Enski boltinn verður ekki á Sýn frá og með haustinu 2019, það er eftir þetta tímabil. Frá þessu var greint á Fótbolti.net í dag, og segir Björn Víglundsson, framkvæmdastjóri miðla Sýnar, að Sýn hafi ekki átt hagstæðasta tilboðið þegar útsendingaréttur á þessu vinsæla sjónvarpsefni var boðinn út.
Í frétt Fótbolta.net kemur fram að Sjónvarp Símans verði með enska boltann frá og með næsta hausti, eftir að yfirstandandi keppnistímabili lýkur.
Sýn, áður Stöð 2 Sport, hefur verið með sýningarrétt á enska boltanum frá því árið 2007.„Við settum fram afar myndarlegt tilboð sem var veruleg hækkun frá því sem við greiðum fyrir enska boltann í dag. Niðurstaðan var hins vegar að ofurtilboð barst úr annarri átt sem engin glóra væri í að jafna,“ segir Björn í viðtali við Fotbolta.net.
Síminn og Vodafone eiga í harðri samkeppni á markaði, bæði fjölmiðla- og fjarskiptamarkaði. Félögin eru bæði skráð á markað. Markaðsvirði Símans er rúmlega 34 milljarðar króna en Sýnar 16,6 milljarðar.
Umtalsverður munur eru á stærð félaganna, sé horft til eiginfjárstöðu. Hjá Vodafone er eigið fé ríflega 10 milljarðar króna, en hjá Símanum er það rúmlega 37,6 milljarðar.
Hlutabréf Vodafone féllu skarpt í verði í dag, eða um 7,3 prósent.