Samkvæmt útdrætti úr ársreikningi Sjálfstæðisflokksins fyrir árið 2017 fékk flokkurinn alls 900 þúsund krónur í framlög frá Ísfélagi Vestmannaeyja, Ísam ehf. og Odda prentum og umbúðum ehf.
Öll umrædd fyrirtæki eru í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu hennar. Sjálfstæðisflokkurinn þurfti að endurgreiða 500 þúsund krónur af styrkjunum frá fyrirtækjunum þremur þar sem þeir komu á endanum allir úr sama vasa.
Þetta kemur fram í útdrætti úr ársreikningi Sjálfstæðisflokksins sem birtur var á vef Ríkisendurskoðunar í vikunni. Flokkurinn hafði skilað ársreikningi sínum til eftirlitsins fyrir 1. október, líkt og lög gera ráð fyrir, en útdrátturinn var hins vegar ekki birtur fyrr en tæpum tveimur mánuðum síðar. Þá höfðu þegar verið birtir útdrættir úr ársreikningum allra annarra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi.
Um sex prósent af framlögum lögaðila
Samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálasamtaka má lögaðili ekki gefa einstökum stjórnmálaflokki meira en 400 þúsund krónur árlega. Í lögunum er tekið fram að tengdir aðilar teljist sem einn ef „sami aðili eða sömu aðilar eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í báðum eða öllum lögaðilunum, enda nemi eignarhlutur hvers þeirra um sig a.m.k. 10% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðafjölda í viðkomandi lögaðilum. Sama á við ef einstaklingar eða lögaðilar, sem eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðila og hver um sig á a.m.k. 10% hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðilanum, eiga ásamt viðkomandi lögaðila meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í öðrum lögaðila. Til eignarhluta og atkvæðisréttar einstaklinga í lögaðilum samkvæmt þessum tölulið telst jafnframt eignarhlutur og atkvæðisréttur maka og skyldmenna í beinan legg.“
Þrátt fyrir það gaf Ísfélagið Sjálfstæðisflokknum 400 þúsund krónur í fyrra, Ísam gaf honum sömu upphæð og Oddi gaf flokknum 100 þúsund krónur. Samanlagt framlag þessarra þriggja tengdu aðila var því 900 þúsund krónur, eða 500 þúsund krónum meira en lög heimila.
Við þetta gerði Ríkisendurskoðun athugasemd og upplýsti Sjálfstæðisflokkinn um það. ÚR var að flokkurinn endurgreiddi styrkina frá Ísfélaginu og Odda. Alls tapaði Sjálfstæðisflokkurinn 15,1 milljón króna í fyrra. Framlög lögaðila til hans námu alls 15,3 milljónum króna, að meðtöldum þeim framlögum sem hann fékk frá Ísfélaginu og Odda, og því námu framlög Ísfélagsfjölskyldunnar til flokksins um sex prósent af öllum framlögum lögaðila fyrir endurgreiðslu.
Stærstu eigendur Morgunblaðsins
Guðbjörg Matthíasdóttir, og afkomendur hennar, eru á meðal efnuðustu fjölskyldna á Íslandi og reka umsvifamikla fyrirtækjastarfsemi. Fjölskyldan á meðal annars nær allt hlutafé í Ísfélagi Vestmannaeyja, hluti í skráðum félögum, allt hlutafé í Ísam, einu stærstu innflutnings- og framleiðslufyrirtækis landsins, og stærstan hluta bréfa í Odda. Guðbjörg og börn hennar greiddu sér 3,25 milljarða króna í arð á síðasta ári í gegnum félagið ÍV fjárfestingafélag ehf., sem heldur meðal annars á hlut hennar í Ísfélaginu.
Fjölskyldan eru líka stærstu eigendur Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. Ísfélagið á sjálft 13,43 prósent hlut og áðurnefnt félag, Hlynur A, í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, á 16,45 prósent hlut.
Aðkoma fjölskyldunnar að rekstri Morgunblaðsins hófst árið 2009 þegar hún myndaði bakbeinið í hópi aðila, að mestu tengdum sjávarútvegi, sem keypti Árvakur. Nokkrum mánuðum síðar réðu nýir eigendur Davíð Oddsson, fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, sem ritstjóra. Hann gegnir því starfi enn.
Fjármál taka stakkaskiptum
Fjármál þeirra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á þingi munu taka stakkaskiptum á þessu ári. Samþykkt var milli jóla- og nýárs 2017 að auka framlög þeirra úr ríkissjóði um 127 prósent, í 648 milljónir króna árlega. Einu flokkarnir sem skrifuðu sig ekki á tillöguna voru Píratar og Flokkur fólksins. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír fá samtals 347,5 milljónir króna úr ríkissjóði og framlög til þeirra hækka um 195 milljónir króna. Stjórnarandstöðuflokkarnir fá 300,5 milljónir króna, sem er 137 milljónum króna meira en þeir hefðu fengið ef framlögin hefðu ekki verið hækkuð.
Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti flokkur landsins, fær hæstu upphæðina, 166 milljónir króna. Ef framlögin hefðu ekki verið hækkuð hefði framlag til hans verið 93 milljónum krónum lægra.