Geðheilbrigðiskrísa vofir yfir í grískum flóttamannabúðum sem stækkað hafa gífurlega á síðustu árum. Með samningi Evrópusambandsins við Tyrkland auk Dyflinnarreglugerðarinnar hefur byrði Grikkja á flóttamannavandanum aukist á sama tíma og önnur Evrópulönd finna minna fyrir honum. Þetta kemur fram í frétt The Economist sem birtist á fimmtudaginn.
Í fréttinni er vikið að samningnum milli Evrópusambandsins og Tyrklands árið 2016 í flóttamannamálum, en með honum ákváðu Tyrkir að stöðva bátsferðir hælisleitenda frá landinu og taka á móti hælisleitendum sem vísað hefur verið frá Grikklandi. Með samningnum dró verulega úr bátsferðum yfir Miðjarðarhafið og fjöldi hælisleitenda minnkaði til flestra ríkja Evrópusambandsins.
Hins vegar, þrátt fyrir að samningurinn hafi bundið enda á flóttamannavanda flestra Evrópuríkja, jók hann byrði Grikklands sem situr nú uppi með gífurlegan fjölda hælisleitenda. Þeir sem koma frá Tyrklandi enda oftast í flóttamannabúðum á grísku eyjunum Chios, Samos, Lesbos og Kos, en samkvæmt samningnum er þeim skylt að bíða þar þangað til hælisumsóknarferli þeirra lýkur.
Dyflinnarreglugerðin
Samkvæmt samningnum er öllum hælisleitendunum komið fyrir í Grikklandi þannig að auðveldara sé að vísa þeim til Tyrklands aftur ef hælisumsókn þeirra er synjuð, en mörgum Grikkjum grunar að ákvæðinu hafi verið bætt við til að framfylgja Dyflinnarreglugerðinni.
Sú reglugerð þykir umdeild, en samkvæmt henni er hælisleitanda skylt að sækja um hæli í fyrsta Evrópulandi sem hann kemur til. Þannig er meginþorri umsóknanna afgreiddur í þeim löndum sem næst eru Asíu eða Afríku: Grikklandi, Ítalíu og Spáni.
Hælisumsóknir fjórfaldast í Grikklandi
Áður fyrr skráði stór hluti hælisleitenda sig ekki í Grikklandi, heldur freistuðu þeir gæfunnar í öðrum Evrópulöndum. Frá undirritun samningsins hefur hins vegar orðið erfiðara fyrir þá að ferðast um Evrópu og sækja því mun fleiri um hæli í Grikklandi. Sem stendur nemur heildarfjöldi hælisleitenda í Grikklandi 65 þúsundum manna, en 9 þúsund þeirra eru á eyjunni Lesbos.
Það sem af er ári hafa grísk yfirvöld tekið á móti nær fjórum sinnum fleiri hælisumsóknum en þeir gerðu árið 2015. Þeir sem standast umsóknarferlið mega svo setjast að í Grikklandi sem flóttamenn, en fá ekki að fara til annarra Evrópulanda þangað til þeir fá grískan ríkisborgararétt.
Ömurlegar aðstæður
Evrópusambandið hefur varið yfir 1,6 milljörðum evra í flóttamannahjálp á Grikklandi til þess að mæta álaginu, en samkvæmt frétt The Economist eru aðstæður í grísku flóttamannabúðunum samt sem áður mjög slæmar.
Sem dæmi nefnir tímaritið flóttamannabúðirnar Moria á eyjunni Lesbos, en þar er lítið pláss eftir fyrir sívaxandi hóp hælisleitenda. Um 7,500 manns dvelja þar núna, en búðirnar höfðu upprunalega verið hannaðar til að hýsa 2,500 manns. Hjálparsamtök sem starfa á svæðinu hafa einnig greint frá neyðarástandi í geðheilbrigðismálum þar sem mikið bæri á sjálfsvígstilraunum ungra barna. Slagsmál í búðunum séu einnig daglegt brauð, en íbúarnir þurfa stundum að bíða í röð í allt að tólf tíma til þess að fá mat.
Föst í kerfinu
Kjarninn hefur áður fjallað um fall í fjölda hælisumsókna til Evrópusambandsríkja, en í fyrra fækkaði þeim um 44 prósent frá því árinu áður. Á sama tíma minnkaði fjöldi umsókna einnig á Íslandi, þó aðeins um 15 prósent.
Þrátt fyrir mikla fækkun hælisumsókna sitja margar þeirra enn fastar í kerfinu. Samkvæmt skýrslu Evrópusambandsins bíður tæp milljón umsókna afgreiðslu í öllu sambandinu. Frétt Economist bendir einnig á sama vandamál í Grikklandi, en þar eru stjórnvöld treg til þess að senda hælisleitendur aftur til Tyrklands þar sem landið þykir ekki öruggt.