Þegar lög um Bankasýslu ríkisins voru sett árið 2009 var sett í þau ákvæði um að stofnunin skuli hafa lokið störfum eigi síður en fimm árum eftir að hún var sett á fót. Þegar þeim störfum lyki yrði „hún þá lögð niður“.
Áður en sá fimm ára frestur rann út lét fjármála- og efnahagsráðuneytið vinna lögfræðilega skoðun á því hvaða þýðingu umrætt ákvæði hefði á starfsemi Bankasýslu ríkisins ef hún myndi starfa í lengur en fimm ár, sem hún hefur sannarlega gert. Niðurstaða hennar var sú að ekki yrði ráðið með ótvíræðum hætti af lagagreininni að starfsemi Bankasýslunnar legðist sjálfkrafa af að liðnum fimm árum frá því að stofnunin tók til starfa.
Frumvarp átti að leggja niður stofnunina
Bankasýsla ríkisins var sett á fót af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur til að halda á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þá stóð til að stofnunin yrði starfrækt í fimm ár.
Þegar ný ríkisstjórn, undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, tók við hófst vinna við að breyta þessu skipulagi mála. Bjarni Benediktsson sat þá sem nú í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og lagði vorið 2015 fram frumvarp um meðferð og sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Samkvæmt frumvarpinu yrði Bankasýsla ríkisins lögð niður og eignarhlutir ríkisins í fjármálafyrirtækjum færðir undir fjármála- og efnahagsmálaráðherra. Hann átti að setja sérstaka eigandastefnu ríkisins sem tæki til þeirra fjármálafyrirtækja sem ríkið á eignarhluti í, skipa þriggja manna ráðgjafarnefnd, án tilnefninga, til að veita honum ráðgjöf um meðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum og undirbúa sölu og sölumeðferð þeirra eignarhluta. Þetta frumvarp varð á endanum ekki að lögum og Bankasýslan hefur haldið áfram störfum umfram þann líftíma sem henni var upphaflega ætlað.
Um nokkurra ára skeið hefur verið heimild í fjárlögum til að selja allt hlutafé ríkisins í Íslandsbanka og allt að 30 prósent hlut í Landsbankanum. Ekkert söluferli liggur þó fyrir sem stendur. Líklegt verður að teljast að ákvarðanir um hvort og hvenær selja eigi bankana verði tekin í kjölfar þess að hvítbók um framtíðarsýn og stefnu fyrir fjármálakerfið á Íslandi verður birt, en til stendur að hún komi út fyrir lok þessarar viku.