Greiningar og áreiðanleikakannanir sem Icelandair Group lét framkvæma vegna fyrirhugaðra kaupa á WOW air leiddu í ljós að viðskiptin stóðust ekki þær forsendur sem gerðar voru við undirritun kaupsamningsins. Þetta kemur fram í kynningu sem farið var yfir á hluthafafundi Icelandair Group í dag, 30. nóvember, og birt hefur verið í tilkynningakerfi Kauphallar Íslands.
Helstu forsendur kaupsamnings Icelandair Group á WOW air, sem nú hefur verið fallið frá, voru þær að samkomulag myndi nást við leigusala WOW air, að staðfesting myndi fá á því að forgangsréttur flugmanna myndi ekki eiga við um flugmenn WOW air og að samkomulag myndi nást við skuldabréfaeigendur WOW air. Ekkert af þessu var leitt til lykta áður en að ákveðið var að hætta við kaupin. Þá var sérstakur fyrirvari um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar, sem Deloitte og Logs framkvæmdu. Það grunnmat liggur fyrir en er trúnaðarmál en í kynningunni segir að „fyrstu niðurstöður gáfu til kynna meiri fjárþörf en gert var ráð fyrir auk annarra atriða.“
Viðskiptin stóðust ekki forsendur
Í kynningunni er einnig farið yfir möguleg samlegðaráhrif af því að kaupa WOW air. Þau voru samþætting leiðakerfa, aukin hagræðing í flugvallaþjónustu, umsjón flugflota og viðhaldi og minni yfirbygging ásamt sameiginlegri sölu- og markaðsstarfsemi.
Auk áreiðanlekakönnunar voru framkvæmdar ýmsar greiningar. Í þeim meðal annars að framkvæma grunnmat á sjóðsstreymi WOW air til loka maí 2019. Sjóðsstreymisáætlunin var framkvæmd af Íslandsbanka. Seabury, sérhæfður flugrekstrarráðgjafi, útbjó auk þess viðskiptaáætlun sameinaðs félags og Kunde&Co framkvæmdi vörumerkjagreiningu. Loks greindi Icelandair sjálft flota WOW air, leiðakerfi og möguleg samlegðaráhrif.
Samandregið þá leiddi þessi vinna í ljós að að viðskiptin stóðust ekki þær forsendur sem gerðar voru við undirritun kaupsamningsins. Uppgefið kaupverð á WOW air , sem átti að greiða með hlutum í Icelandair, var um tveir milljarðar króna miðað gengi Icelandair þegar tilkynnt var um kaupin. Það gat þó lækkað ef áreiðanleikakönnun sýndi aðra stöðu en gengið var út frá, sem varð niðurstaðan.
Ljóst var að áhyggjur voru farnar látnar á sér kræla á meðal þeirra sem áttu í viðskiptum við WOW air. Í vikunni þurfti félagið til að mynda að skila fjórum Airbus vélum til leigusala þeirra. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans var það skýrt merki um að ótti var til staðar við það að WOW air myndi fara í greiðsluþrot sem gæti leitt til þess að flugvellir gætu kyrrsett vélar félagsins vegna vangoldina lendingargjalda.
Indigo kemur til sögunnar
Til að fá samþykki Samkeppniseftirlitsins fyrir samruna Icelandair og WOW air lá fyrir að þau kaup þyrftu að vera eini möguleikinn í stöðunni. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans fóru viðræður við eftirlitið fram á þeim grundvelli að WOW air væri fyrirtæki á fallandi fæti.
Í gærkvöldi, tólf tímum eftir að greint hafði verið frá því að Icelandair væri hætt við kaupin, var svo greint frá því að Indigo Partners og WOW air hafa náð samkomulagi um fjárfestingu þess fyrrnefnda í WOW air.
Í tilkynningu sagði Bill Franke, einn eiganda Indigo (Managing Partner), að Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW air, hafi náð miklum árangri við að byggja upp WOW air og að hann hlakki til samstarfs við starfsfólk félagsins. Þar kom einnig fram að Skúli yrði áfram meirihlutaeigandi í WOW air en engar sértækar upplýsingar um hvað fælist í fjárfestingunni voru birtar.