Þegar frá því var greint sumarið 2015 að erlendum „athafnamönnum“ hefði tekist að fá greidda „til baka“ 12,7 milljarða danskra króna (ca. 290 milljarða íslenska) blöskraði Dönum, og reyndar fleirum. Ekki vegna þess að upphæðin væri sérlega há heldur vegna þess að viðkomandi borguðu aldrei peningana sem þeir fengu svo „endurgreidda“ frá dönskum yfirvöldum. „Ýmislegt rotið í ríki Dana“ hafa einhverjir kannski hugsað. Þetta var þó aðeins upphafið á öðru og meira.
Síðastliðinn fimmtudag greindu fjölmiðlar í Evrópu og víðar frá því að nokkrir af stærstu bönkum heims væru viðriðnir það sem talið er vera eitt stærsta skattsvikamál sögunnar. Upphæðin sem um ræðir nemur sem samsvarar tæplega 10 þúsund milljörðum íslenskra króna. Svimandi há tala og evrópskir fjölmiðlar fullyrða reyndar að tala geti enn átt eftir að hækka.
Grunur vaknar
Niels Fastrup, sérfræðingur hjá danska útvarpinu, DR, sagði í viðtali að skömmu eftir að „endurgreiðslumálið“ kom upp í Danmörku árið 2015 hefðu sérfræðingar 19 evrópskra fjölmiðla, frá 12 löndum, hist á fundi. Þar hefðu sumir greint frá grunsemdum sínum um að víðar en í Danmörku hefði verið leikinn sami leikurinn, sem sé að fá „endurgreiddan“ skatt, sem aldrei hefði verið greiddur. Í framhaldi af þessum fundi sérfræðinga fjölmiðlanna ákváðu þeir að ráðast í rannsóknarvinnu. 37 starfsmenn 19 fjölmiðla unnu að rannsókninni, sem hófst fyrir einu ári og var mjög umfangsmikil.
Þýska rannsóknarfréttastofnunin Correctiv stjórnaði vinnunni, sem fór fram með mikilli leynd og allir sem komu nálægt verkefninu, sem nefndist Cumex Files bundnir þagnareiði. Gögnin sem Correctiv hefur undir höndum eru samtals 180 þúsund blaðsíður en að sögn Niels Fastrup sérfræðings DR hefur hópurinn farið yfir að minnsta kosti annað eins magn síðan vinnan hófst. Brotastarfsemin hefur staðið yfir frá árinu 2001, kannski lengur, og fram til ársins 2016.
Mörg þekkt nöfn í Cumex Files
Morgan Stanley, Deutsche Bank, J.P. Morgan, Credit Suisse, Bank of America Merrill Lynch, State Street, Banco Santander, Commerzbank, Investec, Barclays, BNP Paribas, Hypo-Vereinsbank, Macquarie Bank. Þessi nöfn og mörg önnur koma margoft fyrir í gögnum Correctiv.
Aðferðin
Í grundvallaratriðum er aðferðin sem notuð hefur verið í nær öllum tilfellum sú sama. Hún er sú að stofna sérstakan sjóð í landi þar sem ekki er skylt að borga skatt af arðgreiðslum. Næsta skref er að sjóðurinn fái (oftast með aðstoð banka eða fjárfestingarsjóða) lánuð hlutabréf í fyrirtækjum, í öðru landi, þegar ársreikningadagur (arðgreiðsludagur) nálgast, slíkt þrýstir oft verði hlutabréfanna upp.
Þegar arðurinn hefur verið greiddur út, borgar stofnandi sjóðsins þeim sem aðstoðuðu hann (banki, lögmenn o.s.frv) og heldur sjálfur afganginum. Skattayfirvöld í landinu þar sem ,,fjárfest“ var halda ætíð eftir skatti af arðinum, í Danmörku er hann til dæmis 27 prósent. Eigandi sjóðsins sendir síðan kröfu um endurgreiðslu þessa skatts til skattayfirvalda í viðkomandi landi og fær peningana útborgaða.
Svo skilar sjóðseigandinn hlutabréfunum sem hann fékk að láni, en hefur áður fengið staðfestingu þess sem réði yfir bréfunum að hann, sjóðseigandinn, hafi átt bréfin þegar skatturinn var dreginn af arðinum. Ef hinn raunverulegi eigandi hlutabréfanna er staðsettur í landi þar sem ekki þarf að borga skatt af arðinum eru mörg dæmi þess, í málunum sem rannsökuð voru, að bæði hinn raunverulegi eigandi hlutabréfanna og sá sem fékk þau lánuð, krefji skattayfirvöld um endurgreiðslu og í Cumex skjölunum eru dæmi um að skattayfirvöld hafi endurgreitt sama skattinn margoft, allt að tíu sinnum. Þetta er í einföldu máli aðferðin sem notuð hefur verið.
Bankarnir vissu allt og tóku sjálfir þátt
Í Cumex skjölunum kemur fram að bankarnir sem tóku þátt í skattasvindlinu vissu nákvæmlega hvað var á seyði og tóku þátt í að leika á skattayfirvöld. Sumir bankanna hafa beinlínis viðurkennt þátttöku sína, til dæmis Barclays og Deutsche Bank en sá síðarnefndi vinnur nú með þýskum skattayfirvöldum að því að draga allt sem varðar þessi viðskipti fram í dagsljósið. Sú spurning hlýtur að vakna hvað fékk bankana til að taka þátt í þessari svikamyllu. Svarið er augljóst: þeir högnuðust sjálfir á svindlinu, ekki bara bankarnir heldur nutu líka yfirmennirnir góðs af. Sumir þeirra áttu hlut í þeim fyrirtækjum sem lánað var til hlutabréfakaupa í og fengu kannski ofan í kaupið sérstakan bónus frá bankanum vegna góðrar útkomu bankans. Einn hagfræðingur sem þýskt dagblað ræddi við sagði að græðgin ætti sér engin mörk „heilbrigð skynsemi og heiðarleiki víkur þegar seðlabúntin eru í augsýn.“
Fréttamenn danska útvarpsins heimsóttu Frank Tibo, hann var um nokkurra ára skeið yfirmaður skattadeildar þýska bankans Hypo-Vereinsbank, en í deildinni störfuðu 48 manns. Deildinni var ætlað að sjá til þess að bankinn stæði skil á greiðslu skatta í þeim löndum sem bankinn hafði útibú. Skömmu eftir að Frank Tibo tók við yfirmannsstöðunni, árið 2006, fór hann að gruna að ekki væri allt með felldu varðandi hlutabréfaviðskipti og ræddi það við yfirmenn bankans. Þeir gáfu lítið fyrir athugasemdirnar. Frank Tibo sagði að nokkrir fjármálamenn frá London hefðu verið mjög áberandi og nánast ógnandi í framkomu. Vildu heldur ekki greina frá viðskiptunum, nema að mjög takmörkuðu leyti. Í viðtalinu nefndi Frank Tibo einnig nýsjálendinginn Paul Mora, en þýsk skattayfirvöld vildu hafa hendur í hári hans vegna skattamála, en þá hvarf Nýsjálendingurinn eins og dögg fyrir sólu. Árið 2012 var Frank Tibo rekinn frá bankanum, sem nú hefur greitt skattasekt og bankinn vinnur um þessar mundir með þýskum skattayfirvöldum.
Fréttamenn DR og þýsku sjónvarpsstöðvarinnar ARD hittu þýskan lögmann, sem var aðstoðarmaður Hanno Berger, sem áður hafði unnið hjá þýskum skattayfirvöldum en snéri sér síðar að hlutabréfaviðskiptum. Þýski lögmaðurinn sem býr á ónefndum stað í Þýskalandi og gengur undir dulnefni (var í viðtalinu með grímu og rödd hans breytt) lýsti í viðtalinu hugarfari og viðhorfum Hanno Berger og hans líkum. Skattur væri kostnaður og úr þeim kostnaði á að draga, helst svo mikið að ekki þurfi að borga neitt. Uppljóstrarinn sagði að sitt hlutverk hefði verið að búa svo um hnútana að komist yrði hjá skattgreiðslum. „Maður missti algjörlega sjónar á raunveruleikanum, það varð ekki nóg að eiga einn Porsche, nauðsynlegt að eiga tvo, ekki eina villu á Majorka heldur tvær.“
Danir töpuðu hlutfallslega mestu
Tveir norrænir fjölmiðlar tóku þátt í rannsóknarvinnunni undir stjórn Correctiv. Danska útvarpið, DR, og dagblaðið Politiken. Eftir að uppvíst varð um margskonar klúður hjá danska skattinum varðandi endurgreiðslu söluskatts og fleira, peningaþvætti hjá Danske Bank og ýmislegt annað hefur danskur almenningur gegnum fjölmiðlana sýnt umfjöllun um peninga- og bankamál mikinn áhuga. Þegar tölurnar um peningana sem sviknir voru út úr skattinum eru skoðaðar sést að mest eru svikin í Þýskalandi, þar nema þau um það bil 4500 milljörðum íslenskra króna, í Frakklandi 2300 milljörðum, á Ítalíu 616 milljörðum, í Belgíu 272 milljörðum og í Danmörku 230 milljörðum króna. Fleiri lönd koma við sögu en tæmandi upplýsingar um þau svik liggja ekki fyrir. Ef litið er til íbúafjölda landanna kemur í ljós að Danir hafa orðið harðast úti. Þar er einkum einn banki sem kemur við sögu, sá er ástralskur, Macquarie.
Skattsvikin álitin viðskiptatækifæri
Í gögnum Correctiv kemur ástralski bankinn Macquarie mjög við sögu, einkum varðandi skattsvik í Danmörku og Þýskalandi. Í pappírum frá Macquarie er beinlínis talað um skattsvik sem viðskiptamódel, sem í felist mikil tækifæri. Macquarie er einn aðaleigandi danska fjölmiðlunarfyrirtækisins TDC og danski eftirlaunasjóðurinn ATP (sem heldur utan um eftirlaun einnar milljónar Dana) hefur verið í nánu samstarfi við Macquarie. Macquarie var um tólf ára skeið stór eigandi í flugstöðinni á Kastrup við Kaupmannahöfn og seldi sinn hlut, með miklum hagnaði fyrir þremur árum. Þá hafði komið fram að bankinn, sem breska dagblaðið ,,The Sunday Times“ kallaði í umfjöllun Vampýrublóðsuguna hafði sent milljónatugi danskra króna úr landi, og komið þeim í svonefnt ,,skattaskjól“. Enn standa yfir málaferli vegna sölunnar á flugstöðinni en dönsk skattayfirvöld krefja bankann um 703 milljónir danskra króna (um 13 milljarða íslenska).
Glæpamenn í jakkafötum og með hálstau stela frá almenningi Evrópskir stjórnmálamenn, sem hafa tjáð sig um Cumex skjölin og Correctiv skýrsluna eru allir á einu máli: svona svikamyllu verður að stöðva. Talsmenn Evrópusambandsins segja að nú verði stjórnmálamenn að taka höndum saman, ekki dugi að tala um hlutina, nú þurfi markvissar aðgerðir til að hindra að fjárglæframenn hrifsi til sín mikla fjármuni úr vösum almennings. Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Dana sagði þegar hann var spurður álits á skýrslu Correctiv hópsins: ,,Þeir ganga um í jakkafötum, með hálstau, en þeir eru glæpamenn.“
Þess má geta að danska sjónvarpið, DR1, sýnir mánudagskvöldið 22. október þátt um skattsvikamálið. Þátturinn er á dagskrá klukkan 18.30 að íslenskum tíma.