til innan Evrópu á grundvelli Dyflinar-reglugerðarinnar, 47 hafa fengið vernd í öðru ríki og 112 hafa hlotið önnur en óskilgreind málalok.
Þetta kemur fram í nýrri tölfræði verndarsviðs Útlendingastofnunar sem birt var í síðustu viku.
Mun færri flóttamenn en 2016 og 2017
Það stefnir allt í að mun færri flóttamenn sæki um hæli á Íslandi í ár en á undanförnum árum. Á öllu árinu 2017 sóttu hér um 1.096 manns um slíkt og því stefnir í að fjöldi hælisleitenda verði tæplega 60 prósent af því sem hann var í fyrra. Þá fengu 115 flóttamenn hæli hér, eða nánast sami fjöldi og hefur fengið slíkt það sem af er ári.
Flestir flóttamenn komu hingað til lands árið 2017 þegar þeir voru 1.130 talsins. Þá fengu 110 manns hæli á Íslandi.
Samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2017, sem birtur var í síðustu viku, var heildarkostnaður ríkissjóðs vegna hælisleitenda 3.093 milljónir króna í fyrra. Það er 105 milljónum króna minna en fjárhagsáætlun fyrir árið hafði gert ráð fyrir.
Fyrir utan þá flóttamenn sem koma að sjálfsdáðum til landsins þá tekur Ísland líka við svokölluðum kvótaflóttamönnum. Stefnt er að því að taka við allt að 75 slíkum á næsta ári, að mestu Sýrlendingum sem eru staddir í Líbanon og hinsegin flóttamönnum og fjölskyldum þeirra frá Kenýa.
Áður hafði Ísland tekið við samtals 695 kvótaflóttamönnum á 62 árum.
Vill borga flóttamönnum fyrir að draga umsóknir til baka
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur lagt fram drög að reglugerð sem í felst að Útlendingastofnun fái heimild til þess að greiða enduraðlögunar- og ferðastyrk til umsækjenda um alþjóðlega vernd í tilteknum tilvikum. Þau tilvik sem um ræðir eru þegar flóttamaður hefur annað hvort dregið umsókn sína um vernd hérlendis til baka eða hann hefur fengið synjun og ákvörðun hefur verið tekin um að veita aðstoð til sjálfviljugrar heimfarar.
Þeim yrði þá greitt fyrir að fara frá Íslandi í tveimur greiðslum. Sú fyrri, svokallaður ferðastyrkur, yrði greiddur út á Keflavíkurflugvelli. Sá síðari, svokallaður enduraðlögunarstyrkur, yrði greiddur í heimaríki viðkomandi.
Upphæðirnar sem standa til boða sem styrkur til þessara aðila fara meðal annars eftir því hvort viðkomandi er barn eða fullorðinn og hvaðan hann kemur. Þannig eiga fullorðnir einstaklingar frá Afganistan, Íran, Írak, Nígeríu, Sómalíu, Palestínu og Pakistan að fá allt að eitt þúsund evrur, um 123 þúsund krónur, ef þeir samþykkja að fara sjálfviljugur frá íslandi eða hafa fengið synjun á beiðni um alþjóðlega vernd. Barn frá sömu löndum getur hins vegar fengið 600 evrur samtals, um 74 þúsund krónur.
Fullorðnir einstaklingar frá Alsír, Egyptalandi, Kasakstan og Marokkó eiga að fá allt að 700 evrur, 86 þúsund krónur, fyrir að fara frá Íslandi en börn frá sömu löndum fá 37 þúsund krónur samtals í ferða- og enduraðlögunarstyrk.
Fylgdarlaus börn frá öllum ofangreindum ríkjum geta fengið allt að eitt þúsund evrur, 123 þúsund krónur, samþykki þau að draga verndarumsókn sína til baka eða að það sé þegar búið að synja þeim um alþjóðlega vernd.
Flóttamenn frá öðrum löndum en ofangreindum geta fengið á bilinu 100 til 200 evrur í ferða- og enduraðlögunarstyrk fallist þeir á þau skilyrði sem eru fyrir styrkveitingunni.
Drögin voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 17. ágúst síðastliðinn og samráðið stóð yfir í tíu daga. Engar umsagnir bárust.