Losaralegt og illa undirbúið. Klúður. Þetta er niðurstaða rannsóknar tveggja danskra prófessora á þeim breytingum sem gerðar voru á fyrirkomulagi álagningar og innheimtu skatta í Danmörku fyrir 13 árum og hefur kostað danska ríkið milljarða í töpuðum tekjum. Skýrsla prófessoranna kom út á bók fyrir nokkrum dögum undir heitinu ,,Overmod og afmagt – historien om det nye Skat“.
Það er ekki nýlunda að ráðherrar kynni ,,tímamótabreytingar“. Þeim er ætíð ætlað að breyta, gera hlutina einfaldari og ódýrari, ,,jákvæð breyting fyrir borgarana“ er algengt orðalag við slík tækifæri. Oft eru slíkar breytingar af hinu góða, en ekki þó alltaf. Ákvörðun sem danska ríkisstjórnin tók árið 2004, og var leidd í lög ári síðar, er dæmi um breytingu sem hvorki leiddi til einföldunar né sparnaðar. Nú, þrettán árum síðar tala margir um þessa breytingu sem mesta skandal í sögu Danmerkur, á síðari tímum að minnsta kosti.
,,Stórt framfaraskref“ sagði Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur þegar hann kynnti, í apríl árið 2004, ákvörðun ríkisstjórnar sinnar um breytingar á innheimtu skatta og gjalda hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga. Skatttekjur eru ein helsta stoð samfélagsins og því ekki að undra að mikið væri um þetta fjallað í dönskum fjölmiðlum. Breytingin sem um ræddi var að innheimta skyldi færð frá sveitarfélögum í landinu til nýrrar stofnunar, SKAT, sem formlega tók til starfa 1. nóvember 2005. Lars Løkke Rasmussen þáverandi innanríkis- og heilbrigðisráðherra hafði fyrir hönd ríkisstjórnarinnar stjórnað undirbúningsvinnunni.
Einfaldara og ódýrara
Á áðurnefndum kynningarfundi sagði Lars Løkke Rasmussen að nýtt tölvukerfi sem SKAT myndi nota væri hið fullkomnasta sem völ væri á. Tölvukerfið sem kallað var EFI væri í mótun og yrði, að sögn ráðherrans, tekið í notkun árið 2007. Fréttamenn sem höfðu efasemdir og töldu sig vita að lengra væri í land með þetta tölvukerfi, gengu á ráðherrann en hann sagðist bjartsýnn. Blaðamaður Berlingske sagði á fundinum að þótt bjartsýni væri góður eiginleiki væri raunsæi þó mikilvægara. Þegar kom fram á árið 2007 var tilkynnt að EFI yrði ekki tilbúið fyrr en árið 2009. Það stóðst hinsvegar ekki og svo fór að tölvukerfið var ekki tekið í notkun fyrr en 2013. Danir höfðu þá gefið því nafnið 7-9-13.
Kostnaðurinn við kerfið reyndist samtals nema sem samsvarar um það bil 22 milljörðum íslenskra króna. Sá kostnaður er þó smámunir miðað við hvað tapast hefur í skatttekjum vegna galla í kerfinu enda kölluðu danskir fjölmiðlar EFI dýrasta tölvuleik sögunnar. Árið 2016 var ákveðið að loka EFI kerfinu. Einn kostanna við nýja kerfið, sagði Lars Løkke Rasmussen, vera að með notkun þess yrði unnt að fækka starfsfólki. Þegar SKAT varð til unnu samtals um 11 þúsund manns hjá skatt- og innheimtustofnunum sveitarfélaganna.
Hlustuðu ekki á viðvaranir
Þótt EFI tölvukerfið væri ekki komið í notkun þegar SKAT hóf starfsemi sína var starfsfólki fækkað. Frá árinu 2005 og fram til ársins 2017 fækkaði starfsfólki skattsins um rúmlega 5000 manns og í ársbyrjun 2017 voru starfsmenn 6100. Starfsmenn og margir aðrir bentu margsinnis á að starfsemi SKAT væri í molum. Ein ástæða þess væri sú að starfsfólki fækkaði mikið en EFI tölvukerfið sem átti að leysa mannshöndina af hólmi komst aldrei almennilega í gagnið. Stjórnmálamennirnir skelltu skollaeyrum við þessum ábendingum, gagnrýnendur voru jafnvel kallaðir úrtölumenn.
Níu skattaráðherrar á fjórtán árum
Frá árinu 2004 hafa samtals níu (allt karlar) gegnt embætti skattamálaráðherra. Flestir þeirra hafa staðið stutt við en Kristian Jensen, núverandi fjármálaráðherra og varaformaður Venstre, var ráðherra skattamála í sex ár, frá 2004 – 2010. Venstre (sem þrátt fyrir nafnið skilgreinir sig sem hægri miðjuflokk) var í ríkisstjórnarforystu þegar ákvörðun um stofnun SKAT var tekin og fram til ársins 2011. Frá kosningunum það ár og til 2015 var flokkur sósíaldemókrata í forystu ríkisstjórnarinnar (Helle Thorning-Schmidt) en frá kosningum sumarið 2015 hefur ríkisstjórn Venstre undir forystu Lars Løkke Rasmussen ásamt Liberal Alliance (Frjálsræðisbandalagið) og Det Konservative Folkeparti (Íhaldsflokkurinn) verið við völd.
Enginn þeirra níu ráðherra sem setið hafa í Skattaráðuneytinu frá árinu 2004 sá ástæðu til að breyta um stefnu, uppsagnirnar hjá SKAT héldu áfram allt fram til ársloka 2016.
Milljarðar útistandandi
24. apríl 2017 birti dagblaðið Politiken frétt um að í skýrslu sem endurskoðunarfyrirtækið PWC hefði unnið, fyrir Skattaráðuneytið, kæmi fram að samtals ætti SKAT útistandandi um það bil 100 milljarða króna (um það bil 1840 milljarðar íslenskir) og að líkindum yrði ekki hægt að innheimta nema í hæsta lagi fimmtung þessarar upphæðar, um 20 milljarða. Þremur dögum síðar birti dagblaðið Berlingske viðtöl við marga sérfræðinga sem allir lýstu eftir viðbrögðum stjórnvalda. Frá ráðherrum heyrðist ekkert. Nokkrum dögum síðar, eða 1. maí, gagnrýndi Mette Frederiksen, formaður Sósíaldemókrata, hve illa hefði verið staðið að undirbúningi SKAT á sínum tíma og beindi spjótum sínum fyrst og fremst að Kristian Jensen, sem sat í Skattaráðuneytinu frá 2004 til 2010. Enn þögðu ráðherrarnir, allir sem einn.
11. maí 2017 gerðist svo það að Carl Holst, þingmaður Venstre, lýsti því yfir í viðtali við Berlingske að ekki dygði að stinga höfðinu í sandinn, rannsókn á klúðrinu hjá SKAT væri nauðsynleg og yrði að fara fram. Tveimur dögum síðar tilkynntu tveir stjórnarandstöðuflokkar á þinginu, Enhedslisten (Einingarlistinn) og Alternativet (Annar valkostur) að þeir myndu krefjast rannsóknar á SKAT, og undir þetta tóku svo Sósíaldemókratar og talsmenn Danska Þjóðarflokksins. Þar með var ljóst að rannsóknin yrði samþykkt í danska þinginu (Folketinget). Þá rankaði skattaráðherrann Karsten Lauritzen við sér og tilkynnti að hann myndi kalla fulltrúa allra flokka til fundar við sig og að formleg rannsókn á SKAT færi fram. Ráðherrann hafði í ágúst 2016 tilkynnt að SKAT fengi aukna fjármuni og að starfsfólki þar myndi fjölga um 1000 fram til ársins 2020.
Afhendingartregða
Frá upphafi var ljóst að nefndarinnar sem skipuð var til að ,,fara í saumana“ á SKAT biði bæði umfangsmikið og tímafrekt verkefni. Nefndin tók til starfa 1. nóvember í fyrra og óskaði fljótlega eftir margskonar gögnum frá Skattaráðuneytinu og nokkrum stofnunum þess. Það hefur þó reynst hægar sagt en gert. Michael Ellehauge, formaður rannsóknarnefndarinnar (dómari við Vestra -Landsrétt) sagði fyrir nokkrum dögum, í viðtali við Berlingske, að treglega gengi að fá gögn afhent. Nefndin hefði orðið að setja ráðuneytinu sérstaka tímafresti til að afhenda gögn. Haldnir hefðu verið margir fundir og fjöldi bréfa send, til að reka á eftir afhendingu gagna.
Ekki er ljóst hvenær rannsóknarnefndin lýkur störfum og skilar af sér en það verður í alfyrsta lagi í lok næsta árs, að sögn formanns nefndarinnar. Til marks um umfang málsins má nefna að til þessa hefur rannsóknarnefndin fengið afhentar 1814 möppur með gögnum og ,, það er bara byrjunin“ sagði Michael Ellehauge. Stjórnarandstæðingar á þingi saka Karsten Lauritzen skattaráðherra um seinagang og tregðu við afhendingu gagna. Ráðherrann neitar slíkum ásökunum og segist hafa gefið starfsfólki ráðuneytisins fyrirskipanir um að afhenda öll gögn sem rannsóknarnefndin óskar eftir en bendir á að þetta sé ,,risamál“, eins og hann komst að orði.
Stofnunin SKAT lögð niður
Eins og nefnt var fyrr í þessum pistli var SKAT stofnað árið 2005 og þá lýst sem ,,stóru framfaraskrefi“. Þótt tilgangurinn hafi verið góður varð reyndin önnur. SKAT varð einskonar risi á brauðfótum og framfaraskrefið var aldrei stigið. Í júní í fyrra tilkynnti svo ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen að ákveðið hefði verið að leggja stofnunina SKAT niður og þess í stað yrðu stofnaðar 7 skattstofur sem staðsettar yrðu víða um land.
Með þessari breytingu sagði Karsten Lauritzen skattaráðherra vonast til að þeim hremmingum sem landsmenn hefðu orðið vitni að á undanförnum árum væri lokið. Og þær eru vissulega margar hremmingarnar. Hæst ber þá staðreynd að skatturinn á nú útistandandi jafnvirði 1840 milljarða íslenskra króna og líkur eru á að aðeins takist að innheimta lítinn hluta þeirra fjármuna.
Bókin Overmod og afmagt
Í nýútkominni bók prófessoranna tveggja, sem getið var í upphafi pistilsins er það sem þeir nefna ,,raunasögu skattsins“ rakin. Í stuttu máli er niðurstaða tvímenninganna að stofnun SKAT hafi verið mistök. Ákvörðunin hafi verið tekin í skyndi, án þess að sýnt hefði verið fram á gagnsemi breytingarinnar, undirbúningurinn alltof lítill og illa ígrundaður. Fjöldauppsögnum hafi verið haldið áfram löngu eftir að ljóst var að tölvukerfið EFI væri handónýtt , eins og prófessorarnir komast að orði. Og loks hafi stjórnmálamenn tregðast við að viðurkenna vandann. Prófessorarnir segja að í SKAT málinu hafi stjórnmálamenn fallið á prófinu, ekki einu sinni fengið 4.9!