Verði frumvarp Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra, um breytingar á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru, að lögum mun verða dregið verulega úr þeim hæfisskilyrðum sem þarf að uppfylla til að sitja í stjórn Fjármálaeftirlitsins (FME). Skýring á því hvers vegna dregið sé úr hæfi mann til að stýra Fjármálaeftirlitinu er ekki rökstudd í greinargerð.
Þetta kemur fram í umsögn Alþýðusambands Íslands um frumvarpið sem skilað var inn í gær. Í umsögninni, sem er undirrituð af Magnúsi M. Norðdahl, lögfræðingi sambandsins, eru gerðar margháttaðar athugasemdir við frumvarp Sigríðar.
Einn liður frumvarpsins snýr að þvi að breyta lögum um eftirlit með fjármálastarfsemi. Í þeim lögum er fyrir skýrt ákvæði um að stjórnarmenn Fjármálaeftirlitsins skuli „hafa óflekkað mannorð og mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða þeim sérlögum sem gilda um eftirlitsskylda aðila.“
Í tillögum Sigríðar felst afnám kröfunnar um að stjórnarmenn í Fjármálaeftirlitinu hafi óflekkað mannorð. Í umsögn Alþýðusambandsins segir hins vegar að auk hennar sé „þeim sem gerst hafa sekir um um alvarleg brot á hegningarlögum, lögum á sviði fjármálamarkaðar eða félaga eða þolað íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir sem einstaklingar eða forsvarsmenn fyrirtækja, veitt sjálfkrafa hæfi að liðum 10 árum eftir hafa verið dæmdir.“
Endurskoðun legið í loftinu
Heildarendurskoðun á því fyrirkomulagi sem falist hefur í uppreist æru hefur legið í loftinu í rúmt ár. Ástæðan eru þær opinberanir sem urðu í september 2017, þegar úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að fjölmiðlar ættu að fá afhent gögn sem tengdust uppreisn æru dæmdra sakamanna. Þá um sumarið höfðu mál dæmdra barnaníðinga sem hlotið höfðu slíka meðferð verið mjög til umræðu og þolendur og ættingjar þeirra höfðu krafist svara um af hverju viðkomandi brotamenn höfðu hlotið uppreist æru.
Gögn í máli Róberts Downey, dæmds barnaníðings, voru birt 12. september 2017. Strax lá fyrir að sú niðurstaða yrði fordæmisgefandi fyrir önnur mál sem snéru að uppreist æru og samhliða var sagt frá því að önnur gögn er vörðuðu uppreist æru aftur til ársins 1995 yrðu líka birt á næstunni.
Mál sem sprengdi ríkisstjórn
Á þessum tíma hafði verið hávær orðrómur um að faðir Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, væri á meðal þeirra sem hefðu skrifað meðmælabréf fyrir Hjalta Sigurjón Hauksson, mann sem var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir að níðast kynferðislega á stjúpdóttur sinni árum saman. Brotin hófust þegar hún var fimm ára og stóðu yfir, samkvæmt dómi, þar til hún flutti að heima um 18 ára aldur. Í þeim fólst meðal annars nær daglegt samræði.
Þá sendi Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna, frá sér yfirlýsingu þar sem hann gekkst við því að vera einn þeirra sem skrifuðu undir meðmælabréf með uppreist æru Hjalta Sigurjóns Haukssonar. Þáverandi og núverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, greindi frá því síðar sama dag að hún hefði greint Bjarna frá því í júlí að faðir hans væri á meðal meðmælenda Hjalta, en á þeim tíma fengu aðrir ekki upplýsingar um málið.
Daginn eftir sprakk ríkisstjórnin og boðað var til kosninga.
Tekið á ógagnsærri og tilviljunarkenndri framkvæmd
Frumvarp Sigríðar var lagt fram í október. Með því á að takast á við þau vandamál sem risið hafa vegna ógagnsærrar og tilviljanakenndrar framkvæmdar um uppreist æru.
Í greinargerð þess segir m.a.: „Viðhorf til refsinga og réttinda fanga hafa tekið umtalsverðum breytingum með þróun mannréttinda og alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum. Almennt má segja að þróunin sé í þá átt að hverfa frá því að menn missi borgaraleg réttindi þegar þeir eru dæmdir til fangelsisrefsingar. Jafnframt hefur þróunin orðið sú að réttindatakmörkunin verði eingöngu sú sem óhjákvæmilega leiðir af frelsissviptingunni. Ef takmarka á borgaraleg réttindi einstaklinga verður það ekki gert nema sérstaklega sé mælt fyrir um það með lögum.“