Mynd: Birgir Þór Harðarson

Stjórnmálaflokkarnir sammála um að fá meira rekstrarfé úr ríkissjóði

Allir flokkar á þingi standa að nýju frumvarpi um breytingar á lögum um stjórnmálastarfsemi. Í því verður fjármögnun stjórnmálaflokka á nafnlausum áróðri bannaður með lögum, geta einkaaðila til að gefa þeim pening aukin og krónunum sem skattgreiðendur greiða til stjórnmálaflokka fjölgað.

Full­trúar allra flokka á Alþingi, þar á meðal sex for­menn stjórn­mála­flokka, hafa sam­eig­in­lega lagt fram frum­varp til að breyta lögum um fjár­mál stjórn­mála­flokka og fram­bjóð­enda. Verði frum­varpið að lögum mun lagaum­hverfið sem stjórn­mála­flokk­arnir starfa í breyt­ast umtals­vert.

Í því er meðal ann­ars tekið á birt­ingu á nafn­lausum kosn­inga­á­róðri, sem hefur verið áber­andi í síð­ustu kosn­ing­um. Stjórn­mála­flokk­um, kjörnum full­trúum þeirra og fram­bjóð­end­um, sem og fram­bjóð­endum í per­sónu­kjöri, verður gert óheim­ilt að „fjár­magna, birta eða taka þátt í birt­ingu efnis eða aug­lýs­inga í tengslum við stjórn­mála­bar­áttu nema fram komi við birt­ingu að efnið sé birt að til­stuðlan eða með þátt­töku þeirra.“ Þeir sem brjóta gegn þessu munu sæta sekt­um.

Frum­varpið nær þó ekki til þriðju aðila, sem að form­inu til eru óskyldir stjórn­mála­flokkum þótt þeir gangi aug­ljós­lega erinda slíkra. Þannig aðilar geta áfram sem áður fjár­magnað nafn­lausan áróð­ur. Í grein­ar­gerð frum­varps­ins er það við­ur­kennt og sagt að nefndin sem vann það, og var skipuð full­trúum allra flokka á Alþingi, hafi skipt vinnu sinni í tvennt. Ann­ars vegar fjall­aði hún um það sem hún taldi nauð­syn­legar breyt­ingar á lög­unum og hins vegar um nafn­lausan kosn­inga­á­róð­ur.

Í grein­ar­gerð frum­varps­ins segir að þær breyt­ingar sem lagðar séu til nú taki „þó aðeins á hluta þess marg­brotna vanda sem við er að etja. Aðrir þættir vand­ans munu koma til skoð­unar í áfram­hald­andi vinnu nefnd­ar­innar og annarri umbóta­vinnu á vegum Alþingis og stjórn­valda.“ Ekki er til­greint sér­stak­lega hvað sé þar átt við.

Hámarks­fjár­hæðir hækk­aðar

Á meðal ann­arra breyt­inga lagðar eru til eru meðal ann­ars þær að leyfa stjórn­mála­flokkum að taka á móti hærri fram­lögum frá fyr­ir­tækjum og ein­stak­ling­um. Í dag er hámarks­fram­lag 400 þús­und krónur en lagt er til að hver og einn lög­að­ili eða lög­ráða ein­stak­lingur megi gefa flokkum og fram­bjóð­endum 550 þús­und krón­ur. Hækkun er upp þær launa- og verð­lags­breyt­ingar sem hafa orðið frá því að lög um fjár­mál stjórn­mála­flokka og fram­bjóð­enda voru sett á sínum tíma.

Auk þess er lagt til að sú fjár­hæð sem ein­stak­lingur þarf að gefa til að vera nafn­greindur í árs­reikn­ingum við­kom­andi flokka eða fram­bjóð­enda sé hækkuð úr 200 þús­und krónum í 300 þús­und krón­ur.

Hug­takið „tengdir aðil­ar“ verður sam­ræmt sam­kvæmt frum­varp­inu en nýleg dæmi, þar sem rík­is­end­ur­skoðun hefur gert athuga­semdir við umfram­fram­lög aðila sem hafa verið gefin í gegnum nokkur mis­mun­andi félög, sýna að þar hefur ekki verið van­þörf á. Sam­ræm­ingin sem verður nú inn­leidd mun gera það að verkum að skil­grein­ingar á „tengdum aðil­um“ verða sams konar og í annarri lög­gjöf, svo sem í hluta­fé­laga-, einka­hluta­fé­laga-, árs­reikn­inga- og sam­keppn­is­lög­gjöf. Í grein­ar­gerð seg­ir: „Þar sem vart er hægt að hugsa sér nán­ari tengsl lög­að­ila en móð­ur- og dótt­ur­fé­lög er lagt til að aðilar í slíku rétt­ar­sam­bandi telj­ist tengdir í skiln­ingi lag­anna. Til­lagan er jafn­framt í sam­ræmi við til­mæli ÖSE, sem fram koma í úttekt­ar­skýrslu stofn­un­ar­innar frá 2. mars 2018.“

Þá á að láta stjórn­mála­flokk­anna skila árs­reikn­ingum sínum til rík­is­end­ur­skoð­anda fyrir 1. nóv­em­ber ár hvert í stað 1. októ­ber líkt og nú er. Sú grund­vall­ar­breyt­ing verður í kjöl­farið gerð að rík­is­end­ur­skoð­andi hættir að birta tak­mark­aðar upp­lýs­ingar úr reikn­ingum flokk­anna, svo­kall­aðan útdrátt, og birtir þess í stað árs­reikn­ing­anna í heild sinni árit­aða af end­ur­skoð­end­um.

Vilja lög­binda hækkun á fram­lögum til stjórn­mála­flokka

Umdeilt þótti þegar full­trúar sex af átta stjórn­mála­flokkum sem eiga full­trúa á þingi ákváðu að leggja fram til­lögu um að hækka fram­lög til sjálfs síns um 127 pró­sent í fyrra. Til­lagan var sam­þykkt í fjár­lögum sem afgreidd voru á milli jóla og nýárs 2017. Fram­lög til stjórn­­­mála­­flokka áttu að vera 286 millj­­ónir króna á árinu 2018 en urðu í stað­inn 648 millj­­ónir króna. Einu flokk­arnir sem voru ekki með á til­lög­unni voru Píratar og Flokkur fólks­ins.

Þessi breyt­ing gerði það að verkum að Sjálf­­stæð­is­­flokk­­ur­inn mun fá um 166 millj­­ónir króna í fram­lag úr rík­­is­­sjóði á árinu 2018 og fær mest allra flokka. Vinstri græn munu fá um 111 millj­­ónir króna og Fram­­sókn­­ar­­flokk­­ur­inn 71 millj­­ónir króna. Sam­an­lagt verða fram­lög til rík­­is­­stjórn­­­ar­­flokk­anna þriggja því um 348 millj­­óna króna fram­lag úr rík­­is­­sjóði á þessu ári til standa straum að starf­­semi sinni, sam­­kvæmt útreikn­ingum Kjarn­ans.

Ef fram­lögin hefðu ekki verið hækkuð í lok des­em­ber hefðu þeir fengið 195 millj­­ónum krónum minna. Þeir fimm flokkar sem sitja í stjórn­­­ar­and­­stöðu fá 300 millj­­ónir króna sam­an­lagt sam­­kvæmt sömu útreikn­ing­­um. Án við­­bót­­ar­fram­lags­ins hefðu þeir fengið 167 millj­­ónum krónum minna.

Í nýja frum­varp­inu er lagt til að við end­ur­skoðun á hinu almenna fram­lagi úr rík­is­sjóði skuli hafa hlið­sjón af breyt­ingum á vísi­tölum verð­lags og launa. Ef neyslu­vísi­tala mun reyn­ast hafa hækkað um jafn mikið og verð­bólgu­spár gera ráð fyrir – eða 2,7 pró­sent – þá munu stjórn­mála­flokk­arnir átta því fá rúm­lega 665 millj­ónir króna af skattfé í almennan rekstur sinn á næsta ári, eða 17,5 millj­ónum krónum meira en í ár.

Fram­lög til stjórn­mála­flokka hækkuð

Frum­varpið sem nú hefur verið lagt fram hækkar enn þá upp­hæð sem stjórn­mála­flokkar á þingi fá úr rík­is­sjóði. Þar segir að lagt sé til nýmæli „þess efnis að stjórn­mála­sam­tök sem full­trúa eiga á Alþingi skuli eiga rétt á svo­nefndu grunn­rekstr­ar­fram­lagi óháð stærð þeirra.  Stjórn­mála­sam­tök sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjör­inn á Alþingi í næst­liðnum alþing­is­kosn­ingum eiga rétt á 12 millj. kr. grunn­rekstr­ar­fram­lagi úr rík­is­sjóði á ári hverju. Ný stjórn­mála­sam­tök sem fá mann kjör­inn á Alþingi eiga rétt á greiðslu styrks fyrir kosn­inga­árið hlut­falls­lega miðað við kjör­dag.“

Miðað við nið­ur­stöðu síð­ustu kosn­inga, þar sem átta flokkar voru kjörnir á þing, mun árlegur kostn­aður rík­is­sjóðs vegna þessa verða 96 millj­ónir króna. Það þýðir að fram­lög til stjórn­mála­flokka, sem hækkuð voru um 127 pró­sent á þessu ári, munu aftur hækka um tæp 15 pró­sent áður en að til­lit verður tekið til launa- og verð­lags­breyt­inga.

Og allt að 45 millj­ónir til við­bótar

Í frum­varp­inu eru einnig lagðar til breyt­ingar á ákvæði lag­anna um úthlutun fjár­styrks úr rík­is­sjóði til að mæta útlögðum kostn­aði við kosn­inga­bar­áttu. Sam­kvæmt gild­andi lögum geta stjórn­mála­sam­tök sem bjóða fram í öllum kjör­dæmum í kosn­ingum til Alþingis sótt um styrk sem er að hámarki þrjár millj­ónir króna. Í frum­varp­inu er lagt til að ekki verði lengur gerð krafa um að bjóða þurfi fram í öllum kjör­dæmum til að geta sótt um styrk­inn og þess í stað miðað við að stjórn­mála­sam­tök þurfi að lág­marki að hafa boðið fram í þremur kjör­dæm­um. Þá er jafn­framt gert ráð fyrir að hámark fjár­styrks­ins verði 750.000 krón­ur, sem er hækkun frá fyrra hámarki, fyrir hvert kjör­dæmi sem stjórn­mála­sam­tök bjóða fram í, að því gefnu að þau upp­fylli áður­nefnt skil­yrði um lág­marks­fjölda fram­boða í kjör­dæm­um.

Í grein­ar­gerð frum­varps­ins seg­ir: „Sé miðað við fjölda fram­boða í öllum kjör­dæmum í síð­ast­liðnum alþing­is­kosn­ing­unum hefði skuld­bind­ing rík­is­sjóðs sam­kvæmt svo breyttu ákvæði numið að hámarki 45 millj. kr. Til við­mið­unar má nefna að í síð­ustu alþing­is­kosn­ingum buðu alls níu stjórn­mála­sam­tök fram í öllum kjör­dæmum og nam skuld­bind­ing rík­is­sjóðs sam­kvæmt núgild­andi lögum því 27 millj. kr. miðað við 3 millj. kr. hámarks­styrk­greiðslu til hverra stjórn­mála­sam­taka. Miðað við fram­an­greindar for­sendur hefði mögu­legur kostn­að­ar­auki rík­is­sjóðs, ef laga­breyt­ing hefði átt sér stað fyrir síð­ast­liðnar alþing­is­kosn­ing­ar, orðið 18 millj. kr. Hver kostn­að­ar­auki rík­is­sjóðs verður til fram­tíðar litið í tengslum við alþing­is­kosn­ing­ar, verði breyt­ingin sam­þykkt, mun ráð­ast af fjölda fram­boða í öllum kjör­dæmum í hverjum alþing­is­kosn­ing­um.“

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar