Stundum er sagt um okkur Íslendinga að við séum ótrúlega fljótir að tileinka okkur erlenda strauma, nánast á hvaða sviði sem er. Fyrirbærið sem hæst hefur borið undanfarna daga á sér hinsvegar ekki langa sögu hér á landi en er ekki nýtt af nálinni Þetta er að sjálfsögðu Black Friday.
Þeir fjölmörgu útlendingar sem leggja leið sína til Íslands reka augun í fjölmargt sem heimamenn veita enga athygli. Eitt er það að Íslendingar ganga mjög gjarna í svörtu, margir ferðamenn hafa orð á þessu þegar þeir eru spurðir um land og þjóð. Svart er líka tákn sorgarinnar, nær allir mæta til dæmis svartklæddir í jarðarfarir. Við eigum líka orðatiltæki þar sem orðið svart kemur fyrir og það er ætíð neikvætt „nú er það svart, svartnætti, aldrei séð það svartara“ og fleira mætti nefna.
Árið 1863 fyrirskipaði Abraham Lincoln forseti Bandaríkjanna að síðasti fimmtudagur í nóvember ár hvert skyldi vera frídagur (thanksgiving) þar vestra, til að þakka velgjörðir liðins árs. George Washington, fyrsti forseti Bandaríkjanna hafði þá löngu fyrirskipað að slíkur þakkargjörðardagur skyldi haldinn árlega en nefndi ekki tiltekinn dag. Árið 1939 ákvað Franklin D. Roosevelt forseti að þakkargjörðardagurinn skyldi haldinn fjórða fimmtudag í nóvember ár hvert og þingið staðfesti þessa tillögu hans tveimur árum síðar. Sá siður hefur haldist síðan og kalkúnn víða á borðum. Margir taka sér frí frá vinnu daginn eftir þakkargjörðina, fá þannig „langa helgi“. Black Friday
Árið 1951 var í tímaritinu Factory Management and Maintenance, sem fjallaði um iðnaðarmál, föstudagurinn eftir þakkargjörð nefndur Black Friday og vísað til þess að atvinnulífið væri nánast lamað, þar sem margir mættu ekki til vinnu. Þrátt fyrir það voru flestar verslanir opnar og því nýttu margir frídaginn til að versla. Lögreglan í borginni Fíladelfíu kallaði árið 1961 þennan föstudag Black Friday vegna mikils umferðaröngþveitis tengdu innkaupaferðum borgarbúa.
Stóra verslunarhelgin
Sú hefð, að nota föstudaginn eftir þakkargjörðardaginn, til innkaupa hefur fyrir löngu fest sig í sessi í Bandaríkjunum. Þar vestra er löng hefð fyrir alls kyns tilboðum og afsláttum, og „svarti föstudagurinn“ hefur árum saman verið einn stærsti innkaupadagur ársins. Salan eykst með ári hverju og verslanir keppast um að krækja í viðskiptavinina, það verður best gert með tilboðum og afsláttum. Verslanir auglýsa tugprósenta afslátt og allir seljendur vöru og þjónustu telja sig verða að taka þátt í slagnum um kúnnana.
Ekki gengur allt ætíð friðsamlega fyrir sig og bæði bandarískir og evrópskir fjölmiðlar birta árlega sögur, og myndskeið, af rifrildum og slagsmálum. Fyrir fjórum árum mátti til dæmis sjá myndskeið frá verslun í Maryland þar sem tvær konur vildu báðar fá sömu rauðu nærbuxurnar og slógu hvor til annarrar meðan þær héldu í buxnastrenginn. Buxurnar voru ekki gerðar fyrir átök og rifnuðu en konurnar héldu áfram að slást þangað til starfsmenn gripu í taumana. Fyrir nokkrum árum kom til mikilla átaka í húsgagnaverslun í Texas þar sem tveir hópar tókust á og notuðu húsgögn sem vopn. Þegar tókst að skakka leikinn höfðu margir hlotið sár og skrámur og fjöldi húsgagna stórskemmdur eða ónýtur. Enginn taldi sig eiga upptökin og verslunin sat uppi með skemmdirnar.
Líka í Evrópu
Þótt þakkargjörðarsiðurinn sé að mestu bundinn við Bandaríkin er föstudagurinn Black Friday orðinn útbreiddur í Evrópu. Einkum á allra síðustu árum. Danska dagblaðið Berlingske birti fyrir nokkrum dögum sölutölur frá Bandaríkjunum og nokkrum Evrópulöndum (ekki þó frá Íslandi) og þar kemur fram að Danir eru þeir sem kaupa allra þjóða mest á þessum útsöludegi, eins og Berlingske kallaði það. Danir keyptu fyrir upphæð sem svarar til ca. 42 milljarða íslenskra króna, í Bandaríkjunum nam salan þennan dag upphæð sem samsvarar 622 milljörðum íslenskra króna. Miðað við íbúafjölda landanna komast Bandaríkjamenn ekki í hálfkvisti við Dani.
Af hverju elska Danir Black Friday
Þessa spurningu lögðu blaðamenn Berlingske fyrir nokkra sérfróða um neytendamál og innkaupavenjur. Sérfræðingarnir nefndu allir að Danir leggi mikið upp úr að kaupa með afslætti, haldi fast um budduna. Og það eru ekki bara jólagjafirnar sem þeir kaupa á svarta föstudeginum. Parket, málning, húsgögn, matvörur, bílar, byggingarvörur, raftæki o.s.frv., o.s.frv.. Skrifari þessa pistils var í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum dögum og sá margt fólk í búðum. Fékk svo að vita að flestir væru þar að skoða en ætluðu að bíða með innkaupin fram til föstudags. Skrifarinn fór líka í stóra verslanamiðstöð og þar voru auglýsingar um „stórkostlega afslætti“ hvert sem litið var.
Fyrirbærið Black Friday á sér ekki langa sögu í Danmörku, byrjaði árið 2013. Þremur árum síðar vakti það athygli danskra fjölmiðla að þekktur verslunareigandi á Strikinu auglýsti að hann væri ekki með í þessum svarta föstudegi. Áðurnefndir sérfræðingar nefndu líka að hjá Dönum sé það nánast þjóðaríþrótt að rölta í búðir, þess vegna séu þeir mjög meðvitaðir um verð og láti ekki auðveldlega glepjast af gylliboðum sem vissulega er líka nóg af.
„Maður þarf að gæta þess að skilja ekki heilann eftir heima þegar maður fer í búðirnar á Black Friday“ sagði einn úr hópi sérfræðinganna.
Rímar illa við nytjastefnuna
Á allra síðustu árum hefur umræðan um neysluhyggju og nægjusemi orðið æ háværari í Danmörku. ,,Gleymir þjóðin svo þessu þegar Black Friday“ rennur upp spurðu blaðamenn Berlingske. „Nei“ var svarið. „Ef þú sérð töskuna sem þig langaði alltaf í, á tilboði sem ekki verður endurtekið, er erfitt að standast freistinguna“ sagði einn sérfræðinganna. „Þegar heim er komið með nýju sértilboðstöskuna, og ekki pláss fyrir eina í viðbót, er bara eitt að gera; fara með þá gömlu, sem varla sér á, í endurnotabúðina. Þar gerir svo einhver annar kjarakaup, fær þessa líka flottu tösku á spottprís. Allir eru ánægðir; sá sem seldi yfir að hafa ekki hent töskunni og kaupandinn sem borgaði aðeins brot af því sem ný taska hefði kostað.“
Skilar sér í endurnýtinguna
Ofangreind ummæli eins neytendasérfræðinganna koma heim og saman við upplýsingar endurnotaverslana og endurvinnslustöðvanna. Í kjölfar Black Friday eykst það sem þangað berst. Hvort sem um er að ræða fatnað, húsgögn, raftæki eða annað.
Hvað með netverslanirnar?
Netverslun hefur á allra síðustu árum aukist mjög mikið í Danmörku. Mörgum þykir þægilegt að þurfa ekki að fara í búðina, slíkar ferðir taka tíma, verðið stundum lægra á netinu, og freistingarnar færri en þegar rölt er um búðina. Danska útvarpið, DR, greindi frá því um miðjan dag sl. föstudag, Black Friday, að flutningafyrirtækin sem sjá um að koma netpöntunum til kaupenda sæju fram á algjört kaos, eins og það var orðað, pakkafjöldinn væri slíkur. Aukningin milli ára væri mikil og nú væri fólk farið að panta stærri hluti en áður, á netinu. Talsmaður danska póstsins, POSTNORD sagði að þótt það væri kannski óvenjulegt að verið væri að panta eldavélar og kæliskápa á netinu væri það viðráðanlegt. „Ég veit ekki alveg hvað við gerum ef fólk fer að kaupa bíla á netinu og vill fá þá senda heim, með póstinum.“