Mynd: Birgir Þór Harðarson

Stjórnmálaflokkarnir sammála um að fá meira rekstrarfé úr ríkissjóði

Allir flokkar á þingi standa að nýju frumvarpi um breytingar á lögum um stjórnmálastarfsemi. Í því verður fjármögnun stjórnmálaflokka á nafnlausum áróðri bannaður með lögum, geta einkaaðila til að gefa þeim pening aukin og krónunum sem skattgreiðendur greiða til stjórnmálaflokka fjölgað.

Fulltrúar allra flokka á Alþingi, þar á meðal sex formenn stjórnmálaflokka, hafa sameiginlega lagt fram frumvarp til að breyta lögum um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda. Verði frumvarpið að lögum mun lagaumhverfið sem stjórnmálaflokkarnir starfa í breytast umtalsvert.

Í því er meðal annars tekið á birtingu á nafnlausum kosningaáróðri, sem hefur verið áberandi í síðustu kosningum. Stjórnmálaflokkum, kjörnum fulltrúum þeirra og frambjóðendum, sem og frambjóðendum í persónukjöri, verður gert óheimilt að „fjármagna, birta eða taka þátt í birtingu efnis eða auglýsinga í tengslum við stjórnmálabaráttu nema fram komi við birtingu að efnið sé birt að tilstuðlan eða með þátttöku þeirra.“ Þeir sem brjóta gegn þessu munu sæta sektum.

Frumvarpið nær þó ekki til þriðju aðila, sem að forminu til eru óskyldir stjórnmálaflokkum þótt þeir gangi augljóslega erinda slíkra. Þannig aðilar geta áfram sem áður fjármagnað nafnlausan áróður. Í greinargerð frumvarpsins er það viðurkennt og sagt að nefndin sem vann það, og var skipuð fulltrúum allra flokka á Alþingi, hafi skipt vinnu sinni í tvennt. Annars vegar fjallaði hún um það sem hún taldi nauðsynlegar breytingar á lögunum og hins vegar um nafnlausan kosningaáróður.

Í greinargerð frumvarpsins segir að þær breytingar sem lagðar séu til nú taki „þó aðeins á hluta þess margbrotna vanda sem við er að etja. Aðrir þættir vandans munu koma til skoðunar í áframhaldandi vinnu nefndarinnar og annarri umbótavinnu á vegum Alþingis og stjórnvalda.“ Ekki er tilgreint sérstaklega hvað sé þar átt við.

Hámarksfjárhæðir hækkaðar

Á meðal annarra breytinga lagðar eru til eru meðal annars þær að leyfa stjórnmálaflokkum að taka á móti hærri framlögum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Í dag er hámarksframlag 400 þúsund krónur en lagt er til að hver og einn lögaðili eða lögráða einstaklingur megi gefa flokkum og frambjóðendum 550 þúsund krónur. Hækkun er upp þær launa- og verðlagsbreytingar sem hafa orðið frá því að lög um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda voru sett á sínum tíma.

Auk þess er lagt til að sú fjárhæð sem einstaklingur þarf að gefa til að vera nafngreindur í ársreikningum viðkomandi flokka eða frambjóðenda sé hækkuð úr 200 þúsund krónum í 300 þúsund krónur.

Hugtakið „tengdir aðilar“ verður samræmt samkvæmt frumvarpinu en nýleg dæmi, þar sem ríkisendurskoðun hefur gert athugasemdir við umframframlög aðila sem hafa verið gefin í gegnum nokkur mismunandi félög, sýna að þar hefur ekki verið vanþörf á. Samræmingin sem verður nú innleidd mun gera það að verkum að skilgreiningar á „tengdum aðilum“ verða sams konar og í annarri löggjöf, svo sem í hlutafélaga-, einkahlutafélaga-, ársreikninga- og samkeppnislöggjöf. Í greinargerð segir: „Þar sem vart er hægt að hugsa sér nánari tengsl lögaðila en móður- og dótturfélög er lagt til að aðilar í slíku réttarsambandi teljist tengdir í skilningi laganna. Tillagan er jafnframt í samræmi við tilmæli ÖSE, sem fram koma í úttektarskýrslu stofnunarinnar frá 2. mars 2018.“

Þá á að láta stjórnmálaflokkanna skila ársreikningum sínum til ríkisendurskoðanda fyrir 1. nóvember ár hvert í stað 1. október líkt og nú er. Sú grundvallarbreyting verður í kjölfarið gerð að ríkisendurskoðandi hættir að birta takmarkaðar upplýsingar úr reikningum flokkanna, svokallaðan útdrátt, og birtir þess í stað ársreikninganna í heild sinni áritaða af endurskoðendum.

Vilja lögbinda hækkun á framlögum til stjórnmálaflokka

Umdeilt þótti þegar fulltrúar sex af átta stjórnmálaflokkum sem eiga fulltrúa á þingi ákváðu að leggja fram tillögu um að hækka framlög til sjálfs síns um 127 prósent í fyrra. Tillagan var samþykkt í fjárlögum sem afgreidd voru á milli jóla og nýárs 2017. Fram­lög til stjórn­mála­flokka áttu að vera 286 millj­ónir króna á árinu 2018 en urðu í staðinn 648 millj­ónir króna. Einu flokkarnir sem voru ekki með á tillögunni voru Píratar og Flokkur fólksins.

Þessi breyting gerði það að verkum að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn mun fá um 166 millj­ónir króna í fram­lag úr rík­is­sjóði á árinu 2018 og fær mest allra flokka. Vinstri græn munu fá um 111 millj­ónir króna og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn 71 millj­ónir króna. Sam­an­lagt verða fram­lög til rík­is­stjórn­ar­flokk­anna þriggja því um 348 millj­óna króna fram­lag úr rík­is­sjóði á þessu ári til standa straum að starf­semi sinni, sam­kvæmt útreikn­ingum Kjarn­ans.

Ef fram­lögin hefðu ekki verið hækkuð í lok des­em­ber hefðu þeir fengið 195 millj­ónum krónum minna. Þeir fimm flokkar sem sitja í stjórn­ar­and­stöðu fá 300 millj­ónir króna sam­an­lagt sam­kvæmt sömu útreikn­ing­um. Án við­bót­ar­fram­lags­ins hefðu þeir fengið 167 millj­ónum krónum minna.

Í nýja frumvarpinu er lagt til að við endurskoðun á hinu almenna framlagi úr ríkissjóði skuli hafa hliðsjón af breytingum á vísitölum verðlags og launa. Ef neysluvísitala mun reynast hafa hækkað um jafn mikið og verðbólguspár gera ráð fyrir – eða 2,7 prósent – þá munu stjórnmálaflokkarnir átta því fá rúmlega 665 milljónir króna af skattfé í almennan rekstur sinn á næsta ári, eða 17,5 milljónum krónum meira en í ár.

Framlög til stjórnmálaflokka hækkuð

Frumvarpið sem nú hefur verið lagt fram hækkar enn þá upphæð sem stjórnmálaflokkar á þingi fá úr ríkissjóði. Þar segir að lagt sé til nýmæli „þess efnis að stjórnmálasamtök sem fulltrúa eiga á Alþingi skuli eiga rétt á svonefndu grunnrekstrarframlagi óháð stærð þeirra.  Stjórnmálasamtök sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi í næstliðnum alþingiskosningum eiga rétt á 12 millj. kr. grunnrekstrarframlagi úr ríkissjóði á ári hverju. Ný stjórnmálasamtök sem fá mann kjörinn á Alþingi eiga rétt á greiðslu styrks fyrir kosningaárið hlutfallslega miðað við kjördag.“

Miðað við niðurstöðu síðustu kosninga, þar sem átta flokkar voru kjörnir á þing, mun árlegur kostnaður ríkissjóðs vegna þessa verða 96 milljónir króna. Það þýðir að framlög til stjórnmálaflokka, sem hækkuð voru um 127 prósent á þessu ári, munu aftur hækka um tæp 15 prósent áður en að tillit verður tekið til launa- og verðlagsbreytinga.

Og allt að 45 milljónir til viðbótar

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á ákvæði laganna um úthlutun fjárstyrks úr ríkissjóði til að mæta útlögðum kostnaði við kosningabaráttu. Samkvæmt gildandi lögum geta stjórnmálasamtök sem bjóða fram í öllum kjördæmum í kosningum til Alþingis sótt um styrk sem er að hámarki þrjár milljónir króna. Í frumvarpinu er lagt til að ekki verði lengur gerð krafa um að bjóða þurfi fram í öllum kjördæmum til að geta sótt um styrkinn og þess í stað miðað við að stjórnmálasamtök þurfi að lágmarki að hafa boðið fram í þremur kjördæmum. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að hámark fjárstyrksins verði 750.000 krónur, sem er hækkun frá fyrra hámarki, fyrir hvert kjördæmi sem stjórnmálasamtök bjóða fram í, að því gefnu að þau uppfylli áðurnefnt skilyrði um lágmarksfjölda framboða í kjördæmum.

Í greinargerð frumvarpsins segir: „Sé miðað við fjölda framboða í öllum kjördæmum í síðastliðnum alþingiskosningunum hefði skuldbinding ríkissjóðs samkvæmt svo breyttu ákvæði numið að hámarki 45 millj. kr. Til viðmiðunar má nefna að í síðustu alþingiskosningum buðu alls níu stjórnmálasamtök fram í öllum kjördæmum og nam skuldbinding ríkissjóðs samkvæmt núgildandi lögum því 27 millj. kr. miðað við 3 millj. kr. hámarksstyrkgreiðslu til hverra stjórnmálasamtaka. Miðað við framangreindar forsendur hefði mögulegur kostnaðarauki ríkissjóðs, ef lagabreyting hefði átt sér stað fyrir síðastliðnar alþingiskosningar, orðið 18 millj. kr. Hver kostnaðarauki ríkissjóðs verður til framtíðar litið í tengslum við alþingiskosningar, verði breytingin samþykkt, mun ráðast af fjölda framboða í öllum kjördæmum í hverjum alþingiskosningum.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar