Persónuvernd bannar birtingu Tekjur.is á upplýsingum úr skattskrá
Stjórn Persónuverndar hefur komist að þeirri niðurstöðu að það megi ekki birta upplýsingar úr skattskrá landsmanna, þar sem bæði launa- og fjármagnstekjur eru aðgengilegar, rafrænt á vefnum. Tekjur.is hefur verið lokað.
Stjórn Persónuverndar komst í gær að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé að halda úti stafræna gagnagrunninum Tekjur.is þar sem upplýsingar úr skattskrá eru gerðar aðgengilegar. Rekstrarfélag gagnagrunnsins hefur verið gert að eyða gagnagrunninum og öðrum upplýsingum úr skattskrá sem félagið hefur undir höndum. Fær það frest til þess til 5. desember næstkomandi. Þetta kemur fram í ákvörðun stjórnar sem birt var í morgun.
Tekjur.is hafa orðið tafarlaust við ákvörðun Persónuverndar og hefur síðunni nú þegar verið lokað.
Vefurinn Tekjur.is opnaði 12. október síðastliðinn. Þar var hægt að nálgast upplýsingar um launa- og fjármagnstekjur allra fullorðinna Íslendinga eins og þær birtust í skattskrá ríkisskattstjóra 2017. Upplýsingarnar sýndu því tekjur allra landsmanna á árinu 2016. Hægt var einfaldlega að fletta þeim einstaklingi upp sem viðkomandi hefur áhuga á að vita hvað var með í tekjur á árinu.
Skattskrá landsmanna er opinber og aðgengileg á prenti í tvær vikur á hverju ári. Sú birting er á grundvelli 98. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Þar segir meðal annars að skattskrá skuli liggja frammi á „hentugum stað“ í tvær vikur á ári. Síðar í sömu málsgrein segir: „Heimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta, sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta.“
Samkvæmt niðurstöðu stjórnar Persónuverndar má hins vegar ekki setja þær opinberu upplýsingar fram með rafrænum og aðgengilegum hætti.
Tæmandi upplýsingar um tekjur
Einu sinni á ári birtir embætti ríkisskattstjóra lista yfir þá 40 einstaklinga sem greiða hæsta skatta hérlendis samkvæmt álagningaskrá. Á sama tíma eru þær skrár gerðar tímabundið aðgengilegar og nokkrir íslenskir fjölmiðlar ná í þær, búa til lista yfir tekjur einstaklinga eftir atvinnugreinum og selja forvitnum almenningi sem byggja á skránum.
Þær upplýsingar, sem embætti ríkisskattstjóra velur að birta með þessum hætti, gefa þó ekki raunsanna mynd af tekjum Íslendinga.
Sumir sem greiða himinháa skatta hafa getað beðið þangað til eftir að álagningarskráin er birt og talið svo fram. Þannig hafa þeir sloppið við að lenda á útsendum lista ríkisskattstjóra, og að nöfn þeirra birtist í flestum fjölmiðlum landsins. Og í álagningaskránum kemur bara fram hverjar heildargreiðslur viðkomandi vegna opinberra gjalda voru. Þar er ekki hægt að sjá t.d. hversu mikið hver einstaklingar þénaði í launatekjur og hversu háar fjármagnstekjur þeirra voru. Það skiptir umtalsverðu máli í ljósi þess að staðgreiðsla skatta af launatekjum er á bilinu 36,94 til 46,24 prósent að útsvari meðtöldu en fjármagnstekjuskattur var 20 prósent þangað til um síðustu áramót þegar hann var hækkaður upp í 22 prósent.
Ef einstaklingur er með þorra tekna sinna í formi fjármagnstekna þá borgar hann mun minna hlutfall af tekjum sínum til ríkissjóðs en ef hann er með þær í formi launatekna.
Upplýsingar um það hvernig tekjur fólks skiptast, og tæmandi upplýsingar um hverjir borga hvað í skatta, er hins vegar hægt að finna í áðurnefndri skattskrá. Þeirri sem myndar gagnagrunn Tekjur.is sem stjórn Persónuverndar hefur nú úrskurðað að standist ekki lög.
Ákvörðunin kom á óvart
Ingvar Smári Birgisson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, gerði þann 15. október síðastliðinn kröfu um að lögbann yrði sett á Tekjur.is. Því var hafnað. Auk þess barst formleg kvörtun borist Persónuvernd frá almannatenglinum Björgvini Guðmundssyni, einum eiganda KOM almannatengsla, vegna málsins. Á grundvelli þeirrar kvörtunar, og annarra sambærilegra, hóf Persónuvernd skoðun á málinu sem lauk með fyrrgreindum hætti í gær.
Í fréttatilkynningu frá Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni, lögmanni Tekjur.is, segir að ákvörðun Persónuverndar hafi komið verulega á óvart, enda séu einungis birtar upplýsingar á síðunni sem þegar séu opinberar og almenningur geti nálgast hjá Ríkisskattstjóra. „Í ákvörðuninni er horft framhjá þeirri staðreynd, sem og þeim lagaákvæðum sem tilgreina að útgáfa upplýsinga úr skattskrá sé heimil, í heild eða að hluta. Stjórn Persónuverndar túlkar skattalög með þeim hætti að eingöngu sé heimilt að gefa skattskrána út á pappír en ekki rafrænt sem er óraunhæft þar sem skattskráin er u.þ.b. 6.700 blaðsíður.
Sú túlkun stjórnar Persónuverndar að gagnagrunnar falli ekki undir fjölmiðlun er áhyggjuefni og er varhugaverð fyrir stöðu tjáningarfrelsins og frjálsrar fjölmiðlunar í landinu. Í því sambandi er rétt að minna á að framkvæmdavaldið skipar meirihluta stjórnar Persónuverndar án tilnefningar.
Tekjur.is vill þakka almenningi fyrir góðar viðtökur og gagnlega umræðu um tekjuskiptingu og skattlagningu í samfélaginu. Tekjur.is telur ákvörðun stjórnar Persónuverndar í andstöðu við lög og mun í framhaldinu skoða réttarstöðu sína.“
Kjarninn fjallaði ítarlega um helstu niðurstöðurnar sem hægt var að nálgast á Tekjur.is í fréttaskýringu sem birtist 12. október síðastliðinn. Hana er hægt að lesa hér.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði